Risi Af ríflega 30 milljarða króna tekjum fjölmiðla 2023 rann 8,1 milljarður króna til RÚV á móti 21,9 milljörðum króna til fjölmiðla í einkaeigu.
Risi Af ríflega 30 milljarða króna tekjum fjölmiðla 2023 rann 8,1 milljarður króna til RÚV á móti 21,9 milljörðum króna til fjölmiðla í einkaeigu.
Tekjur fjölmiðla árið 2023 lækkuðu um 4%. Lækkunina má alfarið rekja til samdráttar í auglýsingatekjum sem lækkuðu um 12% á milli ára. Á sama tíma jukust tekjur af notendum aðeins um 1,6%. Stærstan hluta samdráttar í tekjum fjölmiðla er að rekja til …

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Tekjur fjölmiðla árið 2023 lækkuðu um 4%. Lækkunina má alfarið rekja til samdráttar í auglýsingatekjum sem lækkuðu um 12% á milli ára. Á sama tíma jukust tekjur af notendum aðeins um 1,6%. Stærstan hluta samdráttar í tekjum fjölmiðla er að rekja til þverrandi tekna dag- og vikublaða en tekjur þeirra minnkuðu um tæpan fjórðung á milli ára reiknað á föstu verði.

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Þar segir einnig að stærstur hluti tekna fjölmiðla sé fenginn frá notendum, um 62%, á móti 38% af auglýsingum eða 18,7 milljarðar króna í notendatekjur á móti 11,4 milljörðum í auglýsingatekjur. Hlutdeild Ríkisútvarpsins í tekjum fjölmiðla jókst lítillega á milli ára, samkvæmt fréttinni, og fór úr 26% í 27%, en á sama tíma jókst auglýsingahlutdeild þess úr 20% í 22%. Fimm stærstu aðilar á fjölmiðlamarkaði tóku til sín 87% af samanlögðum tekjum fjölmiðla árið 2023.

Lækkuðu um 1,3 milljarða

Í fréttinni segir einnig að eftir lítillegan vöxt fjölmiðlatekna í kjölfar kórónuveirufaraldursins hafi tekjur fjölmiðla dregist saman á ný, reiknað á raunvirði. „Tekjur fjölmiðla árið 2023 lækkuðu um 1,3 milljarða króna frá fyrra ári. Samdrátturinn stafar alfarið af minni auglýsingatekjum sem minnkuðu um 1,6 milljarða króna. Tekjur af notendum árið 2023 jukust lítillega eða um 300 milljónir króna. Stóran hluta minni auglýsingatekna má rekja til þess að útgáfu fríblaðsins Fréttablaðsins var hætt á fyrri hluta ársins en blaðið var á meðal stórtækustu aðila á auglýsingamarkaði.“

Þá segir Hagstofan að auglýsingatekjur fjölmiðla séu nú fast að 35% minni en þær voru árið 2016 þegar þær voru mestar og 6% minni en 2010.