Myndlist
María Margrét Jóhannsdóttir
Þegar tilefnið er stórt þá er eðlilegt að öllu sé tjaldað til og sú er raunin í Listasafni Íslands sem í ár fagnar 140 ára afmæli sínu. Við Fríkirkjuveg stendur nú yfir viðamikil sýning á safneign safnsins undir heitinu Innsýn, útsýn – Listasafn Íslands í 140 ár. Allt húsið er undirlagt af málverkum, skúlptúrum, ljósmyndum og innsetningum en um er að ræða hátt í 200 verk eftir 100 listamenn sem gefa innsýn í íslenska listasögu frá stofnun safnsins sem skipt hefur verið í fjögur ólík þemu: samfélag; myndir af manneskjum; form, línur, litir og maður og náttúra.
Uppsetning sýningarinnar er skemmtileg og er rými safnsins vel nýtt. Það er til að mynda áhrifamikið að nýta anddyri og forrými salanna fyrir stóru skúlptúra Rósu Gísladóttur, „Forma Dulcis/Kökuform“, „Glans/Akarn“ og „Scutum/Skjöldur“ sem minna á gríska og rómverska list til forna en kallast um leið á við samtímann. En það er einmitt það sem verið er að gera á þessari sýningu þegar kafað er í geymslur listasafns, gömul verk dregin fram og sett í nýtt samhengi.
Afrek unnin í forvörslu
Safneign Listasafnsins er áhugaverð fyrir margra hluta sakir, og á sýningunni má sjá marga dýrgripi dregna fram í dagsljósið. Nefna má málverk eftir listakonuna Berthu Wegmann frá árinu 1898, „Ein á gangi í skóginum“. Wegman var á tímabili einn vinsælasti mannamyndamálari Danmerkur en féll í gleymsku en nú má segja að listheimurinn hafi tekið við sér og sýni henni þá virðingu sem hún á skilið. Verkið er eitt fjögurra verka eftir listakonuna sem bárust safninu árið 1929 en í erfðaskrá ánafnaði hún þjóðarsöfnum á Norðurlöndum lykilverk eftir sig. Þess má geta að ekki öll söfn þáðu gjöf hennar sem segir ýmislegt um stöðu listakvenna á þeim tíma. Stúlkan á myndinni er talin vera sænski rithöfundurinn Toni Möller sem var lífsförunautur Wegmann. Verkið var ekki í góðu ástandi og tók það um 200 klukkustundir að gera verkið sýningarhæft. Á Youtube-síðu Listasafnsins má sjá stutt viðtal við Steinunni Harðardóttur forvörð sem lýsir umfangsmikilli vinnu við hreinsun og lagfæringar en það er safninu til hróss að leggja í það verkefni. Verkið er stórt (225x135 cm) og útskorinn ramminn voldugur. Þarna má sjá kristallast með látlausum en áhrifamiklum hætti angurværan ástaróð listakonunnar til unnustu sinnar, þvert á öll norm þess tíma. Ljósmynd nær einfaldlega ekki á nokkurn hátt að fanga hversu tilkomumikið verkið er og því mikilvægt að listunnendur skoði það með eigin augum.
Langur listi merkra verka
Fleiri áhugaverð verk sem fanga augað og toga í hjartarætur eru til dæmis skúlptúr Nínu Sæmundsson „Deyjandi Kleópatra“, „Spákonujökull á Íslandi“ frá árinu 1928 eftir óþekktan listamann, „Valdakonur“ eftir Önnu Hallin, „Söngskemmtun“ eftir Þorvald Þorsteinsson, „Dúett I og II“ eftir Margréti Jóelsdóttur og Stephen Fairbarn og „Safn“ eftir Olgu Bergmann. Eins er gaman að sjá verk Magnúsar Tómassonar „Herinn sigursæli“ sem hann sýndi á einkasýningu árið 1969 í Gallerí SÚM en hann er einn af framsæknari listamönnum hér á landi. Hugmyndaauðgi og húmor einkenna verk hans en þekktastur er hann fyrir styttuna við Tjörnina „Minnisvarða um óþekkta embættismanninn“.
Þá má ekki gleyma að minnast á verk Pablos Picasso „Jacqueline með gulan borða“ sem Jacqueline Roque Picasso, ekkja listamannsins, gaf Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands og var afhent Listasafni Íslands til varðveislu árið 1988. Listinn gæti verið lengri en hér verður látið staðar numið.
Salurinn sem helgaður er portrettmyndunum er sérstaklega forvitnilegur og líflegur. Þar má finna hefðbundin portrettverk eftir til dæmis Edward Munch, Ásgrím Jónsson og Kjarval en líka vídeóverk eftir Unu Margréti Árnadóttur, brjóstmyndir Önnu Hallin, ljósmynda-portrett Erlings Klingenberg og sjálfsmyndir eftir Megas. Portrettið getur verið mjög spennandi og persónulegur miðill listamanns sem vekur oft á tíðum áleitnar spurningar um stöðu viðfangsins í samfélaginu eða varpar ljósi á það hvernig viðkomandi vildi koma öðrum fyrir sjónir.
Öll miðlun til fyrirmyndar
Listasafn Íslands hefur á undanförnum misserum gefið verulega í hvað miðlun varðar og vandaða fræðslustarfsemi, svo eftir því er tekið, en stutt er síðan safnið var tilnefnt til Íslensku menntaverðlaunanna fyrir framúrskarandi fræðslustarf. Þessar áherslur á miðlun og fræðslu eru greinilegar á sýningunni. Hnitmiðaður texti fylgir hverju verki, sem gefur greinargóðar upplýsingar um bakgrunn og túlkun verkanna. Án slíkrar textanotkunar væri hætt við að safngesturinn færi á mis við sögu og ýmsan fróðleik um verkin og að listamenn færu á mis við safngestinn.
Samhliða sýningunni var gefin út bókin 140 verk úr safneign Listasafns Íslands þar sem ítarlegur texti fylgir hverju verki. Bókin er í þægilegu broti og fjallað er um eitt verk á opnu. Val listaverkanna í bókinni var í höndum starfsfólks safnsins en athygli vekur að einnig var leitað var til fyrrverandi safnstjóra sem völdu verk, jafn mörg og árin sem þau veittu safninu forstöðu, og fjölluðu um þau. Skrif þeirra eru sérstaklega merkt í bókinni sem gefur lesendum færi á að kynnast þeirra sýn, sem verður að teljast áhugaverð og skemmtileg nálgun til að miðla safneigninni.
Aðgengi að lykilverkum
Miðlun safneignar er mikilvægt verkefni listasafna og í raun eðlilegt hlutverk safna. Mikilvægt er að almenningur hafi greiðan aðgang að lykilverkum í safneign höfuðsafna Íslendinga og geti helst gengið að þeim vísum. Safnkostur Listasafns Íslands er ýmsum takmörkunum háður hvað varðar stærð sem setur safninu þröngar skorður hvað aðgengi að safneign varðar. Þessi sýning er dýrmæt fyrir margra hluta sakir. Hér gefst fágætt tækifæri til þess að sjá ógrynni lykilverka í íslenskri listasögu þá og nú, á einum og sama stað. Fjölbreytnin er mikil og ánægjulegt er að sjá með jafngreinilegum hætti þá miklu grósku sem einkennt hefur íslenskt listalíf áratugum saman. Þetta er sýning sem þarf að gefa sér tíma í að skoða og ljóst er að uppskeran og upplifunin verði eftir því ríkari.