Þráinn Guðmundsson fæddist í Vestmannaeyjum 24. júní 1943. Hann lést 6. desember 2024.
Þráinn var sonur hjónanna Sigurbjargar Jónsdóttur frá Miðbæli undir Austur-Eyjafjöllum og Guðmundar Þorsteinssonar frá Eystri-Sólheimum í Mýrdal. Sigurbjörg og Guðmundur fluttu til Eyja á fjórða áratugnum. Þau eignuðust tvö önnur börn, andvana fædda stúlku 1939 og dreng 1940 sem lést sama dag. Fjölskyldan bjó fyrst í Eiríkshúsi við Urðarveg og í Pétursborg við Vestmannabraut en byggðu svo húsið á Landagötu 14 og bjuggu þar fram að gosi 1973.
Eftir gos bjuggu þau um tíma í Reykjavík en fluttu svo á Selfoss þar sem þau festu kaup á viðlagasjóðshúsi að Lambhaga 20 og þar bjó Þráinn síðan.
Eftir hefðbundna skólagöngu í Vestmannaeyjum fór Þráinn í Iðnskólann og lærði húsgagnasmíði. Hann starfaði svo hjá meisturum sínum í greininni fram að gosi. Eftir að Þráinn flutti á Selfoss kom hann sér upp verkstæði í bílskúrnum í Lambhaganum og var sjálfstætt starfandi trésmiður þar til hann lét af störfum um sjötugt.
Svanhvít Kjartansdóttir eiginkona Þráins fæddist í Vestmannaeyjum 1. mars 1933. Hún flutti á Selfoss 1980. Svanhvít lést 12. ágúst 2020.
Börn Svanhvítar og fyrri eiginmanns hennar, Eggerts Sigurlássonar, eru: Kjartan, f. 27.9. 1954, d. 1977, Sigrún, f. 13.10. 1955, dætur Sigrúnar og fyrrverandi eiginmanns hennar, Franks Paulin, eru Linda, f. 12.4. 1979, d. 1991 og Edda, f. 28.11. 1980. Börn Eddu eru Kjartan James og Anja
Linda. Sambýlismaður Sigrúnar er Ólafur Gunnarsson, hann á 3 syni og 6 barnabörn. Hildur, f. 17.4. 1964, eiginkona hennar er Huldís Franksdóttir, hún á þrjú börn og 4 barnabörn. Hjalti, f. 4.5. 1971, eiginkona hans er Sigríður Margrét Helgadóttir, börn þeirra eru Svanhvít, f. 11.11. 2000 og Kjartan, f. 15.12. 2015. Fyrir á Sigríður tvö börn og þrjú barnabörn.
Þráinn og Svanhvít höfðu gaman af að ferðast og fóru víða bæði innanlands og utan auk þess að dvelja mikið í sumarbústaðnum undir Eyjafjöllum. Garðrækt sinntu þau af alúð bæði í Lambhaganum og bústaðnum.
Útför Þráins fer fram frá Selfosskirkju í dag, 19. desember 2024, klukkan 13.
Fallinn er frá góður vinur, Þráinn Guðmundsson, sem kom sem sumarvinnumaður að Hvassafelli í kringum 12 ára aldur. Hann dvaldi í nokkur sumur hjá okkur. Hann sagði að sér hefði alltaf liðið vel í sveitinni okkar og hann talaði um það fram á síðasta dag.
Hann og Svana eiginkona hans voru með bústað í sveitinni nálægt Seljavallalaug, þau komu nokkuð oft þangað og komu alltaf við á Hvassafelli. Taugin lá þangað.
Pabbi minn hafði búið hjá foreldrum hans á Landagötu 14 í Vestmannaeyjum þegar hann var þar á vertíð í nokkra vetur.
Þráinn var einkabarn foreldra sinna svo að það hefur ekki verið auðvelt að fara að heiman, en pabbi sinnti honum vel eins og öllum öðrum börnum og það hefur örugglega kveikt áhugann á að fara í sveitina.
Mér er svo minnisstætt þegar hann kom á Moskvitsinum sínum, þá fyrst fórum við í ferðalög, t.d. í berjamó. Í þá daga var ekkert farartæki til á Hvassafelli annað en traktorar.
Eitt sem ég sakna mest eru allar myndirnar sem hann tók af okkur fjölskyldunni úr berjaferðum og við ýmis önnur tilefni.
Að hitta mann sem bæði átti bíl og myndavél var mikil upplifun fyrir mig, vonandi verður hægt að nálgast myndirnar en hann var mjög fastheldinn á þær.
Hann var alla tíð mjög ræktarsamur við foreldra mína og fjölskyldu. Ég setti mynd á vegginn hjá honum á Eyrarbakka, af Hvassafelli eins og það var á hans árum í sveitinni, það var eins og að ég hefði gefið honum gull.
Elsku Sigrún, Hildur, Hjalti og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur.
Ég sakna góðs vinar og ferðanna okkar á Flúðir.
Hvíl í friði, elsku Þráinn.
Elín Pálsdóttir.