Bjarni Þór Þórólfsson
Bjarni Þór Þórólfsson
Óskar Bergsson oskar@mbl.is

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Þegar fyrsta deiliskipulagið fyrir Suður-Mjódd var samþykkt var það kynnt á almennum íbúafundi árið 2009 þar sem gert var ráð fyrir fjölbreyttri verslun, m.a. sérvöruverslun, þjónustu og starfsemi sem þjóna ætti heilum borgarhluta. Þar var gert ráð fyrir verslun og þjónustu, skrifstofum, stofnunum, afþreyingu og íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Einnig var gert ráð fyrir matvöruverslunum og veitinga- og gististöðum.

Á lóðinni Álfabakka 2 var gert ráð fyrir aflöngu húsi á 1-7 hæðum með tveggja hæða bílakjallara upp á 22.500 fm á 16.340 fm lóð sem gaf nýtingarhlutfall upp á 1,4 án bílakjallara. Skýringarteikning sýndi einnar hæðar hús með turnum með reglulegu millibili sem gætu aðskilið mismunandi starfsemi húshlutanna.

Á lóðinni skyldi leitast við að mynda samfellda byggingu sem lægi samhliða Reykjanesbraut og draga þannig úr umferðarhávaða á íþróttasvæðunum og lóðum svæðisins.

Átti að vera uppbrot fyrir birtu

Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta segir að mikill munur sé á byggingunni sem sé risin nú og fyrsta deiliskipulaginu þar sem til stóð að hús á einni hæð myndi rísa á lóðinni.

„Í þeirri tillögu er gert ráð fyrir miklu uppbroti á byggingarmagni á lóðinni með sjö byggingum með bili á milli þar sem augljóslega kemur fram mikið uppbrot fyrir ljós og birtu,“ segir Bjarni.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir Suður-Mjódd er gert ráð fyrir fjölbreyttri verslun, m.a. sérvöruverslun, þjónustu og starfsemi sem þjóni heilum borgarhluta. Verslun og þjónustu, skrifstofum, stofnunum, afþreyingu og íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Einnig er gert ráð fyrir matvöruverslunum og veitinga- og gististöðum.

Lóðavilyrði til þriggja ára

Þegar borgarráð gaf lóðarvilyrði til Eignabyggðar var gildistími vilyrðisins allt að þrjú ár frá samþykkt þess í borgarráði. Fyrir vilyrðið greiddi Eignabyggð ehf. 50.000.000 kr. á ári. Gjalddagi var ákveðinn 15. maí hvers árs, fyrst 15. maí 2021.

Bjarni Þór bendir líka á hvernig borgin stóð að auglýsingu á deiliskipulagsbreytingunni.

„Við grennsluðumst fyrir um það hvar auglýsingin var birt og fengum það svar að hún hefði verið birt í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu í júlí 2022. Við leituðum í Fréttablaðinu en fundum ekki fyrr en eftir margar tilraunir undir fyrirsögninni „Bryggjuhverfi dælustöð“ og þar fyrir neðan var auglýsingin um breytingu á Álfabakka 2 á meðan aðrar auglýsingar höfðu sinn titil og fyrirsögn.“

Hann segir að hafi þetta verið mistök þá spyrji hann sig hvers vegna þetta hafi þá ekki verið leiðrétt.

„Segjum að þetta hafi verið mistök í uppsetningu eða í prentun, af hverju var þetta þá ekki leiðrétt daginn eftir?“

Fullyrt að hæð hússins verði ekki meiri en ein og hálf hæð

Sigurdís Jónsdóttur, íbúi í Árskógum 7, gerði eftirfarandi athugasemd á auglýsingatíma tillögunnar sem misfórst í Fréttablaðinu:

„Við fáum þá tilfinningu að það litla útsýni og norður birta sem við höfum hverfi. Er möguleiki á að fá að sjá teikningu af þessari byggingu? Sé ekki búið að teikna eða áætla hæð byggingarinnar í þessum enda, getum við óskað eftir að tillit sé tekið til okkar? Með bestu kveðju og ósk um góð svör,“ segir í fyrirspurn Sigurdísar.

Í svari frá fulltrúa hjá skipulagsfulltrúa er fullyrt að hún þurfi ekki að hafa áhyggjur:

„Varðandi áhyggjur um 5h byggingar á allri lóðinni þá er nánast hægt að fullyrða að slíkt getur ekki gerst þar sem byggingarmagn er ekki nægjanlegt fyrir slíkt. Nýtingarhlutfall er um 1,0 en heimilaður byggingarreitur er um 10.500 fm, þannig að ef byggingarmagnið yrði jafndreift á lóð innan byggingarreits þá myndi byggingarmagnið ná upp í 1,5h fyrir heimilt byggingarmagn.“

Í samantektinni hér að ofan kemur fram að framkvæmdir hófust ári áður en byggingarleyfi var gefið út.

Búseti krefst þess að framkvæmdir verði stöðvaðar

Sammála borgarstjóra um að þetta sé algjörlega óásættanlegt

Búseti hefur í tvígang krafist þess að framkvæmdir við Álfabakka 2 verði stöðvaðar tafarlaust.

Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta segir félagið hafa leitað samstarfs við lögmannsstofuna Logos þegar stálbitar fyrir stálgrindarhús tóku að rísa á lóðinni við Álfabakka 2. Í framhaldi sendi Logos Reykjavíkurborg bréf vegna málsins þar sem málavextir voru raktir og farið fram á að byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar stöðvaði tafarlaust yfirstandandi framkvæmdir og kannaði hvort brotið væri á forsendum aðal- og deiliskipulags fyrir Suður-Mjódd.

Í erindinu er fjallað um óhóflegt byggingarmagn á reitnum. Hæð og rúmmál skemmunnar samsvari um 30.000 fm byggingu, eða 300-400 íbúða fjölbýli, sem sé langt umfram leyfilegt byggingarmagn og í engu samræmi við svör skipulagsyfirvalda við fyrirspurn íbúa áður en hönnun og framkvæmd hófst.

Í svari byggingarfulltrúa er ekki talið tilefni til að bregðast við erindi og kröfum Búseta þar sem framkvæmdin sé í samræmi við byggingarreglugerð og gildandi deiliskipulag á svæðinu.

Bjarni Þór segir að eftir synjun Reykjavíkurborgar um stöðvun framkvæmda hafi borgarstjóri tjáð sig um málið í Morgunblaðinu þar sem hann sagði að hæð og útlit vöruhússins hefði komið sér í opna skjöldu, hann vildi kanna hvort hægt væri að lækka húsið, hann vildi hefja samtal við eigendur hússins um að lækka það, því þetta væri að hans viti algjörlega óásættanlegt.

„Við hjá Búseta teljum einboðið, eftir yfirlýsingar frá fulltrúum Reykjavíkurborgar síðustu daga, að borgin stöðvi framkvæmdir við Álfabakka 2,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson.

Búseti og Félagsbústaðir funduðu með skipulagsfulltrúa í fyrradag án þess að formleg niðurstaða fengist.

Höf.: Óskar Bergsson