Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra beittu rafbyssu við yfirbugun á þriðjudag. Er þetta í fyrsta sinn sem slíku vopni er beitt í aðgerðum lögreglu hér á landi.
Ríkislögreglustjóri greindi frá þessu í tilkynningu í gær. Segir í tilkynningunni að vopninu hafi verið beitt gegn vopnuðum einstaklingi sem sýndi af sér ógnandi hegðun.
Samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, Helena Rós Sturludóttir, sagði við mbl.is í gær að einstaklingurinn hefði verið vopnaður hnífi.
Voru lögregla og sérsveit með mikinn viðbúnað við Miklubraut í Reykjavík af þessum sökum.
Fram kemur að áður hafi vægari aðferðum verið beitt til að draga úr ógnandi hegðun einstaklingsins en þær ekki borið árangur.
Lögreglan hefur verið vopnuð rafbyssum frá því í september á þessu ári en ekki beitt þeim þar til í þessari viku.
Í tilkynningunni segir að frá því að vopnin voru tekin í notkun hafi þau verið dregin úr slíðri eða ræst 29 sinnum í alls 17 málum, að frátöldu máli þriðjudagsins.
Samskiptastjóri ríkislögreglustjóra sagði enn fremur að aðgerðin á þriðjudag hefði gengið vel en vildi ekki veita frekari upplýsingar um málið.