Sigurður St. Helgason fæddist 19. ágúst 1940 í Reykjavík. Hann lést 6. desember 2024 á Landakotsspítala.
Foreldrar Sigurðar voru Helgi Guðmundsson, pípulagningameistari í Reykjavík, f. 16.2. 1902, d. 1.10. 1973, og Marta Jónsdóttir húsmóðir, f. 11.6, 1907 d. 3.10. 1992. Systur Sigurðar eru Sigrún, f. 13.4. 1934, og Margrét, f. 3.2. 1942.
Sigurður giftist 23.12. 1964 Guðrúnu Matthíasdóttur myndlistarmanni, f. 16.8. 1940. Foreldrar hennar voru Matthías Jochumsson Sveinsson, skrifstofumaður í Reykjavík, f. 17.7. 1905, d. 2.8. 1999, og Bára Sigurbjörnsdóttir iðnverkakona, f. 8.2. 1912, d. 28.12. 1993.
Sonur Sigurðar og Guðrúnar er Matthías tannlæknir, f. 1971, maki Dalla Ólafsdóttir kennari, f. 1975. Þeirra börn eru Urður, nemi við læknadeild Háskóla Íslands, f. 2004, Ólafur Ragnar, nemandi við Verzlunarskóla Íslands, f. 2007, og Guðrún Katrín, nemandi í Vatnsendaskóla, f. 2011.
Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1960. License-prófi í lífeðlisfræði frá Sorbonne í París lauk hann 1967 og stundaði síðan framhaldsnám í sömu grein við Gautaborgarháskóla 1969-1973. Lektor í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands 1971-1979. Stofnaði tilraunaeldisstöð í sjávareldi laxfiska að Húsatóftum við Grindavík árið 1977 og rak hana til 1985. Starfaði við laxeldisráðgjöf 1985-1991 hérlendis og erlendis. Fiskalífeðlisfræðingur og kennari við fiskarannsóknadeild Lífeðlisfræðistofnunar Háskóla Íslands til 1997. Náttúrufræðikennari við Grunnskóla Bláskógabyggðar 2000-2010.
Útför Sigurðar fer fram frá Kristskirkju Landakoti í dag, 19. desember 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.
Afi Siggi var hugmyndaríkur, klár og skemmtilegur. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til hans. Hann tók eiginlega alltaf á móti okkur í óhnepptri skyrtu, í stuttbuxum og með axlabönd, alveg sama hvernig veðrið var. Stundum var hann að fylgjast með sinfóníunni í sjónvarpinu og raulaði með. Hann var líka oft úti að hugsa um blómin. Honum fannst alltaf svo gaman að sýsla eitthvað. Best var þó þegar hann leyfði okkur að kíkja í gullöndina á bókahillunni en þar gátum við alltaf fundið brjóstsykur eða klink.
Afa fannst ógurlega gaman að segja sögur sem við höfðum mjög gaman af. Við munum eftir sögunni af álfinum sem gat stækkað og minnkað að vild. Álfurinn gat líka breytt sér í hval og ferðast um heiminn. Svo sagði hann klassískari sögur t.d. um riddarann sem barðist við drekann til að koma prinsessunni til bjargar. Afa fannst gaman að teikna og mála. Stundum teiknaði hann upp fyrir okkur sögurnar og fengum við þá okkar eigin sérsniðnu teiknimyndasögur.
Afi fór sínar eigin leiðir í lífinu. Gott dæmi um það er eitt sinn þegar hann var að passa okkur systkinin. Við fórum í bíltúr á Yariznum með honum og hundinum hans að tína skeljar í fjöru. Áður en við lögðum af stað heim bað Óli afa að leyfa sér að vera í skottinu með hundinum. Auðvitað leyfði afi honum það! Hann vildi nefnilega alltaf allt fyrir okkur gera. Eftir smá tíma sáum við hins vegar blá blikkandi ljós. Löggan var að stoppa okkur. Hún var ekki alveg sátt með afa að leyfa sjö ára Óla að sitja í skottinu með hundinum, kannski skiljanlega. Þessi saga sýnir vel hvað afi gat verið hvatvís en meinti alltaf vel og vildi gleðja sem flesta.
