Marína Birta Sjöfn Geirsdóttir (Marsí) fæddist í Reykjavík 16. desember 1940. Hún lést á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 8. desember 2024.
Foreldrar Marsíar voru Sólveig Jónsdóttir, fædd 15. september 1911, dáin 10. mars 2000, og Geir Guðmundur Jónsson, fæddur 1. ágúst 1911, dáinn 30. mars 2003.
Bróðir Marsíar var Jón Örvar Geirsson, fæddur 2. febrúar 1947. Jón Örvar lést af slysförum 12. ágúst 1976.
Marsí eignaðist einn son, Örvar Omrí Ólafsson, fæddur 4. janúar 1979. Eiginkona Örvars er Kolbrún Kjartansdóttir, fædd 6. febrúar 1980. Saman eiga þau þrjú börn.
Útför verður gerð frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 19. desember 2024, kl. 13.
Elsku Marsi frænka mín verður borin til grafar í dag. Lífið er oft svo undarlegt og ætlaði ég að hringja til hennar á afmælisdaginn hennar 16. desember en náði því ekki þar sem dauða hennar bar að rúmri viku fyrr. Það eru margar minningar sem koma fram þegar lífinu lýkur og vil ég minnast hennar sem hæfileikaríkrar fallegrar konu sem var vel gefin, tónelsk, bæði söng fallega og spilaði á píanó. Hún var hjartahlý, glaðlynd og vildi öllum vel. Minnist ég sérstaklega ferðar sem við fórum til Mallorca þegar við vorum ungar, en Marsí hafði fengið smá vinnu við að aðstoða fararstjóra þar niður frá og bauð mér að koma með. Eitt sinn fengum við lánaðan bíl, lítinn Fiat með sólþaki, og fórum í bíltúr um eyjuna. Þannig vildi til að sólþakið tók sig upp og fauk yfir næsta bíl sem var á eftir okkur en sem betur fer slasaðist enginn. Okkur var mikið skemmt þegar í ljós kom að enginn hafði slasast og kom þessi atburður oft upp hjá okkur. Margt annað gæti ég talið upp en læt það ógert í þessari fátæklegu kveðju.
Hún eignaðist yndislegan son sem var stolt hennar í lífinu og nú ásamt yndislegri konu sinni og þremur fallegu börnum fylgir henni sinni síðasta spölinn á þessari jarðvist.
Sá dauði sem við öll upplifum í þessu lífi er ekki endanlegur, hann er svefn þar til endurkoma Jesú á sér stað og er mikil huggun að vita að við eigum eftir að hitta ástvini okkar aftur þegar það verður. Það fyrirheit sem Guð hefur gefið okkur um eilíft líf á stað þar sem sorg, sjúkdómar, dauði og allt hið illa sem við búum við í þessum heimi verður að engu gert, og fáum við þá að njóta alls þess góða sem Guð hefur fyrirbúið þeim sem trúa á hann, því Guð elskar okkur öll og vill að við njótum hans kærleika og upplifum þann frið og gleði sem hann einn getur gefið.
Því að það segi ég ykkur, og það er orð Drottins, að við, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en þau sem sofnuð eru. Þegar Guð skipar fyrir, þegar raust erkiengilsins kveður við og básúna Guðs hljómar mun sjálfur Drottinn stíga niður af himni og þau sem dóu í trú á Krist munu fyrst upp rísa. Þá munum við sem eftir lifum verða hrifin burt ásamt þeim í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum við vera með Drottni alla tíma (1. Þessalóníkubréf 4:15-17).
Elsku Örvar, Kolla og börn, megi góður Guð vera með ykkur og gefa ykkur styrk í sorginni.
Edda.