Jón Geir Ágústsson byggingartæknifræðingur og fyrrverandi byggingarfulltrúi á Akureyri fæddist 7. ágúst 1935 á Tjörn í Ólafsfirði. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 10. desember 2024.
Foreldrar hans voru Ágúst Jónsson byggingarmeistari og Margrét Magnúsdóttir húsmóðir. Hann var næst yngstur fjögurra systkina: Magnús, d. 2022, María Sigríður, d. 2020, og eftirlifandi systir hans er Halldóra Sesselja.
Eiginkona Jóns Geirs var Heiða Þórðardóttir og bjuggu þau á Akureyri alla sína tíð. Heiða lést árið 2022. Þau eignuðust sex börn sem eru:
1) Signý, hennar börn eru Júlía Heiða, Victor og fósturbörnin Björn Þór og Birta Líf. Barnabörn Signýjar eru fimm. 2) Þórður, kvæntur Árdísi Fanneyju Jónsdóttur og þeirra sonur er Máni. 3) Margrét, gift Guðmundi Árnasyni og þeirra dóttir er Móheiður. 4) Þórdís, gift Sigurði U. Sigurðssyni og börn þeirra eru Geir, María og Jón Heiðar. Barnabörn Þórdísar og Sigurðar eru fimm. 5) María Sigríður, í sambúð með Stefano Pratesi og hennar sonur er Daníel. 6) Jóhann Heiðar, kvæntur Valdísi Rut Jósavinsdóttur og þeirra börn eru Fannar Már, Emilía Björk og Sara Mjöll. Jóhann og Valdís eiga eitt barnabarn.
Jón Geir fór til Noregs tæplega 19 ára gamall árið 1954 og lærði byggingartæknifræði við Tækniháskólann í Þrándheimi í tvö ár. Þegar heim var komið hóf hann störf hjá Akureyrarbæ og starfaði þar allan sinn starfsferil sem byggingarfulltrúi í samtals 43 ár. Hann var einn af stofnfélögum Myndlistarfélags Akureyrar, afar listhneigður og lagði stund á hinar ýmsu listgreinar og tók þátt í sýningum. Hann hannaði fjölmörg hús á Akureyri, bæði opinberar byggingar og íbúðarhús.
Útför Jóns Geirs fer fram í dag 19. desember 2024 frá Akureyrarkirkju og hefst kl. 13.
Geislafingur
gagnsær
grípur streng
og slær
fölbláan tón
á hörpu deyjandi dags.
(S.G.)
Nú þegar strengir í hörpu pabba okkar hafa þagnað þá syrgjum við og söknum en gleðjumst um leið að hafa átt hann að og allt það sem hann kenndi okkur. Hann kenndi okkur að meta fegurðina í umhverfinu, vanda til verka, minnti okkur á að láta draumana rætast og ítrekaði að koma tímar og koma ráð.
Hann var fróður og vel lesinn, minnugur langt fram eftir aldri, kunni ljóð og vísur og aragrúa af sögum af uppvaxtarárum sínum frá Ólafsfirði sem alltaf var gaman að hlusta á, enda einstaklega skemmtilegur sagnamaður. Ólafsfjörður átti ávallt stóran stað í hjarta pabba og í hans huga var enginn staður fegurri en þar sem hann sleit barnsskónum og átti hann þar samheldinn frændgarð og vini.
Sem ungur maður dreymdi hann um að læra gullsmíði en efni og aðstæður þess tíma leyfðu það ekki. Þess í stað komst hann í nám í byggingartæknifræði í Þrándheimi þar sem hann naut sín vel og stundaði skíði og skíðastökk með Magnúsi bróður sínum. Honum þótti alltaf vænt um Noreg og þann tíma sem hann átti þar.
Listagyðjan var pabba hliðholl allt frá unga aldri. Hann fékk mikla hæfileika í vöggugjöf, teiknaði, málaði, skar út í tré, smíðaði allt milli himins og jarðar, batt inn bækur, saumaði úr leðri og hannaði byggingar. Okkur fannst pabbi geta allt. Allt nema laga jólaseríur.
Alla tíð nutum við systkinin og fjölskyldur okkar þeirrar hlýju og kærleika sem var til staðar í Hamragerðinu hjá mömmu og pabba. Það var skapandi orka á heimilinu, við börnin nutum frelsis til að leika okkur og höfðum aðgang að ýmsum listverkfærum sem við fengum að njóta. Dyrnar í Hamragerðinu voru okkar ávallt opnar og öllum okkar vinum.
Að reka heimili með sex börnum hefur líklega verið ærinn starfi. Pabbi vann mikið, var í fullu starfi sem byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar í 43 ár og þegar hefðbundnum vinnudegi lauk hannaði hann fjöldamörg hús á vinnustofu sinni heima í Hamragerði. Pabbi var alltaf til taks fyrir okkur og var bóngóður með eindæmum. Hann sýndi öllum afkomendum sínum mikinn áhuga og fylgdist vel með vegferð hvers og eins.