Elsku afi, takk fyrir góðu stundirnar. Við eigum alltaf eftir að hugsa til þín – sérstaklega þegar við sjáum einhvern með rauð axlabönd!
Urður, Ólafur Ragnar og Guðrún Katrín Matthíasbörn.
Nú er sá fallinn frá sem mér vandalaus varð mér nánastur og kærstur á unglingsárum. Með tímanum fennti óneitanlega í sporin en hugur okkar beggja var þó alltaf samur. Við kynntumst fyrst í „Gaggó Aust“ þar sem Siggi bar af til orðs og æðis. Langbestur í flestu, en síst vottur oflætis í nokkru. Svo æxlaðist að við fórum saman í vegavinnu tvö sumur á þessum árum og vorum saman í tjaldi í Miðfirði, Hrútafirði og Norðurárdal. Ekki minnist ég þess að nokkurn tíma bæri skugga á samstarf okkar eða vináttu, hvorki þá né síðar. Siggi var einstakur í flestu tilliti.
Við náðum svo vel saman að orð urðu nær óþörf. Báðir vissu hvað hinn hugsaði hverju sinni og þar var nú hvorki hugsuð né töluð vitleysan!
Við Siggi fylgdumst áfram að í landspróf og Menntaskólann þar sem Siggi stóð sig einnig frábærlega, enda afburða námsmaður í flestu, þótt tungumál lægju sérlega vel fyrir honum. Þar bættist í þríeind okkar Hannes Jón Valdimarsson, síðar hafnarstjóri í Reykjavík. Við vorum gott teymi í menntó, þótt sitt sýndist eflaust hverjum um þá eind.
Eftir stúdentspróf skildi leiðir. Siggi lagði „á djúpið“, fór til Grenoble haustið 1960 og settist í líffræðideild. Skemmst er frá að segja að hann varð einn þriggja er náðu prófinu um vorið, sem auðvitað var á frönsku. En námið tók mjög á hann, andlega og líkamlega. Held ég að Siggi hafi verið lengi að ná sér eftir það, hafi hann nokkurn tíma gert það fyllilega. Við ræddum það ekki, kannski illu heilli.
Nú tóku við Parísarárin með nokkurri lausung, hefur mér skilist, á ýmsa lund. Samband okkar Sigga þau árin var takmarkað, en þegar við hittumst var sem hvergi hefði trosnað þráður. Væntumþykjan var söm og órofin.
Fáa þekkti ég jafn gegnheila í öllum samskiptum sem Sigga. Um það held ég að fleiri geti verið sammála. Það átti eftir að sýna sig í mörgu því er hann réðst í síðar á ævinni. Ekki síst fiskeldinu sem hann byggði upp á Stað vestan Grindavíkur, en reisti sér og sínum þar því miður hurðarás um öxl. Ætlaði sér ekki af, en áætlanir stóðust ekki og aðstæður reyndust erfiðari en Siggi hafði gert ráð fyrir.
Í öllu þessu stóð eiginkona hans og stúdentssystir okkar, Gunna Matt, við hlið hans og studdi sinn mann með ráðum og dáð, þótt oft hljóti að hafa verið erfitt að fylgja hugarflugi vinar míns.
Siggi þekkti eflaust vísuna og lifði um margt í samræmi við hana:
Enginn ratar ævibraut
öllum skuggum fjarri.
Sigurinn er að sjá í þraut
sólskinsbletti stærri.
Siggi lauk starfsævi sinni sem barnakennari á Laugarvatni og leið býsna vel sem slíkur. Þar var hann í þeirri náttúru sem honum leið vel í og með þeim sem hann samsamaði sig við; sínu fólki, börnunum, skepnunum og himninum.
Allt til hins síðasta var kært með okkur Sigga og þegar við hittumst og rifjuðum upp fyrri tíma var gleði og vellíðan alltumlykjandi.
Siggi hneigðist til kaþólskrar trúar hin síðari ár, sem veitti honum hugarfró, líklega einkum eftir að Gunna lést.
Ég sakna Sigga sárlega og votta ástvinum míns kæra vinar innilegustu samúð.
Pálmi Ragnar Pálmason.