Geir Pedersen, sérlegur sendimaður Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, hvatti í gær til þess að frjálsar kosningar yrðu haldnar í Sýrlandi sem fyrst.
Pedersen, sem hefur verið erindreki SÞ í Sýrlandi frá árinu 2018, sagði mikilvægt að nýir valdhafar í Sýrlandi virtu réttindi allra trúarhópa og þjóðarbrota í landinu og að allir hlutaðeigandi, bæði í Sýrlandi og utan þess, gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að koma á stöðugleika. Sýrlendingar væru afar vongóðir um betri tíma fram undan en á sama tíma væru þeir uggandi um að ekki yrði staðið við gefin loforð. Það væri að vonum í ljósi þess hve hröð umskiptin í landinu hafa verið.
Uppreisnarsveitir undir forustu Hayat Tahrir al-Sham (HTS), íslamskra samtaka sem hafa verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök af ýmsum vestrænum ríkjum, náðu völdum í landinu 8. desember eftir að Bashar al-Assad forseti landsins flúði til Rússlands. Samtökin hafa heitið því að tryggja að réttindi allra verði virt. Bráðabirgðastjórn er nú við völd og hefur lagt áherslu á að gera stofnanir ríkisins starfhæfar að nýju. Þá hafa vestræn ríki auk Sameinuðu þjóðanna að undanförnu sett sig í samband við nýja valdhafa og sum opnað sendiráð sín í landinu á ný.
Ógnarstjórn Assads og áralangt borgarastríð hafa sett mark sitt á landið, sem þarf að reiða sig á mannúðaraðstoð. Pedersen sagðist vonast til að alþjóðlegum viðskiptaþvingunum, sem beitt var gegn sýrlenskum stjórnvöldum, yrði nú aflétt.
Óvissa um Kúrda
Pedersen sagði að óvissa ríkti um hvernig mál myndu skipast í norðausturhluta Sýrlands þar sem Kúrdar ráða ríkjum. Óttast er að til átaka geti komið þar milli Sýrlenska lýðræðishersins (SDF), sem er undir stjórn Kúrda, og hópa sem njóta stuðnings Tyrkja. Bandaríkjastjórn sagðist í vikunni hafa haft milligöngu um að vopnahlé, sem hefur verið í gildi milli þessara hópa, yrði framlengt og væri í samskiptum við Tyrki um málið. Tyrklandsstjórn heldur því fram að hluti SDF hafi tengsl við herskáa hópa tengda Verkamannaflokki Kúrdistans í Tyrklandi, sem bæði tyrknesk og bandarísk stjórnvöld skilgreina sem hryðjuverkahópa.
Murhaf Abu Qasra herstjóri HTS sagði við AFP-fréttastofuna að svæði Kúrda í Sýrlandi yrðu sett undir nýja stjórn landsins og bætti við að HTS hafnaði fylkjaskiptingu landsins.
„Sýrland verður ekki sundrað,“ sagði hann og bætti við að Kúrdar væru eitt þeirra þjóðarbrota sem mynduðu sýrlensku þjóðina.
HTS hefur heitið því að koma lögum yfir þá sem frömdu glæpi í nafni ríkisstjórnar Assads og myrtu tugþúsundir eða sviptu frelsi til að bæla niður andóf.
„Við viljum vita hvar börnin okkar eru, bræður okkar,“ sagði Ziad Alaywi við AFP þar sem hann stóð við skurð nálægt bænum Najha, en þar er talið að lík fanga sem voru pyntaðir til dauða hafi verið grafin. gummi@mbl.is