Sólveig Ásbjarnardóttir fæddist á Guðmundarstöðum í Vopnafirði 26. janúar 1926. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli Kleppsvegi 9. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Ásbjörn Stefánsson, bóndi á Guðmundarstöðum Vopnafirði, f. 1877, d. 1947, og Ástríður Kristjana Sveinsdóttir, f. 1886, d. 1956. Sólveig var yngst níu systkina sem öll eru nú látin.
Sólveig giftist Jens Jóhannesi Jónssyni búfræðingi, f. 1. maí 1921, d. 7. maí 2011, þann 3. apríl 1954. Börn Sólveigar og Jens eru: 1) Anna, f. 18. desember 1953, gift Sigurði V. Viggóssyni, f. 1953. Þau skildu. Þeirra börn eru: a) Snæbjörn, f. 1974, kvæntur Jóhönnu Þuríði Másdóttur, f. 1973. Þeirra börn eru Karl Jakob, f. 2001, og Maríanna Rín, f. 2004. b) Stefanía, f. 1979, gift Sveini Kristjánssyni, f. 1984. Þau skildu. Þeirra börn eru Kristján, f. 2008, Klara Margrét, f. 2009, og Karlotta, f. 2011. c) Magnús, f. 1981, kvæntur Mari Agge, f. 1979. Þeirra barn er Jón Matti, f. 2016. d) Lilja, f. 1986, gift Carlos André, f. 1990. Þeirra börn eru Adriana Snædís, f. 2014, Sigurður Carlos, f. 2016, og Snæbjörn Alessandro, f. 2019. 2) Ásbjörn, f. 3. apríl 1955, kvæntur Vilborgu Tryggvadóttur Tausen, f. 1963. Þeirra börn eru: a) Egill, f. 1991, og b) Sólveig, f. 1994. 3) Jón Haukur, f. 11. janúar 1958, kvæntur Berglindi Björk Jónasdóttur, f. 1959. Þeirra börn eru: a) Auður Harpa Andrésdóttir, f. 1977, hennar sonur er Róbert Andri, f. 1995. b) Jökull Ernir, f. 1988, kvæntur Silviu Irahola, f. 1986. 4) Ástríður Jóhanna, f. 18. júní 1960, gift Ragnari Kjærnested, f. 1957. Þeirra börn eru: a) Jens Pétur, f. 1981, sambýliskona Kolbrún Jónsdóttir, hennar börn eru Markús, f. 2007, og Felix, f. 2013. b) Sólveig Lára, f. 1985, gift Jóhanni Inga Jóhannssyni, f. 1983. Þeirra börn eru Katrín Ásta, f. 2010, Telma Lind, f. 2012, og Ragnar Elí, f. 2019. c) Guðrún Helga, f. 1991, gift Arnóri Frey Stefánssyni, f. 1991. Þeirra börn eru Hólmar Ingi, f. 2019, og Hrannar Atli, f. 2022. 5) Erla Sesselja, f. 18. október 1966, gift Gunnari F. Birgissyni, f. 1967. Þeirra börn eru: a) Hákon Freyr, f. 1991, kvæntur Þóru Björgu Sigmarsdóttur, f. 1990. b) Ester Elísabet, f. 1997. c) Baldvin Bjarki, f. 2002, sambýliskona Lovísa Ólafsdóttir, f. 2002.
Sólveig lauk námi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1947. Hún vann það afrek að lesa 2. og 3. bekk til gagnfræðaprófs á einum vetri og hlaut hæstu einkunn þeirra stúlkna sem útskrifuðust það vorið. Hún sótti tíma í algebru þá um sumarið og tók því næst próf upp í annan bekk í Kennaraskólanum og lauk kennaraprófi árið 1950, á tveimur árum í stað þriggja. Sólveig sótti námskeið á vegum Kennaraskólans í kennslu 6-9 ára barna árið 1978.
Sólveig kenndi við Barnaskólann í Eyjum 1950-1953, hafði börn í heimagæslu 1973-1976, var starfandi fóstra við dagheimilið Ós 1977-1978, var stundakennari í Fellaskóla í Reykjavík 1978-1979 og vann við leikskólann Arnarborg frá 1981-1991 þegar hún lét af störfum.
Jarðsett verður í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Ég man það elsku mamma mín,
hve mild var höndin þín.
Að koma upp í kjöltu þér
var kærust óskin mín.
Þá söngst þú við mig lítið lag,
þín ljúf var rödd og vær.
Ó, elsku góða mamma mín,
þín minning er svo kær.
Og ennþá rómar röddin þín,
svo rík í hjarta mér.
Er nóttin kemur dagur dvín,
í draumi ég er hjá þér.
