Valbjörn Sæbjörnsson fæddist 25. júlí 1959 í Reykjavík. Hann lést 12. desember í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum í Fossvogi.
Foreldrar hans eru Sæbjörn Jónsson, f. 19. október 1938. d. 7. ágúst 2006, og Valgerður Valtýsdóttir, f. 26. október 1940.
Systkini hans eru Jón Aðalsteinn, f. 1957, Alma, f. 1962, og Smári Valtýr, f. 1967.
Börn Valbjörns eru: Garðar Valur og Salome. Barnsmóðir Gunnhildur Garðarsdóttir. Hannes Valur og Kristín Bára. Barnsmóðir Bryndís Bára Garðarsdóttir.
Sambýliskona hans er Erna Dahl og börn þeirra eru Peter Aron Dahl, Kristína Susanne Dahl og Paul Brian Valtýr Valbjörnsson.
Að lokinni hefðbundinni skólagöngu hóf Valbjörn matreiðslunám á Hótel Holti og meistari hans var Skúli Hansen. Valbjörn vann á ýmsum veitingastöðum, var eftirsóttur matreiðslumaður og bryddaði upp á ýmsum nýjungum á þeim tíma sem vöktu athygli. Valbjörn flutti til Grænlands og vann á hótel Qaqortoq í Julianehåb, Grønlands hjemmestyrets í Nuuk og hóteli í Narssarsuaq um árabil. Hann flutti síðan til Keflavíkur og vann við iðn sína víða, meðal annars í veiðihúsinu í Laxá í Dölum til fjölda ára. Valbjörn átti við veikindi að stríða hin síðari ár vegna brjósklosaðgerða á baki.
Útför Valbjörns fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 19. desember 2024, klukkan 14.
Það sagði við mig virtur matreiðslumaður eitt sinn þegar Valli bróðir barst í tal að þegar hann var að byrja nám sitt hafi hann litið upp til Valla og hugsað, ég ætla að verða eins og hann. Að lokinni hefðbundinni skólagöngu fór Valli á samning hjá Skúla Hansen á Hótel Holti og útskrifaðist sem matreiðslumaður. Árin þar á eftir vann Valli á ýmsum þekktum veitingastöðum, var eftirsóttur og bryddaði upp á mörgum nýjungum, meðal annars kafaði hann í Hvalfirði eftir kröbbum og skelfiski sem hann hafði á boðstólum á sjávarréttarstað sem hann vann á. Valli flutti til Grænlands og starfaði þar í nokkur ár. Þar kynntist hann eftirlifandi sambýliskonu sinni, Ernu Dahl. Þau fluttu síðan til Íslands og settust að í Keflavík. Valli vann við iðn sína næstu árin og var meðal annars kokkur í veiðihúsinu í Laxá í Dölum um árabil. Erna og hann unnu þar saman og var sá tími þeim góður og eiga þau margar góðar minningar þaðan. Ég veiddi í Laxá í mörg ár og áttum við bræður þar góðar stundir saman. Valli glímdi við brjósklos í baki í mörg ár, fór í nokkrar aðgerðir og varð að lokum öryrki vegna þess. Bakkus lék stórt hlutverk í lífi hans og voru hin síðari ár honum erfið.
Ég þakka Valla bróður mínum samfylgdina og minnist allra góðu stundanna sem við áttum saman. Hvíl í friði.
Þinn bróðir,
Jón Aðalsteinn
Sæbjörnsson (Alli).