Brasilíski dómarinn Victor Torres hefur sett bráðabirgðalögbann sem kveður á um að Sony og Universal taki lag stórstjörnunnar Adele, „Million Years Ago“, samstundis úr spilun á heimsvísu ellegar eigi fyrirtækin yfir höfði sér 8.000 dollara sekt, sem samsvarar um einni milljón íslenskra króna, í hvert skipti sem bannið sé virt að vettugi, að því er segir á vef The Guardian. Ástæðan er sögð ritstuldur en tónskáldið Toninho Geraes heldur því fram að fyrrnefnt lag sé eftirlíking af sambasmelli hans, „Mulheres“. Fyrirtækin geta þó enn áfrýjað lögbanninu en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Adele er sökuð um ritstuld vegna lagsins. Hefur því áður verið líkt við lagið „Acilara Tutunmak“ frá árinu 1985 eftir hinn kúrdíska Ahmet Kaya.