Þá syngur þú mitt litla lag,
þín ljúf er rödd og vær.
Ó, elsku hjartans mamma mín,
þín minning er svo kær.
(Jenni Jónsson)
Hafðu hjartans þökk fyrir allt, elsku mamma.
Ástríður Jóhanna.
Einhverju sinni var orðið risasmár notað í auglýsingu og var orðið sagt lýsa því sem er í raun lítið en hefur eiginleika þess sem er stórt. Þannig var mamma, ekki há í loftinu en hún bjó yfir miklum styrk og dugnaði og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Þessir eiginleikar einkenndu hana alla tíð og allt fram á síðasta dag.
Basl er búskapur og það fengu þau svo sannarlega að reyna ungu hjónin sem stofnuðu sitt fyrsta heimili í Reykjavík um miðja síðustu öld. Heimilið var fátæklegt. Lítið kjallaraherbergi og eldhús og búslóðin samanstóð eingöngu af því allra nauðsynlegasta. Mamma var einstök að því leyti að hún var ekki að velta sér upp úr því sem á skorti heldur leitaði leiða til að finna lausnir. Hún saumaði og prjónaði á okkur systkinin og í stað þess að kaupa ný húsgögn var nóg að endurraða þeim sem fyrir voru og mála eins og einn vegg og þá var heimilið sem nýtt.
Hugurinn hvarflar aftur til barnæskunnar nú þegar ég kveð mömmu hinstu kveðju. Bernskuárin liðu hjá án stórviðburða en mörkuðust af litlum augnablikum sem veittu gleði- og öryggistilfinningu og gáfu tækifæri til þroska. Minningar hversdagsins eru óteljandi: Mamma, syngjandi við uppvaskið með óskalögum sjúklinga og sjómanna. Kúrt undir teppi með popp fyrir framan sjónvarpið. Sunnudagsbíltúrar þar sem sungið var hástöfum alla ferðina. Keyptur ís í Eden og apinn Jobbi heimsóttur. Ferðir í bókasafnið á sjónvarpslausum fimmtudögum þar sem vikuskammturinn af bókum var valinn meðan mamma gluggaði í dönsku blöðin. Endalausir sumardagar þar sem farið var út að morgni með brauðsneið og djús í brúsa og fyrirmælum um að koma heim í kvöldmat. Dásamlegar minningar sem ylja nú þegar það sem var er ei meir og söknuðurinn einn situr eftir.
Mamma var hláturmild og glaðsinna og átti auðvelt með að sjá það skoplega í tilverunni og ósjaldan táraðist hún úr hlátri. Aðspurð sagðist hún ekki sjá eftir neinu. Henni fannst það tímaeyðsla að vera að velta sér upp úr fortíðinni sem enginn getur breytt. Mamma talaði fallega um bernskuna þrátt fyrir að hún hefði verið fábrotin og oft þröngt í búi. Að hennar sögn hafði hún verið svolítið ódæl og hún hló mikið þegar hún rifjaði upp þegar hún batt saman flétturnar á mömmu sinni og Jóu, fóstursystur afa, þar sem þær sátu við handavinnu í baðstofunni. Varð uppi fótur og fit þegar önnur þeirra reyndi að standa upp og voru þær víst lengi að fyrirgefa henni þetta prakkarastrik.
Mamma kvaddi eins og hún lifði, á sínum forsendum. Hún hafði fótaferð fram á síðasta dag en það var augljóst fyrir nokkru að henni fannst komið nóg og var tilbúin að kveðja. Við áttum mörg góð samtöl þessa síðustu mánuði og það var ekkert ósagt okkar á milli og fyrir það er ég þakklát. Hvorug þurfti að efast um elsku hinnar.
Elsku mamma, ég er sú sem ég er ekki síst vegna þín. Hjartans þakkir fyrir að vera alltaf til staðar í stóru sem smáu. Þið pabbi glitrið nú sem tvær stjörnur á blárri festingunni eins og segir í þínu uppáhaldslagi. Þið vísið veginn nú sem endranær.
Erla.
Í dag kveð ég elskulega tengdamóður mína eftir fjörutíu ára kær kynni. Sólveig, eða amma Lolla eins og hún var jafnan kölluð af stórfjölskyldunni, var einstök kona á svo margan hátt.
Á sinni löngu ævi upplifði hún mestu og hröðustu breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi frá landnámi – frá einföldu og fábreyttu sveitalífi til ótrúlegra framfara í lífskjörum og tækni sem engan hefði órað fyrir á hennar æskuárum. Hún naut þó góðs atlætis á æskuheimilinu og átti dásamlegar minningar af sólríkum sumrum á Austfjörðum.
