Samningur hefur verið gerður um að Rarik leggi háspennulögn úr Kelduhverfi að Dettifossi og Grímsstöðum á Fjöllum. Guðlaugur Þ. Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Magnús Þ. Ásmundsson forstjóri Rarik undirrituðu samninginn í gær.
Með þessu er verið að koma í veg fyrir að framleiða þurfi raforku á staðnum með dísilolíu. Verður mögulegt að setja upp hleðslustöðvar við Dettifoss og á lykilstöðum á þjóðvegi 1, sem er það landsvæði þar sem lengst er á milli hleðslustöðva á þjóðveginum. Þá er gert ráð fyrir að afhending raforku á þessum stöðum geti hafist fyrir lok næsta árs.