Bragi Straumfjörð Jósepsson fæddist í Stykkishólmi 6. febrúar 1930. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð 11. desember 2024.

Foreldrar hans voru Jósep Ingvar Jakobsson, f. 1905, d. 1942, og Jóhanna Bjarnrós Bjarnadóttir, f. 1907, d. 1943. Fósturfaðir sr. Sigurður Ó. Lárusson, f. 1892, d. 1978, fósturmóðir Ingigerður Ágústsdóttir, f. 1893, d. 1975. Samfeðra er Hulda Jósepsdóttir, f. 1930. Sammæðra eru Eyjólfur Guðmundsson, f. 1937, d. 2014, og Gunnar Guðmundsson, f. 1940.

Hann giftist Dóróte Oddsdóttur, f. 1934, og átti með henni tvö börn en þau skildu, sonur þeirra var Oddur, f. 1953, dóttir var Ingigerður Saga, f. 1960. Síðar giftist hann Gretu Freydísi Kaldalóns, f. 1947, og átti með henni þrjú börn en þau skildu. Börn þeirra eru: Logi, f. 1975, Sigurður Óskar Lárus, f. 1977, og Bragi Kormákur, f. 1981.

Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 19. desember 2024, klukkan 15.

Bragi mágur er látinn. Ég kynntist Braga fyrst árið 1974, þegar hann kvæntist systur minni Grétu Freydísi. Það var auðvelt að kynnast Braga, hann var opinskár, víðlesinn og alltaf til í góðar samræður. Þær fóru einatt fram í mesta bróðerni, og alltaf fór maður fróðari af fundi við Braga.

Bragi var með doktorsgráðu í uppeldisfræði og fróður um flesta hluti. Hann var öflugur baráttumaður fyrir sínum málum og fylginn sér. Þessi harðduglegi vinnuhestur stofnaði þó nokkur fyrirtæki. Undirritaður kom lítillega að tveimur þeirra, Sólkó og Skáís.

Sólkó eða Sólkompaní flutti inn vörur frá BNA, en þar hafði Bragi brotist til mennta. Um skeið átti hann allstóran lager af vörum, sem við hjónin hjálpuðum til við að koma í verð, því Bragi hafði í öðru að snúast. En við hjónin fluttum til Kanada um skeið og þar með lauk afskiptum okkar af Sólkó.

Skáís hét fullu nafni Skoðanakannanir á Íslandi. Þær kannanir voru af ýmsum toga og fóru fram víðsvegar um landið. Fyrirtækið var einatt í fréttum á árunum 1987 til 1995 og talsverða skipulagningu þurfti til að halda utan um það, einkum þegar kannanir voru gerðar um landið allt, eða miðin.

Rannsóknir á sviði uppeldisfræði komu í hlut Braga. Hann rak um tíma tilraunakennslu í Miðbæjarskólanum fyrir námfús börn. Ekki kann ég að skýra frá niðurstöðunni, verk hans tala sínu máli um það.

Bragi fæddist í Stykkishólmi og bjó þar síðustu ár ævinnar. Þar vann hann við skriftir um menn og mannvirki í Hólminum. Eftir hann liggur fjöldi bóka, sem hægt er að nálgast á netinu.

Gréta og Bragi bjuggu um skeið í Skipholti 64. Móðir okkar Grétu bjó þar í kjallaranum frá árinu 1983 til dauðadags. Þar í húsinu hittust frændsystkinin, þ.e. dætur okkar hjóna og synir Grétu og Braga. Þau eru og voru öll á svipuðum aldri og þar mynduðust tengsl sem aldrei týnast. Því fagna ég um leið og ég kveð góðan vin og mág.

Við samhryggjumst Grétu og sonunum þremur, sem og öðrum afkomendum Braga og ættingjum sem við vitum af í BNA.

Örn og Kamilla Kaldalóns.