— Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ásgeir Pétursson, loðdýrabóndi á Dalsbúinu í Helgadal í Mosfellsbæ, lætur engan bilbug á sér finna við minkaræktina þrátt fyrir miklar sveiflur á mörkuðum fyrir skinn á umliðnum árum, þá erfiðleika sem atvinnugreinin hefur gengið í gegnum og að sífellt fleiri þjóðir leggi bann við loðdýrarækt til skinnaframleiðslu. Í dag eru aðeins sex minkabændur eftir á landinu en búin voru 30 talsins fyrir ekki mörgum árum.

Ásgeir, sem er orðinn áttræður, hefur rekið stórt minkabú í Helgadal samfleytt í tæplega 40 ár og er hvergi nærri hættur. Hann gerir ráð fyrir að í mars verði um 2.300 læður paraðar á búinu. Ásgeir er um þessar mundir að undirbúa stóra skinnasendingu til útflutnings, sem hann vonar að komist inn á skinnauppboðin í finnska uppboðshúsinu Saga Furs á næsta ári.

Staðan á mörkuðum fyrir skinnin hefur batnað eftir að faraldur kórónuveirunnar var yfirstaðinn og verðið hækkað að sögn Ásgeirs, sem segist hafa selt hvert einasta skinn sem fór á markað í fyrra og á þessu ári.

„Verðið fór að batna strax eftir að covid var yfirstaðið og kaupendur fengu að fara aftur inn í uppboðshúsin til að kaupa skinn rétt eins og þeir höfðu gert áður,“ segir hann.

Einn af frumkvöðlunum

Ásgeir hefur langa reynslu af loðdýrarækt, er einn af frumkvöðlum í greininni og hefur starfað hvað lengst allra hér á landi við minkarækt. Um 1970 fór hann til náms í loðdýrarækt í Noregi.

„Ætli ég sé ekki menntaðasti loðdýrabóndinn sem til er á landinu,“ segir Ásgeir. „Ég var á háskólabúi hjá þekktustu rannsóknarmönnum í landbúnaðarháskólanum á Ási í Noregi og sótti líka mörg námskeið í Danmörku og hef farið víða til að afla mér þekkingar s.s. í Finnlandi og Svíþjóð, Hollandi, Kanada og í Bandaríkjunum en þar er vagga loðdýraræktarinnar,“ segir hann. Lærði hann m.a. hjá fv. formanni loðdýrasambandsins í Noregi og vann við rannsóknir á fóðrun loðdýra á háskólabúinu á Ási.

Heim kominn starfaði hann með öðrum við minkarækt á Dalsbúinu í fimm ár. Sú starfsemi lagðist af og fór Ásgeir þá á sjóinn en hann hafði áfram fulla trú á möguleikum loðdýraræktar á Íslandi. Árið 1980 keypti hann Dalsbúið og hóf að endurreisa það á nokkrum árum samhliða sjómennskunni. Hann hóf svo rekstur búsins í janúar 1986 og hefur ræktað þar mink frá þeim tíma. Fóðurstöð er á Dalsbúinu og í dag eru þrír starfsmenn á búinu.

Loðdýrarækt hefur verið lögð niður eða bönnuð í tugum Evrópulanda. Algjört bann tekur gildi í Noregi á næsta ári og ræktun minka var bönnuð í Danmörku eftir að öllum minkum í landinu var lógað af ótta við stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar. Gagnrýni á loðdýrarækt fer ört vaxandi vegna sjónarmiða um dýravelferð og kröfur hafa verið hertar með reglugerðum um bættan aðbúnað og velferð dýranna. Dalsbúið hefur ekki farið varhluta af því. Á árunum 2018 og '19 þurfti að ráðast í breytingar vegna krafna um að öll búr yrðu stækkuð um 15 sentimetra. Búin áttu að ljúka því á einu og hálfu ári og það náðist með gríðarlegri vinnu að sögn hans. „Það kostaði okkur 36 milljónir króna að breyta búinu bara fyrir þetta,“ segir Ásgeir. Fékk búið litla styrki upp í þennan kostnað eða í kringum sex milljónir.

Greiðsluáskorun upp á tæpar 300 þúsund krónur

Það sér hins vegar ekki fyrir endann á öðru máli sem Dalsbúið stendur frammi fyrir. Matvælastofnun (MAST) hefur farið fram á að sett verði leikföng inn í minkabúrin á Dalsbúinu með vísan til reglugerðar um velferð minka. Ásgeir hefur ekki orðið við því og heldur því fram að umræddir hlutir skaði dýrin.

