Mikael Anderson
Mikael Anderson — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kantmenn íslenska karlalandsliðsins í fótbolta eru allir á besta aldri en þeir fimm leikmenn sem spiluðu flesta leiki í þessari stöðu á árinu 2024 eru á aldrinum 22 til 26 ára. Þeir eru flestir komnir með ágætis reynslu eftir að hafa komið inn í…

Kantarnir

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Kantmenn íslenska karlalandsliðsins í fótbolta eru allir á besta aldri en þeir fimm leikmenn sem spiluðu flesta leiki í þessari stöðu á árinu 2024 eru á aldrinum 22 til 26 ára.

Þeir eru flestir komnir með ágætis reynslu eftir að hafa komið inn í liðið á undanförnum fjórum til sex árum og geta allir bætt talsverðu við sig. Sá yngsti þeirra, Mikael Egill Ellertsson, er kominn lengst hvað félagslið varðar en hann er fastamaður í liði í ítölsku A-deildinni.

Jón Dagur Þorsteinsson og Willum Þór Willumsson tóku báðir hliðarskref á ferlinum í sumar og fóru í stærri félög þrátt fyrir að þeir leiki ekki í efstu deild í vetur. Arnór Sigurðsson er í toppbaráttu í ensku B-deildinni og beðið hefur verið eftir því um nokkurt skeið að Mikael Anderson taki skrefið upp í sterkari deild en þá dönsku.

Það er því full ástæða til að ætla að þessir leikmenn eigi allir eftir að verða betri og geti blómstrað með íslenska landsliðinu fram á næsta áratug 21. aldarinnar.

Um leið bera að hafa í huga að kantmenn eiga það til að færa sig inn á miðjuna þegar aldurinn færist yfir og um það eru einmitt dæmi í landsliði Íslands. Birkir Bjarnason, Arnór Ingvi Traustason og nú síðast Jóhann Berg Guðmundsson hafa allir farið af kantinum inn á miðjuna á síðari hluta ferilsins.

Alls léku sjö leikmenn í stöðum kantmanna með landsliðinu á árinu 2024 og hér fyrir neðan er farið yfir þá og þeirra stöðu í dag, sem og þeirra fjögurra efnilegu leikmanna sem voru í stöðum kantmanna í 21-árs landsliðinu á þessu ári.

Undir skilgreininguna kantmenn falla þeir sem spila á vinstri eða hægri kanti í leikaðferðinni 4-3-3 og þeir sem leika hægra og vinstra megin á miðjunni í leikaðferðinni 4-4-2.

Jón Dagur Þorsteinsson spilaði mest af kantmönnum Íslands á árinu 2024. Hann lék níu af tólf landsleikjum ársins, átta þeirra í byrjunarliðinu, og skoraði tvö mörk. Sigurmarkið gegn Englandi á Wembley og seinna markið í heimasigrinum gegn Svartfjallalandi, 2:0.

Jón Dagur er 26 ára gamall, hefur spilað 42 landsleiki og skorað í þeim sex mörk. Hertha Berlín í Þýskalandi keypti hann af OH Leuven í Belgíu í ágúst. Jón hafði þá skorað eitt mark í þremur leikjum í byrjun belgísku A-deildarinnar. Hann hefur leikið 12 af 13 leikjum Herthu í þýsku B-deildinni eftir komuna þangað, sex þeirra í byrjunarliðinu.

Mikael Anderson lék sjö landsleiki á árinu, fimm þeirra í byrjunarliðinu, en missti af tveimur síðustu leikjum ársins.

Mikael er 26 ára gamall en hann hefur leikið 31 landsleik og skorað í þeim tvö mörk. Jöfnunarmark hans á sjöundu mínútu uppbótartíma í Albaníu fyrir tveimur árum kom Íslandi í umspil um sæti á EM 2024. Mikael leikur nú sitt fjórða tímabil með AGF í dönsku úrvalsdeildinni. Þar er hann í stóru hlutverki, hefur verið í byrjunarliði í öllum 17 leikjum liðsins í deildinni í vetur og skorað tvö mörk.

Willum Þór Willumsson lék sjö landsleiki á árinu, allt saman mótsleiki og tvo þeirra í byrjunarliðinu.

