Lúðvík S. Georgsson fæddist 19. desember 1949 í Reykjavík. Ársgamall flutti hann á Kvisthaga í Vesturbænum – framtíðarheimilið. „Þar hefi ég unað mér vel, með KR-svæðið í göngufjarlægð.“ Skólaganga Lúðvíks var hefðbundin, Melaskóli, Hagaskóli og MR. „Þá æfði ég knattspyrnu og körfuknattleik hjá KR mér til ánægju. Í HÍ valdi ég verkfræði fram yfir sagnfræði, sem var þó í uppáhaldi.
Stúdentssumarið 1969 starfaði ég á Skrifstofu ríkisspítalanna hjá föður mínum. Hann hafði í sumarbyrjun ráðið yngismey úr Hafnarfirði sem ritara sinn, og varð mér æ starsýnna á hana þrátt fyrir feimni. Þarna fann ég konuefnið mitt, Sonju Garðarsdóttur, fyrir atbeina pabba, og verð honum ætíð þakklátur fyrir það.
Eftir ár í HÍ hélt ég náminu áfram við Tækniháskólann í Lundi, í fyrstu einn því kærastan átti ólokið stúdentsprófi frá VÍ. Haustið 1971 héldum við svo saman til Svíþjóðar, nýgift, og áttum þar fjögur góð ár. Ég lauk meistaragráðu í eðlisverkfræði haustið 1975, en konan gráðu í félagsráðgjöf. Með frumburðinn á leiðinni var komið að heimferð.“
Heima beið Lúðvíks starf hjá Orkustofnun sem jarðeðlisfræðingur við jarðhitaleit. Þar var hann í hópi frábærra starfsmanna sem margir hverjir lifðu fyrir fagið – sannir vísindamenn og sumir á heimsvísu. „Sjálfur var ég þó ætíð maður tveggja heima. Jarðhitaverkefnin sendu mig vítt um landið en íþróttirnar toguðu á móti. Þegar mér bauðst sæti í stjórn knattspyrnudeildar KR 1980 varð ekki aftur snúið, enda fæddur inn í KR. Þar sat ég næstu 15 árin, sem ritari og síðan formaður 1991-1995. Stjórnarhópurinn var samhentur og félagið reis aftur á fætur eftir erfið ár. Íslandsmeistaratitillinn langþráði kom þó ekki á minni vakt. En fyrsti Íslandsmeistaratitill kvenna vannst 1993, og bikarsigur karla 1994 var sá fyrsti í 26 ár. Stóra árið, 1999, var þó skammt undan, er KR vann alla stóru titlana í knattspyrnu, bæði karlar og konur, og á 100 ára afmælinu – ógleymanlegt ár fyrir okkur KR-inga.“
Lúðvík skipti um starfsvettvang hjá Orkustofnun í ársbyrjun 1990 og var ráðinn aðstoðarforstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – starf hans næstu 30 árin. Í stað þess að lesa í jörðina með mælitækjum fór hann að vinna með fólk og kenna því að nýta jarðhitann. Nemendurnir eru frá þróunarlöndunum, einkum Afríku, tilnefndir af stofnunum sem fást við jarðhita og valdir með viðtali. Flestir eru þeir mjög áhugasamir. Síðustu ár hans í starfi, 2013-2019, var hann forstöðumaður skólans.
