Lilja Rafney Magnúsdóttir
Lilja Rafney Magnúsdóttir
Það eru spennandi tímar fram undan í stjórn landsins þar sem Valkyrjurnar þrjár munu halda um stjórnartaumana ef að líkum lætur með öflugum liðsmönnum og ég er svo heppin að hafa verið kjörin til að taka þátt í þeirri vinnu fram undan til heilla fyrir land og þjóð

Það eru spennandi tímar fram undan í stjórn landsins þar sem Valkyrjurnar þrjár munu halda um stjórnartaumana ef að líkum lætur með öflugum liðsmönnum og ég er svo heppin að hafa verið kjörin til að taka þátt í þeirri vinnu fram undan til heilla fyrir land og þjóð. Flokkur fólksins fékk mjög góða kosningu vítt og breitt um landið og fyrir það erum við þakklát og það er okkar að standa sem best undir þeim væntingum sem bundnar eru við öflugan og fjölbreyttan þingflokk Flokks fólksins.

Góður árangur

Það ótrúlega gerðist að Flokkur fólksins var eini flokkurinn sem náði tveimur fulltrúum í Norðvesturkjördæmi, Eyjólfi Ármannssyni og undirritaðri, og það var ekki sjálfgefið þegar þingmönnum kjördæmisins fækkaði um einn. Við Eyjólfur þökkum kærlega traustið og munum leggja okkur fram um að sinna vel þeim verkefnum sem brenna á í kjördæminu því þau eru fjölbreytt og spanna ólíka hagsmuni til lands og sjávar.

Fjölbreytt verkefni

Heilbrigðismál, samgöngur, velferðarmál, sjávarútvegsmál, landbúnaður, lagareldi, mennta- og menningarmál, nýsköpun, ferðaþjónusta, umhverfis- og orkumál. Endalaust má telja verkefnin í stóru kjördæmi þar sem hvert svæði hefur sín sérkenni sem standa þarf vörð um og efla svo búsetuskilyrði séu sem best og hvetji unga sem aldna til búsetu á landsbyggðunum.

Efnahagsmálin áskorun

Efnahagsmálin þarf að taka föstum tökum svo ná megi niður vöxtum og verðbólgu og koma húsnæðismarkaðnum í eðlilegt horf. Því miður kom í ljós að fyrri ríkisstjórn skildi eftir sig enn meiri halla á ríkissjóði en fyrst var áætlað svo það þarf að spara og hagræða og velta öllum steinum án þess að það bitni á viðkvæmri almannaþjónustu og það er hægt, það veit hin hagsýna húsmóðir.

Friðarjól

Við lifum á viðsjárverðum tímum þar sem styrjaldir geisa um víða veröld og þjóðarmorð eru framin á Gasa og Rússar halda áfram stríðsrekstri í Úkraínu með ömurlegum afleiðingum. Þetta eru ekki einu stríðin því víða um heim eru stöðug stríð og hungursneyð.

Maður hugsar oft um hvernig mannskepnan geti verið svona grimm og hvort heimsbyggðin sé orðin svo efnahagslega háð vopnaframleiðslu og stríðsbrölti að það kyndi undir ófriði. Það væri hægt að nýta þá fjármuni í aðstoð við fátækari lönd og bregðast við hungursneyð víða um heim. Vonandi kemst meiri friður á í heiminum og fólk hafni stríðsóðum ráðamönnum og semji um frið og lýðræði. Við þurfum að efla friðarhreyfingar um heim allan.

Með þessum orðum sendi ég kærar jólakveðjur til landsmanna með ósk um frið og farsæld á nýju ári.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.

Höf.: Lilja Rafney Magnúsdóttir