Bækur
Snædís
Björnsdóttir
Ást, afbrýðisemi og undanbrögð eru leiðarstef nýrrar sögulegrar skáldsögu Nönnu Rögnvaldardóttur Þegar sannleikurinn sefur. Bókin segir frá morði ungrar vinnukonu á 18. öld og byggist á gömlu sakamáli úr Eyjafirði – sögunni af Úlfár-Gunnu, Magnúsi í Hólum og Jóni vinnumanni hans. Þó er þetta „alls ekki sú saga“ eins og höfundur varar við í eftirmála (239).
Þegar sannleikurinn sefur segir frá Bergþóru, húsfreyju í Hvömmum sem nýlega er orðin ekkja en er þó enn á besta aldri. Eftir rúmlega tuttugu ára hjónaband með mun eldri manni, sem hún giftist á sínum tíma þvert gegn eigin vilja, nýtur hún þess að stýra eigin búi og ráða sér sjálf.
Þegar ung vinnukona, Sigrún, finnst síðan látin á lækjarbakka í nágrenni við Hvamma einn bjartan ágústmorgun er Bergþóru illa brugðið. Ljóst er að Sigrúnu hefur verið drekkt og að morðingi gangi laus í sveitinni. Við taka réttarhöld og yfirheyrslur þar sem flett er ofan af þeim leyndarmálum sem sveitin hefur þagað yfir í gegnum árin. Allir virðast hafa eitthvað að fela – kannski ekki síst Bergþóra sjálf.
Sögupersónurnar í bókinni eru að sögn höfundar allar skáldaðar þrátt fyrir að eiga sér vissar fyrirmyndir í heimildum. Þá er sögusviðið ekki Eyjafjörður, eins og í sakamálinu frá 18. öld, heldur ímyndað hérað á Norðurlandi. Fremst í bókinni er síðan að finna kort sem sýnir staðhætti í þessu skáldaða héraði og er það skemmtileg viðbót.
Þegar sannleikurinn sefur er önnur skáldsaga Nönnu Rögnvaldardóttur sem lesendur þekkja ef til vill best sem höfund fjölda matreiðslubóka. Fyrsta skáldsaga hennar, Valskan, er einnig söguleg og gerist sömuleiðis á 18. öld. Báðar eiga bækurnar það sameiginlegt að hafa hina kvenlegu þrá og konuna sem kynveru í miðdepli.
Girnilegar matarlýsingar
Sigrún, sú látna, var falleg, ung kona sem karlmennirnir í sveitinni girntust – að því er virðist nánast allir með tölu. Það reyndist henni sannarlega dýrkeypt, svo ekki sé meira sagt. Strax í kjölfar morðsins, sem verður vel að merkja alveg í blábyrjun sögunnar, fellur sterkur grunur á fyrrverandi elskhuga hennar og alla þá menn sem hún var orðuð við (þeir reynast ófáir). Ráðgátan liggur því í ástarmálum hennar og sögufléttan gengur að mestu leyti út á það að greiða úr þeim.
Þar sem morðið á sér stað alveg í upphafi sögunnar kynnumst við Sigrúnu fyrst og fremst í gegnum frásagnir annarra af henni. Og fyrir utan stuttan formálann, sem sagður er út frá sjónarhorni hennar, hefur hún því litla sem enga rödd í sögunni. Sú mynd sem þar og annars staðar er teiknuð upp af henni er af léttúðugri, kærulausri og jafnvel einfeldningslegri ungri konu. Hún er því viss erkitýpa og einungis mátulega áhugaverð sem slík.
Andstæða hennar er síðan sögumaðurinn Bergþóra, sem ólíkt Sigrúnu er ekki upp á neinn annan komin. Hún er auk þess klók, forsjál og ákveðin og ekki síst vel liðin af sveitungum sínum. Viðhorf hennar er að sumu leyti nútímalegt, til að mynda virðist henni þykja sjálfsagt að stýra eigin búi og hún lítur ekki svo á að konur séu lægri karlmönnum. Hún er jafnframt án efa áhugaverðasta sögupersóna bókarinnar og eiginlega sú eina sem hefur almennilega dýpt.
Sagan er vel skrifuð og lýsingarnar margar kostulegar. Þá má sérstaklega nefna matarlýsingarnar sem gæða frásögnina lífi og ljá henni einstakt andrúmsloft. Þær eru flestar girnilegar en þó má ætla að nútímalesendum lítist misvel á þegar bornir eru fram réttir eins og rjúpnasúpa, fjallagrasagrautur, súrt smjör og sýrubland.
Þá vakir lygin
Bókinni fylgir athyglisverður eftirmáli þar sem þess er meðal annars getið að ein fyrsta íslenska glæpasagan hafi einnig fjallað um þetta sama sakamál, það er Magnúsar þáttur og Guðrúnar, sakamálasaga frá 18. öld eftir séra Jónas Jónasson á Hrafnagili. Þá tekur höfundur skýrt fram að Þegar sannleikurinn sefur víki nokkuð frá þeirri sögu og sé sjálfstætt hugverk þrátt fyrir að stuðst hafi verið við sögulegar heimildir. Ætlunin sé öðru fremur að „leitast við að ná fram andblæ löngu liðinna tíma“ (240) og er ekki annað hægt að segja en að það takist prýðilega. Myndin sem dregin er upp af íslensku samfélagi við upphaf 18. aldar, sem þá var markað af mannfalli í kjölfar stórubólu, vafasömu réttarfari og ströngum siðferðisreglum stóradóms, er að mörgu leyti – en þó ekki fullkomlega – sannfærandi.
„Lygin vakir þegar sannleikurinn sefur,“ segir á einum stað í frásögninni (158). Þetta þykja mér skemmtilega orðuð og góð spakmæli sem kjarna vel það sem sagan snýst um: feluleiki og laumuástir, bældar þrár og vafasamt siðferði.
Á heildina litið er Þegar sannleikurinn sefur hin ágætasta morð- og ráðgátusaga sem heldur lesandanum við efnið og tekst það sem öllum góðum ráðgátusögum verður að takast – að koma á óvart. Hún lék í það minnsta rækilega á mig.