Þórður Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 24. október 1938. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 11. desember 2024.
Foreldrar hans voru Ingigerður Þórðardóttir, f. 21.1. 1912, d. 11.1. 2017, og Þorsteinn Bjarnason, f. 15.10. 1909, d. 6.2. 2002. Systur Þórðar eru Hjördís og Guðrún.
Hinn 14. ágúst 1960 kvæntist Þórður Sigurbjörgu Guðmundu Jónsdóttur, f. 23.11. 1939, d. 6.2. 2024. Börn þeirra eru: 1) Ingigerður, eiginmaður Þorsteinn G.A. Guðnason, börn þeirra eru Ásta og Þórður. 2) Jón Stefán, eiginkona Helen Garðarsdóttir, börn Jóns af fyrra hjónabandi með Dagnýju Maríu eru Sigurður, Elín og Marinó. Barn Helenar er Eldar Elí. 3) Helena, eiginmaður Sigurður Rúnar Guðjónsson, börn þeirra eru Guðjón Sigurliði, Sigurbjörg Eva og Þorgils Kári. 4) Elfa Dögg, börn hennar með fyrrverandi eiginmanni, Jóni Fritzsyni, eru Arnór, Sandra og Einar Dagur. Langafabörnin eru 15.
Þórður ólst upp á Selfossi og starfaði sem rafvirkjameistari alla tíð. Hann var virkur félagi í fornbílaklúbbi og Félagi harmonikuunnenda Selfoss og nágrennis.
Útför Þórðar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 19. desember 2024, klukkan 15.
Við Doddi frændi hittumst á mánudegi á Selfossi og áttum góðar samræður um gang lífs okkar beggja og vorum báðir sáttir við seinni hálfleikinn. Mér kom því mjög á óvart að fregna lát hans tveimur dögum seinna.
Við frændur áttum margt saman að sælda, fyrst sem unglingar hér á Reykjatorfunni og síðan margt tengt uppbyggingunni í Reykjahlíð. Doddi var einstaklega ábyggilegur og traustur fagmaður og fór ekki leynt með skoðanir sínar á handarbakavinnubrögðum. Bíladelluna áttum við líka sameiginlega. Bílarnir hans voru öðrum bílum hreinni og nýbónaðri, en þar skildi á milli okkar frænda.
Fram til þessa hef ég haft af því ómælda ánægju að við þóttum mjög líkir í útliti og því oft ruglað saman við ýmis tækifæri, af því hef ég svo sannarlega verið stoltur. Það var gott að eiga frænda, vin og bakhjarl eins og Dodda.
Sveinn í Reykjahlíð.
Elsku kallinn minn, erfið er hún þessi skyndiákvörðun þín að kveðja, jólaljósin fyrir löngu komin í gluggana og allt orðið fínt en þú hefur ætlað að njóta jólanna með henni Siddý þinni og það skil ég vel. Það fylgdi þér svo skemmtilegur kraftur alla tíð og margs er að minnast. Sólmyrkvinn í mars 2015, veður stillt og heiðskýrt sem kom sér vel, spenna var í loftinu fyrir deginum, fólk farið að safnast saman, tilbúið að njóta. Seld voru sérstök gleraugu til að verja augun, kostuðu fimmhundruðkall en fóru í sumum tilvikum upp í tíuþúsundkallinn þegar stundin var að renna upp. Við áttum engin sérgleraugu en það var allt í lagi, sólgleraugun þín með nokkrum álímdum negatífum og sjónaukinn minn dugðu okkur fullkomlega, skiptumst á að nota hvorutveggja og Snata sat spennt á milli sætanna okkar í Súbarúnum og fann hvað það var gaman.
Þú sagðir það oft að á Sunnuveginum ætlaðir þú alltaf að vera og því varð maður fyrir hugljómun og hreifst með þér þegar þú sagðir mér frá íbúðinni uppi á Austurvegi sem þú hafðir kíkt á, skyndiákvörðun með honum Nonna þínum og hún var góð. Það leyndi sér ekki að þarna bæði endurnýjaðir þú íverustaðinn og sjálfan þig, ljómaðir af spenningi en sársaukinn var mikill yfir að hún Siddý þín gæti ekki notið með þér. Því það var þér fyrir öllu að henni liði vel. Þú gekkst í öll verk, eldamennska og bakstur vafðist ekki fyrir þér nú eða að hugsa um inniblómin, þar tamdir þú þér þínar eigin aðferðir og útkoman var góð, þau döfnuðu vel og voru svo falleg enda hvernig hefði annað átt að vera?
Hjá ykkur naut ég ástúðar og hlýju alla tíð og mikið undur er ég þakklát fyrir það.
Það er komið að kveðjustund, allt er klárt og þið Siddý hafið mæst á ný og sé ég fyrir mér hvar Snata og Millý skottast með ykkur á fallegum stað.
Þú faðmar hana Siddý frá mér með hjartans þökk fyrir allt og allt.
Hvíl í friði, kæri vinur.
Aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Árdís Dóra Óskarsdóttir.
Félagi okkar og vinur Þórður Þorsteinsson, Doddi eins og hann var ávallt kallaður, fæddist 24. október 1938. Hann lést 11. desember 2024 eftir stutt veikindi.
Doddi var einn af 16 stofnfélögum Harmonikufélags Selfoss og nágrennis, en félagið var stofnað í október 1991. Doddi var kosinn í fyrstu stjórn félagsins og gegndi stöðu gjaldkera. Hann var alla tíð í stjórn félagsins ýmist sem formaður eða gjaldkeri.
Að spila á harmoniku var hans yndi og var hann alltaf reiðubúinn að spila þegar til hans var leitað. Hann kunni utan að aragrúa af lögum og ekki þurfti annað en nefna textann þá byrjaði hann um leið að spila viðkomandi lag. Doddi var nánast sjálfmenntaður í harmonikuleik. Við harmonikufélagarnir fórum árum saman í ótal útilegur og á harmonikumót á sumrin og þá naut Doddi sín vel í samspili úti í náttúrunni. Harmonikufélag Selfoss hefur tekið þátt í Landsmóti íslenskra harmonikuunnenda, sem haldið er þriðja hvert ár. Æfingar voru einu sinni í viku á veturna og hvatti Doddi okkur til að mæta vel og hafa æfingarnar skemmtilegar.
Hann var góður félagi og virkur þátttakandi í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, bæði í dansleikjahaldi, ferðalögum, harmonikumótum og skemmtifundum. Síðast en ekki síst nú síðustu árin í sameiginlegri hljómsveit Harmonikufélags Selfoss og Harmonikufélags Rangæinga.
Dodda var veitt heiðursviðurkenning frá Sambandi íslenskra harmonikuunnenda fyrir störf að félagsmálum harmonikunnar á Suðurlandi og fyrir harmonikuspil heima og að heiman, m.a. fyrir eldri borgara á Selfossi og nágrenni.
Við minnumst margra góðra stunda sem við áttum með Dodda og kveðjum hann með þakklæti fyrir góða vináttu og samspil gegnum árin.
Hans er sárt saknað af félögum í Harmonikufélagi Selfoss.
Við í HFS þökkum ljúft samstarf og ótal ánægjustundir og sendum börnum hans og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.
F.h. harmonikufélaga í Harmonikufélagi Selfoss,
Guðmundur Ægir Theodórsson, gjaldkeri HFS.