Baksvið
Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Umræða um mikilvægi reiðufjár skýtur upp kollinum reglulega. Þar togast á sjónarmið hagræðis fyrir söluaðila og úrræða í baráttunni við svarta hagkerfið annars vegar og sjónarmið almannahagsmuna og öryggis vegna ytri ógna hins vegar.
Minna reiðufé í umferð
Hlutfall reiðufjár í umferð við verga landsframleiðslu var nokkuð stöðugt frá 1985 og fram að bankahruni haustið 2008, eða öðrum hvorum megin við 1%. Frá hruni og til 2010 tvöfaldaðist það og náði hámarki í rúmum 2,5% 2019. Í árslok 2022 var það 2,1% en 1,8% í lok síðasta árs. Þá voru 9,3% af öllu peningamagni í umferð í formi reiðufjár að virði tæplega 76 milljarða króna og hafði lækkað um 5 milljarða frá fyrra ári.
Í lok síðasta mánaðar voru rúmlega 70 milljarðar króna í formi reiðufjár í umferð utan Seðlabanka Íslands, og hefur ekki verið minna síðan vorið 2019.
Háar upphæðir rekjanlegar
Söluaðilar hafa margir viljað takmarka notkun reiðufjár og talið notkun þess styðja við svarta hagkerfið svokallaða. Í heimsfaraldrinum var talsvert um að þeir neituðu að taka við reiðufé, fyrst og fremst vegna sóttvarnasjónarmiða. Meðal söluaðila sem taka ekki við reiðufé í dag er flugfélagið Icelandair. Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs, segir eftirspurn hafa minnkað hröðum skrefum á undanförnum árum eftir notkun reiðufjár í viðskiptum við flugfélagið. Tekjur standi ekki undir kostnaði og umstangi í kringum örfáar greiðslur með reiðufé og því hafi félagið markvisst dregið úr framboði á þeim valmöguleika. „Við kappkostum að finna aðra jafngóða eða betri kosti fyrir viðskiptavini okkar og bendum til að mynda á Icelandair-kreditkort sem flestar bankastofnanir á Íslandi gefa út og veita margs konar fríðindi og punktasöfnun í Vildarklúbbi Icelandair,“ segir Tómas.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir samtökin ekki hafa talað fyrir því að hætta móttöku reiðufjár. Ýmsir þjóðfélagshópar kunni að reiða sig á reiðufé og vísar hann þar t.d. til eldra fólks. Í peningaþvættislögum sé þó kveðið á um að móttaka á meira en sem nemur 10 þúsund evrum sé tilkynningaskyld, framkvæma þurfi áhættumat og koma upp verklagi og stýringu auk þess að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptunum sem m.a. felur í sér að reyna að rekja slóð peninganna.
„Það er bæði kostnaðarsamt og viðurhlutamikið að halda úti kerfum og athugunum til að tryggja að öll skráning upplýsinga sé í samræmi við kröfur stjórnvalda.“
Glæpir og ytri ógnir
Eftir því sem umfang skipulagðrar glæpastarfsemi eykst segir hann líkur aukast á að móttekið reiðufé eigi uppruna sinn í misjafnri starfsemi. „Þannig virðist margt vera að falla í þá átt að móttaka reiðufjár sem greiðslu sé ekki fýsilegur kostur,“ segir Benedikt.
Stjórn Neytendasamtakanna hefur ályktað að stjórnvöld verði að tryggja aðgengi að reiðufé og notkun reiðufjár. Breki Karlsson formaður segir málefnið ekki hafa verið tekið nýlega fyrir en „við forherðumst í okkar afstöðu þegar við skoðum stöðu heimsmála. Ég tala nú ekki um hér á Íslandi þar sem við erum mjög háð sambandi við útlönd, m.a. þegar kemur að greiðslumiðlun,“ segir Breki.
Seðlabanki Íslands
Fjölbreyttar greiðsluleiðir
Seðlabankinn leggur aukna áhersla á fjölbreyttar greiðsluleiðir, ekki síst í ljósi aukinnar óvissu í alþjóðamálum og fjölda netárása. Reiðufé getur verið hluti af lausninni samhliða grunninnviðum fyrir greiðslumiðlun.
Ef reiðufé á að nýtast sem varúðarleið á Íslandi segir Tómas Brynjólfsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika að huga þurfi að lögfestingu á rétti einstaklinga til greiðslu með reiðufé, gera áætlanir fyrir aukna dreifingu þess eða skylda tilgreindar verslanir og þjónustuaðila til að taka við reiðufé t.d. í almennu rafmagnsleysi eða við langvarandi nettruflanir, líkt og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum.