Ólafur Stephensen Björnsson fæddist í Reykjavík 23. janúar 1935. Hann lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 8. desember 2024.
Ólafur var sonur hjónanna Ingibjargar Ólafsdóttur Stephensen húsmóður, f. í Skildinganesi 1906, d. 1998, og Björns Jónssonar vélstjóra, f. í Ánanaustum 1904, d. 1975. Bræður hans eru Jón Hilmar Björnsson sem er látinn, maki Kristín Ásgeirsdóttir. og Björn Ingi Björnsson, maki Alda Bragadóttir sem er látin. Kjörsystir hans frá fjögurra ára aldri og stórfrænka er Ingibjörg Stephensen (Bíbí).
Eiginkona Ólafs var Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 1935, d. 2022, dóttir hjónanna Önnu Katrínar Jónsdóttur húsmóður frá Gamla-Hrauni, f. 1912, d. 1999, og Ólafs Þorleifssonar verslunarmanns frá Stykkishólmi, f. 1907, d. 1972.
Börn þeirra eru: 1) Björn, matreiðslumeistari í Seljahlíð og hundaatferlisfræðingur, kvæntur Láru Björk E. Birgisdóttur búfræðingi. Sonur Björns er Þorbjörn lögfræðingur sem starfar hjá Sameinuðu þjóðunum í Keníu. Hann er í sambúð með Betty Odello mannréttindalögfræðingi og eiga þau soninn Óðin Snorra Rande. 2) Ingibjörg, sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneyti. Dóttir hennar er Inga Borg hagfræðingur, fjármálasérfræðingur hjá Reykjavíkurborg. Sonur hennar og Sindra Más Smárasonar stjórnmálafræðings er Óskar Borg.
Ólafur og Ingibjörg bjuggu í Kópavogi frá 1968, lengst af á Mánabraut 18 og seinni árin í Gullsmára 5.
Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 19. desember 2024, klukkan 15.
Elsku afi minn. Nú ert þú farinn frá okkur. Þetta eru mjög stór og erfið tímamót í mínu lífi, en nú eruð þið öll farin frá mér. Þá á ég við ykkur ömmurnar mínar og afana mína. Það verður erfitt að hugsa til þess að geta ekki leitað til hans afa með hin ýmsu málefni. Afi var nefnilega svo eldklár. Mér dettur ýmislegt í hug þegar ég hugsa um æskuna mína og hlutverkið hans þar. Afi var alltaf svo ljúfur og góður við mig. Ég heimsótti þau hjónin á Mánabrautina reglulega og þar var ég dekruð eins og litla prinsessan sem þau sáu mig sem. Afi sótti mig og við fórum svo rakleiðis í vinnuna til ömmu og sóttum hana þar. Amma og afi voru alltaf hörkudugleg í garðinum. Þau voru mörg skiptin þar sem við sátum úti í hlýjunni í Kópavoginum þar sem afi sló garðinn og amma sinnti blómunum og að sjálfsögðu jarðarberjunum sem voru ræktuð í garðinum (að minni bestu vitund sérstaklega fyrir mig). Heimsóknirnar einkenndust svo mikið af því að við spiluðum saman, tókum göngutúra til að gefa öndunum brauð, borðuðum saman góðan mat og enduðum svo daginn á kvöldkaffi. Þar sem ég fékk frá unga aldri mjólk (með smá kaffi). Afi sat svo með mér og las fyrir mig sömu sögurnar aftur og aftur í einni og sömu barnabókinni. Á seinni árum þegar ég varð fullorðin var alltaf gott að leita til afa. Hann var mjög góður prófarkalesari, en það var alltaf gaman þegar ég lauk stórum verkefnum í háskóla eða menntaskóla, þá vildi afi alltaf fá að lesa yfir og hrósaði mér iðulega hástöfum. Hann leysti auðveldlega allar orðagátur og krossgátur (á íslensku og dönsku). Hann var líka mikill tækniunnandi og átti alltaf nýjustu græjur. Hann bað oft um aðstoð en hann var aldrei feiminn að læra á nýjustu tækni. Það er helst minnisstætt þegar hann pantaði sér ódýrt snjallúr af netinu. Það tók langan tíma að koma til landsins vegna smá stopps á Írlandi, þar sem það var smá innsláttarvilla í pöntuninni. Þegar úrið kom tók hann sinn tíma til þess að læra á það. Hann skildi þó ekkert í því að úrið virkaði ekki sem skyldi og tók sig saman með ensk-íslensku orðabókina og beinþýddi allar leiðbeiningarnar áður en hann kallaði barnabarnið sitt til þess að aðstoða sig. Við náðum þó aldrei að koma því í gagnið en eljan og dugnaðurinn sýnir hvað afi var ákveðinn og lausnamiðaður. Ég er svo þakklát fyrir þessi ár sem við fengum eftir að amma fór, en afi fékk þá að kynnast Óskari; öðru tveggja barnabarnabarna sem hann var mjög stoltur af. Hann sýndi Óskari alltaf alla þá sömu hlýju sem ég upplifði sem barn. Afi var alltaf tilbúinn að fá okkur í heimsókn og ræða mikilvægu málefnin og knúsa Óskar sinn. Hann vissi svo mikið og það var alltaf fróðlegt að fá hans sýn á málin. Við munum sakna þín, elsku afi, hlýjunnar sem þú sýndir okkur, viskunnar sem þú geymdir og góðmennskunnar sem þú gafst okkur. Ég kveð þig með miklum trega, en þú munt ávallt eiga stað í hjarta mínu með ömmu, ömmu Ingigerði og hinum afa mínum, afa Ragnari, sem áttuð öll svo stóran þátt í öllu mínu uppeldi, þroska og lífi. Hvíldu í friði.
Inga Borg.