Camerarctica Umvafin kertaljósi, f.v. Sigríður Hjördís, Hildigunnur, Bryndís, Svava, Sigurður og Ármann.
Camerarctica Umvafin kertaljósi, f.v. Sigríður Hjördís, Hildigunnur, Bryndís, Svava, Sigurður og Ármann.
„Þetta er í þrítugasta og annað sinn sem við höldum kertaljósatónleika í kirkjum á aðventunni, við byrjuðum á þessu árið 1993 þegar við sem skipuðum hópinn þá komum heim úr námi og við höfum haldið okkar dampi síðan, gert þetta árlega,“…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þetta er í þrítugasta og annað sinn sem við höldum kertaljósatónleika í kirkjum á aðventunni, við byrjuðum á þessu árið 1993 þegar við sem skipuðum hópinn þá komum heim úr námi og við höfum haldið okkar dampi síðan, gert þetta árlega,“ segir Ármann Helgason klarínettuleikari og listrænn stjórnandi kammerhópsins Camerarctica. Hópinn skipa auk hans að þessu sinni þau Hildigunnur Halldórsdóttir og Bryndís Pálsdóttir fiðluleikarar, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari, Sigurður Halldórsson sellóleikari og gestur er Sigríður Hjördís Indriðadóttir flautuleikari. Þegar Ármann er spurður hvers vegna þau leiki ævinlega verk eftir Mozart svarar hann því til að Mozart hafi samið ótrúlega fallega kammertónlist sem sé bæði létt og leikandi en búi líka yfir dýpt.

„Þessi ljúfa tónlist Mozarts á einstaklega vel við á aðventunni og við það að flytja hana við kertaljós eins og við gerum alltaf, þá myndast einstaklega falleg stemning. Þessi tvö glæsilegu kammerverk eftir Mozart sem við ætlum að leika núna eru í miklu uppáhaldi hjá okkur en þetta eru verkin sem við lékum á fyrstu tónleikunum og við höfum leikið þau öðru hvoru síðan. Þetta er hinn margrómaði Kvintett fyrir klarínettu og strengi í A-dúr kv 581 og Kvartett fyrir flautu og strengi í D-dúr kv 285 sem má lýsa sem léttum og glitrandi. Auðvitað breytist túlkunin hjá okkur með tíðarandanum og líka hvernig við sjálf breytumst sem leikum, þetta er því aldrei eins. Við reynum að fanga augnablikið hverju sinni, mynda tengsl milli okkar flytjendanna og áheyrenda, rétt eins og gert er í leikhúsinu. Það skapast alltaf falleg stemning og fólk kemur ár eftir ár, bætist sífellt í hópinn. Í fyrra mættu um sex hundruð manns í allar kirkjurnar. Þessir kertaljósatónleikar okkar virðast hringja inn jólin hjá mörgum, sem gleður okkur.“

Mozart hreifst af klarínettunni

Þegar Ármann er beðinn að útskýra nánar hvað felist í kvartett sem sagður er glitrandi segir hann að þetta sé einfaldlega dásamleg tónlist.

„Þar á flaututónninn það til að vera glitrandi, léttur og leikandi. Það er t.d. ótrúlega fallegur hægur kafli í verkinu þar sem strengirnir leika einvörðungu „pizzicato“ undir, eru plokkaðir. Mozart samdi þetta verk um miðbik sinnar ævi, en aftur á móti samdi hann klarínettukvintettinn á lokaárum ævinnar. Þetta eru ólík verk, í kvintettinum er klarínettunni meira blandað við strengina en flautan flýtur meira ofan á strengjunum í hinu verkinu. Mozart hreifst af klarínettunni á síðustu árum ævi sinnar, hóf hana til vegs og virðingar og skrifaði ótrúleg verk, bæði þennan kvintett og Klarínettukonsertinn, þar sem hann nýtir tónsvið klarínettunnar mikið, bæði mýktina og dýptina. Þetta eru okkar bestu verk í klarínettu-litteratúrnum. Það er virkilega gaman fyrir mig sem klarínettuleikara að koma aftur og aftur að þessu verki, því það er endalaust hægt að grafa dýpra í þessa tónlist. Þar fyrir utan breytist maður sjálfur með árunum og þá er alltaf ný nálgun.“

Við rétt sjáum á nóturnar

Jólin og tónlist er samofið fyrirbæri og mikið framboð af tónleikum, en ekki mikið um kammerhópa.

„Þetta sem við erum að spila er vissulega ólíkt flestu öðru sem er í boði á aðventunni, afskaplega kyrrlátt og friðsælt. Eina lýsingin á tónleikunum er af kertaljósum sem eru í kringum okkur flytjendurna. Kertin eru á sérsmíðuðum stjökum sem varpa mildri birtu, við rétt sjáum á nóturnar,“ segir Ármann og hlær. „Við sjáum minna og minna eftir því sem við eldumst og svo gulna líka síðurnar. Þar sem áheyrendur sitja í rökkrinu í kirkjunum skapast afar notalegt og sérstakt andrúmsloft, en rafmagnslýsing er algerlega bönnuð af því að við viljum horfa svolítið aftur í tímann, skapa stemningu þess tíma þegar ágeng rafmagnslýsing var ekki hluti af lífi fólks.“

Ólíkar kirkjur en hljómfagrar

Ármann segir að kirkjurnar fjórar þar sem tónleikarnir fara fram hafi allar afar fallegan hljóm, en mjög ólíkan.

„Sem gerir þetta svo skemmtilegt fyrir okkur, að fara á milli þeirra til að flytja sömu verkin og spila á hljóminn í hverri kirkju fyrir sig. Í Hafnarfjarðarkirkju er mjög mikill hljómur en minni hljómur í Kópavogskirkju, sérlega skýr og fallegur hljómur í Dómkirkjunni og hlýr hljómur í Garðakirkju. Yndislegt og notalegt í öllum þessum kirkjum,“ segir Ármann og bætir við að hópurinn hafi í upphafi aðeins spilað í þremur af fyrrnefndum kirkjum, en Garðakirkja hafi bæst við á miðri leið, árið 2008.

„Þar fyrir utan höfum við tvö síðustu ár líka spilað í Hvalsneskirkju á Reykjanesi, og við gerðum það líka síðastliðinn mánudag þar sem nánd við áheyrendur er mikil í þessari pínulitlu kirkju en við spilararnir, sem erum sex, rétt komumst fyrir með hljóðfærin þar. Það er hefð hjá okkur að enda alla þessa kertaljósatónleika á að spila sálminn góða úr Töfraflautunni eftir Mozart, sem við þekkjum við íslenska jólatextann „Í dag er glatt í döprum hjörtum“. Við getum ekki hætt að vera með þessa tónleika í aðdraganda jólanna því þetta er orðin ómissandi hefð hjá mörgum þeirra gesta sem sækja tónleikana okkar. Við hringjum með glöðu geði inn jólin fyrir þetta fólk.“

Tónleikarnir verða í Hafnarfjarðarkirkju í kvöld, í Kópavogskirkju á morgun, í Garðakirkju 21. des. og í Dómkirkjunni í Reykjavík 22. des. Tónleikarnir hefjast kl. 21. Miðasala við inngang og á tix.is.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir