Sambandsdeild
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Víkingur úr Reykjavík heimsækir LASK til Linz í Austurríki í lokaumferð deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í mikilvægum leik fyrir Víkinga í kvöld. Víkingur getur með hagstæðum úrslitum komist áfram í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.
Víkingur er sem stendur í 18.-19. sæti deildarinnar með sjö stig eftir fimm leiki. Liðin sem hafna í 9.-24. sæti fara í ofangreint umspil en liðin í efstu átta sætunum fara beint í 16-liða úrslit.
LASK hefur valdið miklum vonbrigðum í Sambandsdeildinni, er með aðeins tvö stig og á svo gott sem engan möguleika á að komast áfram. Liðið steinlá fyrir Alberti Guðmundssyni og félögum í Fiorentina í síðustu umferð er það tapaði 7:0 á Ítalíu.
Lakasta liðið úr efsta flokki
„Þetta er lið sem var í efsta styrkleikaflokki í Sambandsdeildinni, var þar í flokki með Chelsea, Fiorentina og þessum sterkustu liðum. Við fengum klárlega lakasta liðið úr þeim potti.
Við fórum yfir marga leiki með þeim. Þeir byrjuðu mótið á því að komast í 2:0 á móti Djurgården og misstu það niður í 2:2-jafntefli. Síðan þá hefur einhvern veginn allur vindur verið úr þeim. Þeir eru bara komnir með tvö stig.
Þeir hafa verið inni í flestum leikjunum og svo kemur þessi martröð á móti Fiorentina í síðasta leik, ekkert ósvipað því sem Noah lenti í. Þegar við spiluðum á móti Noah voru þeir nýbúnir að fá skell á móti Chelsea og það er svipað núna með LASK.
Við mætum þeim eftir að þeir fengu skell á móti Fiorentina. Þetta voru ekkert ósvipaðir leikir þar sem hvorugt liðið virti einhvern veginn hversu erfiðir útileikir þetta voru.
Það er erfitt að segja hvort þeir leikir séu endilega eitthvað marktækir fyrir okkur en þeir eru klárlega búnir að valda vonbrigðum í þessari keppni,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í samtali við Morgunblaðið.
Betra að eitthvað sé undir
Spurður hvort hann teldi það betra eða verra fyrir Víking að LASK væri í þeirri stöðu að hafa nánast ekki að neinu að keppa nema þá verðlaunafé sagði Arnar:
„Ég held að það sé alltaf betra
að hafa eitthvað undir þegar þú ert að keppa í íþróttum. Það er allavega mín reynsla. Deildarkeppnin þeirra er nýkomin í frí þannig að þetta er síðasti leikur þeirra fyrir jólafrí.
Mögulega ætla þeir að reyna að peppa sig í gang. Alveg sama hvað félagið heitir þá skipta allar evrur til eða frá í verðlaunafé máli. Ég held að þeir vilji fara í þetta frí í góðri stemningu af því að þeir hafa ekki náð þeim árangri sem búist var við.
En svo þegar lítið er undir byrjarðu kannski leikinn mjög vel en svo við fyrsta mótlæti nennirðu þessu ekki, innan gæsalappa. Það verður fróðlegt að sjá hvort það hjálpi okkur eða ekki. Svo eru þetta hlutir sem við eigum hvort eð er ekki að pæla í. Ég held að það sé hættulegur leikur að vera að ofhugsa þá hluti.“
Hættulegar sviðsmyndir
Hvernig hyggst Víkingur nálgast þennan leik?
„Bara ekkert ósvipað og úti í Armeníu, að vera með svolítið svipað plan og var í gangi þar,“ sagði Arnar og vísaði til markalauss jafnteflis gegn Noah í þarsíðustu umferð.
„Vera sterkir í varnarleiknum og reyna samt að gera okkar til þess að vinna leikinn. Ekki henda þessu frá okkur í einhverja þvælu og virða útivöllinn.
Það gæti líka mögulega verið þannig að ef við töpum leiknum þá þyrftum við að gæta þess að tapa honum ekki með allt of miklum mun. Það er fullt af hættulegum sviðsmyndum.
Ég held að það sé best að reyna að halda okkur við það sem við erum góðir í að gera og vera með betri einbeitingu en við vorum með fyrstu 15 mínúturnar í seinni hálfleik á móti Djurgården, sem voru mjög slakar af okkar hálfu,“ bætti hann við, en Víkingur tapaði 2:1 fyrir sænska liðinu í síðustu umferð.
Þrír lykilmenn fjarverandi
Þrír lykilmenn Víkings, þeir Gunnar Vatnhamar, Aron Elís Þrándarson og Pablo Punyed missa allir af leiknum í kvöld vegna meiðsla og munar um minna.
„Það er náttúrlega ekki gott mál þar sem þetta eru okkar stærstu póstar. Það býr samt til tækifæri fyrir aðra. Mér finnst alltaf vera einhverjir sterkir póstar frá hjá okkur, í hverjum einasta leik.
Hópurinn er búinn að gera þetta ótrúlega vel í sumar, haust og vetur. Við verðum með mjög gott lið og góða stráka á bekknum,“ sagði Arnar að lokum í samtali við Morgunblaðið.
Ýmsar sviðsmyndir í kvöld
Ljóst er að jafntefli eða sigur kemur Víkingi áfram. Þar sem Basaksehir, liðið í 24. sæti deildarinnar, er með fimm stig og næstu lið fyrir neðan eru með fjögur mun jafntefli ávallt nægja Víkingi til þess að komast í umspilið. Sigur gæti fleytt Víkingum töluvert ofar í töflunni, en efstu átta sætin og farseðill beint í 16-liða úrslit er utan seilingar.
Víkingur gæti farið áfram jafnvel þótt liðið tapi leiknum í kvöld. Fari svo gæti komið til markatölu, þar sem Víkingur stendur vel að vígi samanborið við mörg lið í kring. Markatala liðsins er 6:7, eitt mark í mínus, á meðan nokkur lið með fjögur stig sem freista þess að jafna Víking að stigum eru með á bilinu níu til fjögur mörk í mínus. Forðist Víkingur stórt tap gæti það vel dugað til en með tapi er liðið alltaf upp á úrslit í öðrum leikjum komið. Alls berjast 18 lið um sæti 16 til 24. Fari allt á versta veg getur Víkingur fallið alla leið niður í 29. sæti.
LASK er í 34. sæti með tíu mörk í mínus og getur aðeins jafnað eitt lið í umspilssæti að stigum, Basaksehir, sem er með þrjú mörk í mínus. Svakalega margt þyrfti því að ganga upp til þess að örsmár tölfræðilegur möguleiki austurríska liðsins á að fara áfram verði að veruleika. Til þess þyrfti í fyrsta lagi risasigur gegn Víkingi og því næst hagstæð úrslit í miklum fjölda annarra viðureigna. Það yrði síðan ekki einu sinni nóg taki Basaksehir upp á því að gera jafntefli eða vinna leik sinn gegn Cercle Brugge.
Allir leikir í lokaumferðinni í kvöld hefjast klukkan 20.