Qerndu Ragnar Axelsson ljósmyndari og Einar Geir Ingvarsson, hönnuður og framkvæmdastjóri, í galleríinu.
Qerndu Ragnar Axelsson ljósmyndari og Einar Geir Ingvarsson, hönnuður og framkvæmdastjóri, í galleríinu.
Ragnar Axelsson ljósmyndari og Einar Geir Ingvarsson hönnuður hafa opnað galleríið Qerndu (qerndu.com), þar sem skrifstofa þeirra er á 2. hæð á Laugavegi 3 í Reykjavík. „Unnendur ljósmynda Ragnars vilja sjá og eignast ljósmyndaprent og hérna getum við tekið á móti þeim,“ segir Einar

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ragnar Axelsson ljósmyndari og Einar Geir Ingvarsson hönnuður hafa opnað galleríið Qerndu (qerndu.com), þar sem skrifstofa þeirra er á 2. hæð á Laugavegi 3 í Reykjavík. „Unnendur ljósmynda Ragnars vilja sjá og eignast ljósmyndaprent og hérna getum við tekið á móti þeim,“ segir Einar. Um 20 ljósmyndir, sem RAX hefur tekið á Íslandi og norðurslóðum, eru þar til sýnis auk bóka þeirra og er stefnt að því að skipta reglulega um verk á veggjunum. „Í framtíðinni munum við kynna fleiri listamenn í galleríinu og vekja athygli landsmanna á mikilvægi ljósmyndarinnar.“

„Við höfum verið með 19 sýningar á árinu og þar af þrjár einkasýningar, nær allar erlendis,“ heldur Einar áfram, en hann er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og hefur skipulagt allar sýningar RAX frá því að samstarf þeirra hófst fyrir nokkrum árum. Á næsta ári er búið að ákveða þrjár stórar sýningar, í Seúl í Suður-Kóreu, Berlín og Brussel. Sýningar erlendis hafa meðal annars verið í München, Genf, Peking, Singapúr, Tókýó, London og New York, og segir Einar alla dóma í erlendum fjölmiðlum hafa verið lofsamlega. „Það er mikill áhugi á myndum RAX og gestir á sýningum okkar erlendis undanfarin þrjú ár eru að nálgast eina milljón.“

Eina ljósmyndagalleríið

Qerndu er sennilega eina gallerí sinnar tegundar hérlendis, en félagarnir hafa rekið samnefnt útgáfufyrirtæki, sem þeir stofnuðu með Heiðari Guðjónssyni, síðan 2017 í þeim tilgangi að gefa út ljósmyndabækur um norðurslóðir. Ný og endurbætt útgáfa af bókinni Fjallalandi (Behind Mountains) er í vinnslu auk þess sem þeir eru að vinna að fleiri verkum, sem lýsa breytingum á norðurslóðum. „Stærsta verkefnið verður síðan um svæði í öllum átta heimskautalöndunum, sem ég hef heimsótt í verstu, mögulegu aðstæðum. Í aftakaveðri,“ segir RAX.

RAX fór fyrst til Grænlands um 1980 og byrjaði að mynda mannlífið í nyrstu byggðum heims 1987. „Ári síðar sagði gamall maður mér á svæðinu að „stóri“ ísinn væri veikur og átti við Grænlandsjökul. Þá áttaði ég mig á því hvað heimafólkið hefur mikið að segja og er mikilvægt. Það veit sínu viti. Ljósmyndin endursegir þá sögu.“

Fyrir skömmu var RAX tilnefndur í annað sinn til hinna virtu, alþjóðlegu Pictet-ljósmyndaverðlauna og í sumar verða 12 ljósmyndarar valdir, en hann var einnig tilnefndur í keppninni í fyrra og þá voru myndir eftir hann sýndar í Victoria og Albert-safninu í Lundúnum og síðar víða um heim. Fólk á harðgerðum svæðum hefur sérstaklega heillað hann. „Þetta er röddin sem ég endurspegla með myndum mínum, hetjurnar sem leikarar um allan heim leika í kvikmyndum. Hetjurnar sjálfar eru samt hvergi sjáanlegar og rödd þeirra heyrist ekki. Ég vil gefa þessum hetjum og röddum þeirra líf. Lokabókin í ritröðinni er hugsuð sem sameiningartákn þessa fólks á norðurslóðum.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson