Formenn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins funduðu eftir hádegi í gær og skrif á stjórnarsáttmála voru enn í fullum gangi. Þetta upplýsti Ingileif Friðriksdóttir, aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar, um í samtali við mbl.is síðdegis í gær.
Formennirnir þrír hafa haldið spilunum þétt að sér. Samkvæmt heimildum blaðsins verður ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins mynduð öðrum hvorum megin við jól. Þó að stjórnarmyndunarviðræður gangi vel er ekki búið að ná lendingu í öllum málaflokkum.
„Mér líst auðvitað bara vel á stöðuna upp að því marki sem ég þekki hana. Ég er í reglulegum samskiptum við formanninn, Þorgerði Katrínu, og veit að vinnunni miðar áfram,“ segir Hanna Katrín Friðriksson. Flokkssystir hennar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, er á sama máli og kveðst ágætlega bjartsýn á að ríkisstjórn þessara flokka verði mynduð fyrir áramót.