„Starfið gaf mér tækifæri til að skoða fjarlæg lönd. Það þarf að heimsækja samstarfslöndin, skoða aðstæður, taka viðtölin og velja. Kerfið virkar og skilar góðum árangri. Jafnframt fékk ég góða þekkingu á stöðu jarðhita í þriðja heiminum. Vegna þess var ég kjörinn í stjórn IGA – Alþjóða jarðhitasambandsins, árin 2014-2020.“
Í desember 1995 var Lúðvík kjörinn í stjórn KSÍ og sat þar til 2014. „Ég hafði verið í forystu um að leikmannasamningar væru teknir upp á Íslandi og varð nú m.a. ábyrgur fyrir svokölluðu leyfiskerfi UEFA á Íslandi, sem er gæðastaðall fyrir knattspyrnuna sem aðildarlönd UEFA þurfa að fylgja. Það leiddi til setu minnar í leyfisnefnd UEFA í rúman áratug. Loks verð ég að nefna mannvirkjanefnd KSÍ, sem ég stýrði í 19 ár og var mitt hjartans mál.“
Er Lúðvík gekk úr stjórn KSÍ var hann sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ. Heiðurskross KSÍ fylgdi 2020 og loks Stjarna KR vorið 2015 fyrir störfin hjá KR. „Bestu launin voru þó að upplifa þetta skila sér í ótrúlegum framgangi knattspyrnunnar. Úrslitakeppnir EM og HM karla og leikirnir í Frakklandi og Rússlandi 2016 og 2018 eru mér ógleymanlegar minningar.
Ég settist loks í helgan stein í árslok 2019, en þá kallaði KR enn á mig. Nú til að gefa kost á mér í stöðu formanns KR. Ég get ekki sagt nei við KR, en þetta voru erfið ár vegna covid-19. Tveimur árum síðar var góður eftirmaður tilbúinn, er Þórhildur Garðarsdóttir tók við embættinu, fyrst kvenna.
Við hjónin vorum lengst af ódugleg að ferðast saman, en höfum bætt úr því undanfarin ár, heimsótt lönd eins og Japan, Kenía, Kína, Nýja-Sjáland og Ástralíu. Þá höfum við farið í minnisstæðar fjölskylduferðir til Ítalíu og Egyptalands, þessara dásamlegu landa með allar sínar sögulegu minjar.
Svo er það veiðin, fátt skyggir á góða veiðiferð. Fjölskylduáin okkar er Flóka í Borgarfirði. Þar hafa flestir fengið maríulaxinn sinn.
Mér hefur fylgt lán í lífinu, í einkalífinu, í lífsstarfinu að jarðhitamálum og aðaláhugamálinu – KR og knattspyrnunni.“
Fjölskylda
Eiginkonan er Sonja Garðarsdóttir, f. 10.7. 1950, félagsráðgjafi, fv. starfsmaður Heilsugæslunnar. Þau Lúðvík gengu í hjónaband 8.8. 1971 og eru búsett í fjölskylduhúsinu á Kvisthaga. Foreldrar Sonju voru Garðar Magnússon, sjómaður í Keflavík, f. 28.7. 1922, d. 25.1. 1985, og Ása Hjálmarsdóttir, sjúkraliði og húsfreyja í Hafnarfirði, f. 29.9. 1924, d. 9.11. 2021.
Börn Lúðvíks og Sonju eru 1) Georg, f. 7.3. 1976, tölvuverkfræðingur og frumkvöðull (stofnandi Meniga), sambýliskona hans er Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, f. 27.6. 1984, forstöðumaður hjá Íslandsbanka, 2) Ása Guðlaug, f. 17.6. 1977, verkfræðingur, sjálfstætt starfandi, og 3) Magnús Þorlákur, f. 26.11. 1988, hagfræðingur hjá Icelandair, sambýliskona hans er Lydia Danis, f. 18.11. 1990, hjá Icelandair. Þau búa öll í Reykjavík.
Sonarsynirnir eru fjórir, Ellert Kristján, f. 2001, Valur Einar, f. 2006, Ari Lúðvík, f. 2020, og Hugi Atlas, f. 2024, allir Georgssynir.
Systkini Lúðvíks eru Margrét Georgsdóttir, f. 25.8. 1944, heimilislæknir, Ingibjörg Georgsdóttir, f. 7.4. 1953, ungbarnalæknir, og Gísli Georgsson, f. 27.12. 1954, verkfræðingur, verkefnisstjóri hjá Nýja Landspítalanum.
Foreldrar Lúðvíks voru hjónin Georg Lúðvíksson, f. 25.4. 1913, d. 20.2. 1979, framkvæmdastjóri Ríkisspítalanna, og Guðlaug Lára Jónsdóttir, f. 11.7. 1920, d. 3.5. 1982, bókari og húsfreyja.