Síðastliðið sumar greip MAST til þess ráðs að leggja dagsektir að upphæð tíu þúsund krónur á dag á minkabúið til að knýja fram úrbætur á velferð minkanna. Þar sem Ásgeir hefur ekki fallist á að greiða sektina barst honum á dögunum greiðsluáskorun frá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra vegna innheimtu dagsektanna og er upphæðin tæplega 300 þúsund kr., sem honum er gert að greiða innan 15 daga. Verði krafan ekki greidd eða samið um greiðslu hennar megi vænta þess að hún verði innheimt með aðför og eftir atvikum nauðungarsölu.

Leikföngin, sem Ásgeir nefnir svo og eiga að bæta líðan dýranna, eru í reglugerðinni kölluð umhverfisauðgandi hlutir, s.s. rör, kubbar, boltar eða innréttingar sem veita örvun og er ætlað að fyrirbyggja óæskilega hegðun.

„Það er allt í lagi í sjálfu sér með eftirlitið en reglugerðirnar sem er verið að setja passa bara ekki fyrir þessi dýr,“ segir Ásgeir. Hann segir þessar reglur upprunnar hjá Evrópusambandinu. Reglugerðin var sett hér árið 2014 en nýlega hafi eftirlits- og skoðunarmenn farið fram á að hann setti leikföngin í búrin. Það hafi ekki reynst vel þegar þetta var prófað. Ef dýr séu saman í búri þá rífist þau um hlutina, glefsi eða bíti hvert í annað sem geti valdið því að þeim fari að blæða, sem sé alvarlegt mál. Dýrin færi líka hlutina út í hornin á búrunum og skíti yfir þá með tilheyrandi óþrifnaði. „Svo eru það þessir litlu plastboltar. Við vorum látnir prófa þetta á nokkrum búum. Þegar högnarnir fara að stækka naga þeir boltana í sundur og þá fer plastið í skítarennurnar og þaðan út í haughúsið. Þar er úrgangurinn sogaður upp með haugdælum og honum sprautað á túnin. Er mikið vit í þessu?“ spyr Ásgeir.

„Það verður að vera ákveðin skynsemi í því sem ætlast er til af okkur. Ég myndi setja leikföng hjá dýrunum ef ég teldi að það yrði til bóta, en svo er ekki. Ég bara veit það.“ Segist hann hafa sagt eftirlitsmönnum að þeim sé velkomið að koma með einhver leikföng ef þeir geti vottað og borið ábyrgð á að þau skaði ekki dýrin. Því hafi verið hafnað með þeim orðum að hann verði sjálfur að útvega leikföng, sem þeir muni svo taka út við eftirlit.

„Þeir segja að þetta sé gert fyrir velferð dýranna. Ég segi hins vegar að velferð dýranna liggi í því að þau hafi hey í búrunum sínum, nógan mat að éta og að það sé hugsað vel um þetta allt, um vatnið og fóðrið og að búrin séu hrein. Þá eru dýrin ánægð. Þau vilja engin leikföng,“ segir Ásgeir.

Spurður hvað hann ætli að taka til bragðs segist hann ekki hafa efni á að borga einhverjar milljónir í sektir sem skaði fyrirtæki hans. Ásgeir segist helst vilja að þessar reglur verði felldar niður og kveðst líka binda vonir við að matvælaráðherra í væntanlegri ríkisstjórn láti málið til sín taka.

Fékk nýlega WelFu-gæðavottunn frá Baltic Control

Ásgeir bendir á að Dalsbúið hafi nýverið fengið mjög góða umsögn alþjóðlega matsfyrirtækisins Baltic Control um dýravelferð og aðstæður á búinu. Erlendir eftirlitsmenn frá fyrirtækinu heimsóttu búið í sumar, gerðu enga athugasemd og veittu Dalsbúinu svonefnda WelFu-vottun eftir ítarlega skoðun.

Segir í vottunarskjali Baltic Control að Dalsbúið hafi staðist mat WelFur, velferð dýra á búinu hafi verið metin skipulega og samþykkt. Búið uppfylli kröfur um staðla í loðdýrarækt og árangurinn sýni að búið sé vel rekið. Ásgeir er að vonum mjög ánægður með þessa gæðavottun. Vottunarkerfið hefur verið innleitt um alla Evrópu en uppboðshús taka ekki skinn frá óvottuðum minkabúum til sölu.

„Ég geri allt fyrir dýrin,“ segir Ásgeir. „Það er sama hvar þið gangið hér um í búinu, alls staðar eru heilsuhraust og góð dýr.“

Höf.: Ómar Friðriksson