Sviðsljós
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Á morgun verður þess minnst í Neskaupstað að hálf öld verður þá liðin frá hörmulegum atburðum í bænum þegar snjóflóð féllu á byggðina með þeim afleiðingum að 12 létu lífið.
Þessir atburðir eru vel þekktir og hafa áður verið rifjaðir upp hér á síðum blaðsins enda ríkti þjóðarsorg í landinu vegna þessa í aðdraganda jólahátíðarinnar 1974. Atburðarásin verður því ekki rakin í smáatriðum í þessari umfjöllun.
Minningarstund verður haldin af þessu tilefni í Norðfjarðarkirkju á morgun klukkan 17. Séra Benjamín Hrafn Böðvarsson og séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir leiða stundina. Kór Norðfjarðarkirkju syngur í athöfninni ásamt tónlistarfólki frá Neskaupstað, samkvæmt auglýsingu frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð. „Eftir minningarstundina verður haldin ljósastund við minningarreitinn vegna snjóflóðanna klukkan 18:00. Þaðan verður svo farin ljósaganga um snjóflóðavarnargarðana og endað í Safnahúsinu þar sem boðið verður upp á heitt súkkulaði og kleinur,“ segir þar enn fremur.
Í auglýsingunni eru íbúar sveitarfélagsins hvattir til að tendra friðarkerti við heimili sín á morgun til minningar um þau sem fórust í snjóflóðunum. Hér má bæta því við að í fyrri minningarathöfnum á Norðfirði vegna náttúruhamfaranna hefur verið kveikt á 12 kertum fyrir utan kirkjuna í sama tilgangi.
Fjall í fangið
Hjónin Ólöf Þorvaldsdóttir og Logi Kristjánsson sendu nýlega frá sér bókina Fjall í fangið og þar er fjallað um snjóflóðin og uppbygginguna eftir hamfararnir ásamt fleiru sem snýr að mannlífinu í Neskaupstað en þau bjuggu í bænum um 11 ára skeið. Logi var bæjarstjóri í Neskaupstað og um leið formaður almannavarna þegar hörmungarnar dundu yfir.
Bókin verður vafalítið stórmerkileg heimild um þessa atburði en Ólöf segir að í bókinni segi Logi frá ýmsu sem ekki hafi komið fram áður á prenti. Ólöf ritaði bókina eftir frásögn Loga.
„Logi lýsir því hvernig aðkoman var á snjóflóðasvæðinu og segir frá björgunaraðgerðunum, sem stjórnandi þeirra, sem ekki hefur verið gert áður,“ segir Ólöf þegar Morgunblaðið hefur samband við hana. Óvissan var mikil á svæðinu þegar ekki lá fyrir hvort snjóflóðahættan væri um garð gengin eður ei en björgunaraðgerðir nauðsynlegar.
„Það sást ekki til fjalla og því ríkti fullkomin óvissa. Enginn gat vitað hvort fleiri flóð myndu falla yfir bæinn eða hvar. Sú staða var uppi fyrstu tvo sólarhringana. Það var hins vegar ekki rætt fyrst á eftir og líklega er það nú sagt í fyrsta skipti opinberlega eftir þessi 50 ár.“
Olíutankur klipptist í sundur
Ólöf rifjar upp hversu erfið staðan var í bænum dagana á eftir.
„Þetta var hræðileg staða. Við vorum innilokuð á ýmsa vegu. Landleiðin var skiljanlega lokuð því allt var á kafi í snjó og einungis sjóleiðin fær. Ofan á allt annað vorum við vatnslaus, rafmagnslaus og án símasambands. Ástandið var því hroðalegt og allur bærinn fékk því djúpt áfall. Logi segir frá þessu í bókinni,“ bendir Ólöf á en með tímanum gekk uppbyggingin í bænum býsna vel en mikilvægt atvinnuhúsnæði varð einnig fyrir barðinu á flóðunum rétt eins og íbúðarhús.
„Logi segir frá því hvernig bæjaryfirvöld tóku við sér og unnu úr stöðunni. Heimsókn Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra og annarra ráðamanna tveimur dögum eftir atburðina hafði mikið að segja og var hughreystandi fyrir bæjarbúa. Í framhaldinu var makalaust stórvirki hvernig tókst að byggja bæinn upp á ný á skömmum tíma og mannvirkin sem fóru undir flóð. Skipuleggja þurfti nýtt svæði með hraði fyrir ný atvinnuhúsnæði. Þá var meiri háttar olíumengun yfirvofandi eftir að 900 tonna svartolíutankur klipptist í sundur og það var stórmál að eiga við það. Í bókinni er því fróðleikur um marga stóra þætti í sambandi við uppbygginguna sem ekki hefur komið fram áður.“
Samstaða og samhygð
Ólöf segir að samstaða og samhygð hafi einkennt Norðfirðinga áður en áfallið dundi yfir í desember 1974. Það hafi haft sitt segja þegar kom að uppbyggingarstarfinu og hjálpað mikið til. Um leið og uppbyggingin í bænum hafi gengið vel sé aðra sögu að segja af snjóflóðavörnum fyrir ofan byggðina. Nú hálfri öld eftir snjóflóðin sé þeim ekki lokið þótt nú sjái fyrir endann á framkvæmdunum. Framkvæmdirnar hafi ekki hafist fyrr en meira en tveir áratugir voru liðnir frá snjóflóðunum.
Góð tilfinning fylgir því að ljúka bókinni, að sögn Ólafar, en meðan á vinnunni stóð hafi verið erfitt og sársaukafullt að rifja upp þennan tíma. En hvað varð til þess að þau hjónin réðust í gerð bókarinnar?
„Fólk hafði óskað eftir því að við segðum frá þessum tíma sem við bjuggum í Neskaupstað og líklega var nokkuð til í því. Við færðumst hins vegar undan fyrst um sinn og erum orðin öldruð. En þegar við fórum að taka til í dótinu okkar sáum við að við áttum talsvert af gögnum sem okkur fannst eiga erindi við samfélagið. Við hófumst handa en kannski hefðum við átt að gera það fyrr.“
Ljóð um sorgina
„Ég veit hve margur missti“
Sigurður Rúnar Ragnarsson var kennari í barnaskólanum á Norðfirði þegar snjóflóðin féllu 20. desember árið 1974. Ári síðar hóf hann nám í guðfræði og síðar varð hann prestur í Neskaupstað.
Sigurður Rúnar samdi ljóð um atburðina sem hann veitti Morgunblaðinu leyfi til að birta.
Kristur veit …
Þung er sorg þá hrammur slær,
og þrautir margar vakna.
En Guð er einn sem blíður blær,
Hann blessar þá er sakna.
Og Hans er von sem vitund blíð,
sem verður skjól á hverri tíð,
Hann finnur leið sem sættir stríð,
sönn kærleiksvitund há og víð.
Hann finnur leið til friðar nær,
uns fyllir tómið minning skær.
Krists mikla mildin tæra.
Uns gatan verður aftur greið,
sem gengin er í sárri neyð,
er enginn einn á þeirri leið,
þú átt hér Krist þinn kæra.
Og Kristur veit um þjáning þín,
hann vill þig styrkja og næra.
En aftur verður vor á ný,
ég veit og sáttur fagna því,
að kærleik átt í Kristi.
Hann gaf oss allt af sjálfum sér,
og sjálfur fer á undan þér,
þá leið sem öllum ætluð er,
er dauðinn hramm sinn hristi.
Það situr sorg í sálu mér,
ég veit hve margur missti.