Spár benda til róttækra breytinga

Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur setið í góðan áratug í embætti í umboði flokks síns, Frjálslynda flokksins. Þótt hann hafi alllengi setið í embætti sínu hefur á ýmsu gengið þar og Trudeau hefur í tvígang farið fyrir minnihlutastjórn í landi sínu. En hann hefur einnig sætt pólitískum rannsóknum þrisvar sinnum, og var sakfelldur tvívegis en sýknaður í eitt skipti. Fyrra „hneykslismálið“ var kallað „Aga Khan-málið“, þar sem forsætisráðherrann var talinn hafa þegið gjafir sem hefðu verið handan við siðleg mörk. Seinna málið var kallað „SNC Lavalin-málið“, og var einnig sakfellt vegna þess. Forsætisráðherrann sætti enn einni pólitískri rannsókn, eða í hið þriðja sinn, en stóð hins vegar þá atlögu andstæðinganna af sér.

Richard Nixon, forseti Bandaríkjanna, sótti á sínum tíma þau Trudeau-hjón heim, þegar sá yngri var svo sem ársgamall. Nixon skálaði til barnsins og sagðist binda góðar vonir við það, og vildi spá fyrir því, að þessi litli snáði myndi síðar meir gegna sama embætti og faðir hans nú. Og Trudeau eldri svaraði og sagðist vona, að ef frómar óskir Bandaríkjaforseta rættust, mætti drengurinn búa við snilld og glæsilegan árangur í starfi eins og gesturinn!

Þegar nafn núverandi forsætisráðherra Kanada er nefnt kemur nafn föður hans, Pierres Trudeaus, eins og ósjálfrátt upp í hugann. Hann var forsætisráðherra Kanada í tvígang, fyrst frá árinu 1968 til 1979, eða í 11 ár, og svo aftur á ný frá árinu 1980 til 1984, eða samtals í 15 ár. Saman hafa þeir feðgar þá gegnt þessu æðsta embætti Kanada í aldarfjórðung, og er því ekki lokið enn.

Þegar Trudeau yngri varð forsætisráðherra varð hann sá næstyngsti til að gegna því embætti. Nú virðist margt benda til, að þessum þætti hins langa og mikla valdaskeiðs, sem er óalgengt í landi sem býr við lýðræðisskipan, sé lokið, að minnsta kosti um einhverja hríð. Ljóst er að núverandi forsætisráðherra hefur misst verulegan stuðning úr eigin flokki, þó að hann eigi enn töluverðan stuðning í þingflokknum, þótt það fylgi sé orðið verulega götótt. Fylgi Íhaldsflokksins hefur hins vegar aukist verulega meðal Kanadamanna, svo að þeir sem fylgjast best með stjórnmálum þar í landi telja, að yfirgnæfandi líkur standi nú til þess að pólitískur meirihluti í landinu muni breytast. Það verða þá töluverð tíðindi, þegar horft er til langvarandi valdatíðar Trudeaus og eftir atvikum til valdatíðar föður hans, þótt þar hafi auðvitað verið skil á milli, eins og nefnt var.