Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Við afgreiðslu fjáraukalaga ársins 2024 á Alþingi var gert ráð fyrir 200 milljóna króna framlagi vegna ófyrirséðs kostnaðar við viðgerð á Breiðafjarðarferjunni Baldri.
„Þessi kostnaður verður til af kaupverði, flutningi ferjunnar, kostnaði vegna kaupanna, breytinga og uppfærslna sem gerðar voru á ferjunni áður en hún fór í rekstur til þjónustuaðila. Stærstur hluti þessa kostnaðar féll til á árinu 2023 en hluti af kostnaði vegna breytinganna fellur til á árinu 2024,“ segir í skriflegu svari Vegagerðarinnar, þegar leitað var skýringa á þessu viðbótarframlagi.
„Þegar fjárveiting til kaupanna var ákveðin var ekki að fullu ljóst í hversu miklar viðgerðir þyrfti að ráðast í til að gera skipið sem best úr garði áður en það færi í rekstur hjá Sæferðum á Breiðafirði. Erfitt er að sjá heildarumfang viðgerða fyrr en skip er komið í slipp, og þá kemur oft ýmislegt óvænt upp á sem þarf að bregðast við,“ segir í svarinu.
Endurbætur og viðgerðir hafi meðal annars falið í sér að koma fyrir nýjum landfestivindum og glussastöðvum, útbúa gámasvæði, yfirferð á aðalvélum og skolloftskælum, ísetningu á krana og kranadælum, breytingu á kanti fyrir ramp auk fjölmargra minni verkefna.
„Í raun er ekkert eitt stórt sem telur í þessu heldur er um að ræða almenna klössun og fyrirbyggjandi viðhald,“ segir Vegagerðin.
Þá upplýsir stofnunin að kostnaður við kaupverð, flutning, viðgerð og breytingar á Baldri sé 984 milljónir króna.
Ferjan Baldur var keypt í Noregi árið 2023 og hóf siglingar yfir Breiðafjörð síðla sama ár.