Pabbi og mamma höfðu mikið yndi af ferðalögum bæði hér heima og erlendis.
Þau byggðu sér fallegt sumarhús í Vaðlaheiði þar sem þau áttu góðar stundir á efri árum.
Eftir að pabbi og mamma fluttu frá æskuheimili okkar flutti hann í Víðilund en mamma á öldrunarheimili. Pabbi átti góðan tíma í Víðilundinum og naut félagsskapar við gamla og nýja vini. Þar hélt hann áfram að skapa og bjó sér til vinnuaðstöðu í íbúðinni sinni.
Fram á síðustu stundu var hann frjór í hugsun og sköpun og hugmynd að næsta listaverki aldrei langt undan. Hann hætti aldrei að láta sig dreyma.
Regnbogann settir þú
í skýin
brú af geislum
lagða milli okkar
og þín
í dag höfum við gengið
hana
(Kristján frá Djúpalæk)
Við kveðjum ástkæran föður okkar, vin og sannan heiðursmann.
Guð geymi þig, elsku pabbi, og hafðu þökk fyrir allt sem þú varst okkur.
Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður, Jóhann Heiðar.
Ég kom fyrst í Hamragerðið í ágúst 1994 og þið Heiða tókuð mér fagnandi frá fyrstu mínútu og leið mér alltaf vel á ykkar heimili, ég varð strax partur af fjölskyldunni – ég tilheyrði. Heimilið ykkar Heiðu var einstaklega fallegt og allir alltaf velkomnir – þar ríkti kærleikur og maður fann alltaf að maður skipti máli – það skiptu allir máli. Allir sem komu við í Hamragerðinu fengu nefnilega tíma og betri gjöf er held ég ekki hægt að gefa fólkinu sínu. Að sitja í eldhúskróknum yfir kaffibolla og bleikri glassúrtertu var best og ekki spillti fyrir að hlæja svolítið á meðan því að alltaf slóst þú á létta strengi, varst með eitthvert grín og glens, rifjaðir upp skemmtilegar sögur og vísur, sem uppskar oft á tíðum mikinn hlátur. Jói þinn erfði eitthvað af þessum frásagnarhæfileika þínum og hafa börnin okkar notið góðs af því í gegnum tíðina og þykir mér einstaklega vænt um þennan eiginleika hans.
Jói minn og þú áttuð svo fallegt samband og Jóa þótti svo gaman að fá að brasa eitthvað með þér og leitaði ávallt ráða hjá þér við hin ýmsu verkefni, að læra af þér, pæla og spekúlera þar til besta niðurstaðan var fundin. Ég ætla mér ekki að segja að þér hafi verið margt til lista lagt því að það eru eiginlega ekki nógu stór orð yfir hæfileika þína og langar mig heldur að segja að þér hafi verið allt til lista lagt, ja nema kannski syngja. En þvílík fyrirmynd sem þú varst fyrir okkur, fannst alltaf út úr öllu og gafst aldrei upp. Ekki skemmdi nú fyrir millimetrahugsunin þín því að við byggingarfulltrúabörnin fíluðum það ávallt vel og erum sérstaklega góð í að mæla millimetrana.
Börnin okkar Jóa voru svo heppin að Hamragerðið ykkar var á miðri leið heim úr skólanum og komu þau við hjá ykkur Heiðu flesta daga, þar sem gripið var í spil, tekið spjall og jafnvel skellt í pönnsur – já og aftur kem ég inn á að þið gáfuð ykkur tíma, tíma til að hlusta og tíma til að bara vera og það stóra veganesti hef ég reynt tileinka mér í mínu lífi. Krökkunum okkar fannst alltaf svo mikill ævintýraljómi við Hamragerðið, líf og fjör og gleði. Ég er svo þakklát fyrir tenginguna ykkar við börnin okkar því að þau munu búa að henni alla tíð – einhverjir töfrar sem erfitt er að lýsa með orðum en þau voru svo sannarlega heppin með ömmu og afa.
Takk fyrir alla hjálpina Jón, takk fyrir góða lagerstöðu á flestum hlutum, takk fyrir húmorinn og léttleikann, takk fyrir fallegu verkin þín, takk fyrir afamolana, takk fyrir sögurnar, takk fyrir að hafa búið til Álfheima fyrir okkur fjölskylduna, takk fyrir að hvetja okkur alltaf áfram, takk fyrir að hafa verið alltaf svona stoltur af okkur, takk fyrir tímann og takk fyrir að þykja vænt um mig og mína.
„Það styttist – bráðum sé ég allt.“ Það voru síðustu orðin þín við Jóa minn. Nú sérðu allt.
Takk fyrir allt, elsku Jón minn.
Þín
Valdís.