Höfundurinn Rúnar Helgi Vignisson kennir ritlist við Háskóla Íslands.
Höfundurinn Rúnar Helgi Vignisson kennir ritlist við Háskóla Íslands. — Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ef það er einhver tilgangur með þessari bók þá er það að vekja umræðu um þessi mál. Ég mun ekki eiga síðasta orðið um þessi málefni en hef vonandi opnað umræðuna frekar,“ segir Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og kennari í ritlist,…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Ef það er einhver tilgangur með þessari bók þá er það að vekja umræðu um þessi mál. Ég mun ekki eiga síðasta orðið um þessi málefni en hef vonandi opnað umræðuna frekar,“ segir Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og kennari í ritlist, þegar Morgunblaðið spyr hann út í bókina Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu sem hann sendi frá sér í september. Þar mátar hann sjálfsmynd sína við þær áherslur sem nú eru efstar á baugi hvað viðkemur karlmönnum, karlmennsku og samskiptum kynjanna.

„Ég vildi svara kallinu sem karlmaður og þá vonandi sem uppfræddur karlmaður. Konur hafa kallað eftir því að við karlmenn kynnum okkur orðræðuna vel og stígum inn í þessa umræðu. Í almennri umræðu eru þessi mál gjarnan í upphrópunarstíl. Karlar hafa tilhneigingu til þess að fara í vörn og í bókinni fjalla ég um mína eigin tilhneigingu til að fara í vörn gagnvart þessari umræðu og afneita skilaboðunum. Ég reyndi að leggja þeim varnarher sem var innra með mér og reyna frekar að skilja um hvað konur eru að skrifa. Það eru jú langmest konur sem fjalla um þetta. Ég tel að það sé einhvers virði að reyna að skilja þessa umræðu og hlusta vel en við erum nú oft skammaðir fyrir það karlarnir að hlusta ekki nógu vel,“ segir Rúnar og á honum má skilja að hann hafi verið varaður við því að hætta sér út í eldfima umræðu um samskipti kynjanna með því að gefa út bókina.

„Ég ákvað ekki fyrr en síðasta vor að gefa bókina út. Upphaflega skrifaði ég þessar hugleiðingar fyrir sjálfan mig vegna þess að mér fannst ég þurfa að bæta við mig á þessu sviði eftir metoo-byltinguna. Ekki síst sem kennari í ritlist því þar er allt mannlegt undir. Ég var aðallega að uppfæra sjálfan mig en meðfram því skrifaði ég eitt og annað hjá mér í rælni og fann að ég hafði gagn af þessu sem kennari og manneskja. Áður en ég vissi af voru það orðnar þrjú hundruð blaðsíður. En ég var mjög hikandi við að gefa þetta út því vinir mínir sem vissu af umfjöllunarefninu höfðu talsverðar áhyggjur af heill minni. Ég væri að stíga inn á jarðsprengjusvæði, sem segir manni heilmikið um í hvers konar ástandi fólk er gjarnan þegar kemur að þessum málaflokki.“

Í bókmenntalegri paradís

Rúnar segir viðbrögðin við efnistökunum og innihaldi bókarinnar hafa verið ótrúleg.

„Ég var nú svolítið á varðbergi eftir að bókin kom út og var við öllu búinn. Bókin hafði varla verið til sölu í viku þegar viðbrögðin fóru að streyma til mín, hvort sem það var í tölvupósti eða skilaboðum. Auk þess hefur fólk átt það til að stoppa mig úti á götu til þess að þakka mér fyrir bókina. Allir rithöfundar vilja fá viðbrögð við því sem þeir senda frá sér og hvað það varðar fannst mér ég þarna – og jafnvel enn – vera í bókmenntalegri paradís,“ segir Rúnar og hann hefur aldrei kynnst öðru eins varðandi eigin verk.

„Nú í desember eru 40 ár frá því að fyrsta bókin mín kom út og alls hef ég sent frá mér um 30 bækur, þýddar og frumsamdar. Ég hafði aldrei upplifað annað eins og eftir þrjár vikur hafði ég fengið meiri viðbrögð við þessari bók en öllum hinum samanlagt. Það segir mér að þörf var fyrir að brjóta einhvern ís þegar kemur að þessu umræðuefni. Fólk var mjög þakklátt og karlar áttu meira að segja til að knúsa mig fyrir bókina. Einnig hef ég orðið var við að hjón hafi lesið bókina saman og rætt löngum stundum um efni hennar. Þörfin fyrir að ræða þessi mál er til staðar og í öðrum takti en í upphrópunarstíl og fordæmingum.“

Persónuleg mál

Bókin er býsna persónuleg og skrifuð í fyrstu persónu en Rúnar segist taka fræðin í gegnum sjálfan sig en einnig eiginkonuna, Guðrúnu Guðmundsdóttur. Hann neitar því ekki að í efnistökunum felist viss afhjúpun.

„Vissulega er ég að opna mig og gefa mikið af mér vegna þess að ég heimfæri fræðin upp á okkur. Ég skoða sjálfan mig og okkar hjónaband. Vinnan er á mínu persónulega sviði og mér fannst ég ekki geta gert þetta af neinu viti nema fara býsna nálægt sjálfum mér. Margir segja eitthvað á þá leið að ég sé einlægur og hugrakkur þótt ekki sé hægt að segja að ég dragi upp mynd af mjög hugrökkum manni í bókinni sjálfri. Fólk á þá við að hugrekki hafi þurft til að skrifa þessar hugleiðingar niður og gefa út. Vonandi gagnast það einhverjum,“ segir Rúnar Helgi.