Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Samkeppniseftirlitið, SKE, varar keppinauta og hagsmunasamtök við því að taka þátt í opinberri umræðu um mögulegar verðhækkanir á ýmsum mikilvægum neytendavörum á markaði. Slík opinber umfjöllun geti farið gegn samkeppnislögum.
Tilkynning þessa efnis var birt á heimasíðu SKE í gær.
Segir SKE að dæmi sé um að starfsmenn tveggja fyrirtækja sem eru keppinautar í framleiðslu tiltekins vöruflokks hafi mætt saman í umræðuþátt og rætt verðhækkanir og fært fyrir því rök að hækkandi hráefnisverð hefði leitt til hækkunar á umræddum vörum til neytenda. Þeir hafi boðað að frekari verðhækkanir væru í farvatninu. Í öðru tilviki hafi verið tekin viðtöl við stjórnendur dagvörukeðja og eftir þeim haft að verulegar hækkanir væru fram undan.
Í tilkynningunni kemur fram að það geti talist til ólögmæts samráðs ef keppinautar ræði saman um væntanlegar verðhækkanir eða miðli upplýsingum um það sín á milli, þ. á m. í opinberri umræðu, t.d. fjölmiðlum. Fyrirtæki ættu ekki undir neinum kringumstæðum að miðla upplýsingum til keppinauta um verðbreytingar.
„Fyrirtæki og hagsmunasamtök þeirra mega vænta þess að Samkeppniseftirlitið taki vísbendingar um samkeppnishamlandi háttsemi sem hér er lýst til alvarlegrar athugunar. Brot á samkeppnislögum geta varðað ströngum viðurlögum,“ segir m.a. í tilkynningu SKE.
„Í raun og veru er Samkeppniseftirlitið þarna að sinna sínu hlutverki og mikilvægri leiðbeiningarskyldu. Ég tel rétt að allir taki þetta til sín,“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við Morgunblaðið, spurður álits á tilkynningunni.