Willum er 26 ára gamall og hefur spilað 15 landsleiki. Enska félagið Birmingham City keypti hann í sumar af Go Ahead Eagles í Hollandi. Willum er í stóru hlutverki hjá liðinu í toppbaráttu C-deildarinnar en hann hefur spilað 17 af 18 leikjum liðsins í deildinni, 15 þeirra í byrjunarliðinu, og skorað fjögur mörk.

Mikael Egill Ellertsson lék fimm landsleiki á árinu, allt mótsleiki og einn þeirra í byrjunarliðinu.

Mikael Egill er 22 ára, hefur spilað 19 landsleiki og skorað eitt mark. Hann leikur sitt þriðja tímabil með Venezia sem er nýliði í ítölsku A-deildinni í vetur. Þar hefur Mikael spilað 15 af fyrstu 16 leikjum tímabilsins, 11 þeirra í byrjunarliði, og skorað sín fyrstu tvö mörk í þessari sterku deild. Hann er aðeins fimmti Íslendingurinn frá upphafi sem skorar í deildinni.

Arnór Sigurðsson lék fjóra landsleiki á árinu, einn þeirra í byrjunarliði, en missti af síðustu fjórum leikjunum vegna meiðsla og veikinda.

Arnór er 25 ára, hefur spilað 34 landsleiki og skorað í þeim tvö mörk. Hann leikur sitt annað tímabil með Blackburn í ensku B-deildinni en hefur misst af stórum hluta þess, aðeins náð að spila fimm leiki sem varamaður og skorað eitt mark.

Birnir Snær Ingason lék einn landsleik á árinu en hann var í byrjunarliði í vináttuleik gegn Gvatemala í janúar. Það var hans fyrsti landsleikur.

Birnir er 28 ára og lék sitt fyrsta tímabil með Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni. Hann lék 26 af 30 leikjum liðsins, 16 þeirra í byrjunarliði, og skoraði fjögur mörk.

Jason Daði Svanþórsson lék tvo fyrstu landsleiki ársins, vináttuleiki, báða sem varamaður.

Jason er 24 ára og hefur leikið fimm landsleiki. Hann kom til Grimsby í ensku D-deildinni frá Breiðabliki í júlí og hefur spilað 18 af 20 leikjum liðsins, 14 þeirra í byrjunarliði, og skorað eitt mark.

Ari Sigurpálsson er 21 árs, lék með 21-árs landsliðinu í ár og skoraði átta mörk í 26 leikjum Víkings í Bestu deildinni.

Ísak Andri Sigurgeirsson er 21 árs, lék með 21-árs landsliðinu og skoraði fjögur mörk í 20 leikjum með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni.

Óskar Borgþórsson er 21 árs, lék með 21-árs landsliðinu og spilaði 20 leiki með Sogndal í norsku B-deildinni.

Óli Valur Ómarsson er 21 árs, lék með 21-árs landsliðinu og skoraði fimm mörk í 22 leikjum með Stjörnunni í Bestu deildinni, þar sem hann var í láni frá Sirius í Svíþjóð. Hann er genginn til liðs við Breiðablik.

Hverjir slást um stöðurnar?

Karlalandslið Íslands í knattspyrnu á spennandi ár fyrir höndum, undir stjórn nýs þjálfara, hver sem það svo verður.

Í mars 2025 leikur liðið tvo umspilsleiki um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar, gegn Kósovó, og síðan taka við sex eða átta leikir í undankeppni heimsmeistaramótsins 2026.

Miklar breytingar hafa orðið á íslenska landsliðinu á síðustu árum og margir ungir og efnilegir leikmenn gera tilkall til sætis. Breiddin virðist vera að aukast, sérstaklega hvað varðar miðjumenn og sóknarmenn, en áhyggjur hafa helst beinst að því hvort við eigum nægilega sterka varnarmenn til að byggja upp eins öflugt landslið og sló svo eftirminnilega í gegn á síðasta áratug.

Morgunblaðið varpar þessa dagana ljósi á þá leikmenn sem nú berjast um sæti í landsliði Íslands í hverri stöðu fyrir sig. Áður hefur verið farið yfir markverðina, varnarmennina og miðjumennina og í dag er sjónum beint að mögulegum kantmönnum landsliðsins.

Höf.: Víðir Sigurðsson