Sólveig og Reidar, föðurbróðir minn, voru bekkjarsystkin í Kennaraskólanum og minntist hún hans jafnan með hlýju og virðingu. Kennaramenntunin og almenn forvitni og áhugi fyrir samfélaginu gerði það að verkum að hún tileinkaði sér nýjungar, jafnvel á níræðisaldri, þar sem hún nýtti sér m.a. samfélagsmiðla til að fylgjast með fjölskyldunni nær og fjær, á meðan sjón og heilsa leyfði.
Sólveig var ákaflega vel lesin og kunni að meta verk margra af helstu skáldum og rithöfundum Íslands. Halldór Laxness var í sérstöku uppáhaldi hjá henni, enda hafði hún lesið bækur hans margsinnis og vitnaði gjarnan í vel valdar og meitlaðar setningar Nóbelsskáldsins sem voru henni hugleiknar.
Það var mér sérstök ánægja á síðari árum að fylgjast með samtölum hennar og föðursystur minnar, Dagnýjar, sem einnig var kennari. Þær ræddu iðulega saman um gamla tíma og samferðafólk og voru þá í essinu sínu – fæddar með nokkurra mánaða millibili og höfðu báðar lifað mestu umbreytingatíma Íslandssögunnar.
Við leiðarlok fyllir þakklæti hugann. Þakklæti fyrir að taka mér opnum örmum þegar við Erla tókum saman fyrir rúmum fjörutíu árum. Þakklæti fyrir allar góðu stundirnar í eldhúsinu í Jörfabakka, þar sem heit samloka og nýbökuð brúnterta biðu mín iðulega í hádegishléi í framhaldsskóla. Þakklæti fyrir allar líflegu samræðurnar, jafnvel þegar við vorum ósammála – sem þó varð æ sjaldnar eftir því sem árin liðu.
Þú bakkaðir aldrei með þínar skoðanir, skarpgreind sem þú varst, en stundum var þó erfitt að greina hvort þú værir að látast, því yfirleitt var stutt í brosið og smitandi hláturinn.
Við ræddum stundum stjórnmál. Þú varst hægrimanneskja og tryggur áskrifandi að Morgunblaðinu. Þú hafðir efasemdir um uppsveifluna á árunum 2004-2007 og sagðir eitt sinn við mig í því samhengi: „Allt sem fer upp kemur niður.“ Auðvitað hafðir þú rétt fyrir þér, eins og svo oft áður, en ég gerði þau afdrifaríku mistök að líta fram hjá ráðleggingum þínum og brosa í kampinn.
En fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir allar góðu fjölskyldustundirnar, sunnudagsmatinn og kaffiboðin og fyrir að gæta barnanna okkar Erlu, þegar við þurftum þess með. Þú varst alltaf til staðar – umhyggjusöm, staðföst og einstök.
Þú varst lífsreynd raunsæismanneskja sem kvartaðir ekki, sterk og þrautseig, og þú lifðir lífinu með reisn allt til síðasta dags.
Minning þín mun lifa með okkur um ókomna tíð.
Þinn tengdasonur,
Gunnar.
Minn helsti griðastaður í æsku var Dalselið hjá ömmu og afa, þar var alltaf opið hús. Þau voru ófá skiptin sem ég kom eftir skóla til ömmu og afa til þess að fá mér eitthvað gott að borða, fá aðstoð við heimalærdóminn eða horfa á Nágranna með ömmu. Þegar ég labba fram hjá Dalselinu í dag, sem ég geri reglulega, koma upp í hugann margar góðar minningar; öll hlátursköstin, óumbeðnu klippingarnar (með bláu stóru skærunum), utanlandsferðirnar og lyktin af nýbökuðu góðgæti eru mér efst í huga.
Mín uppáhaldsminning af ömmu er þegar hún skellti sér í klessubíla próflaus. Amma hló svo mikið að hún klessti á allt og alla. Mér finnst ég ennþá geta heyrt hana hlæja þegar ég hugsa um hana á bak við stýrið. Allar þessar minningar um ömmu veita mér hlýju.
Amma var brosmild, hláturgjörn og hlý. Allt eins og ömmur eiga að vera. En það sem ég dáðist að hjá henni var einnig ákveðni hennar, hvað hún var óhrædd við að vera ósammála (gerði oft í því og hafði gaman af) og sagði sína skoðun á hlutunum. Amma fylgdist alltaf með öllu sínu fólki. Vildi fá að vita hvað allir voru að fást við hvar sem þeir voru staddir. Til þess að ná að fylgjast með öllum fór amma á Facebook og þar má finna nokkra gullmola sem munu veita gleði um ókomna tíð.
Takk fyrir allt elsku amma mín. Ég veit að afi tekur vel á móti þér.
Þín
Guðrún Helga.