Gunnar Jónsson fæddist 5. október 1935 á Völlum í Svarfaðardal. Hann lést 28. nóvember 2024 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Foreldrar hans voru Jón Jónsson, f. 25. maí 1905, d. 21. febrúar 1988, og Anna Arnfríður Stefánsdóttir, f. 1. desember 1909, d. 29. janúar 1985.

Systkini Gunnars eru Stefán, f. 8. maí 1934, d. 2021, Jón Anton, f. 24. nóvember 1936, d. 2016, Helgi, f. 5. júlí 1939, Filippía f. 27. júlí 1940, d. 2024, Gerður, f. 6. maí 1942, Kristján Tryggvi, f. 6. maí 1945, Svanfríður, f. 12. september 1949 og Hanna Soffía, f. 10. júlí 1952.

Gunnar kvæntist 2. júní 1963 Kristínu Sigríði Klemenzdóttur, f. 5. október 1937, d. 16. janúar 2012. Foreldrar hennar voru Klemenz Vilhjálmsson, f. 3. nóvember 1910, d. 19. júlí 1983 og Sigurlaug Halldórsdóttir, f. 2. nóvember 1910, d. 4. desember 1988.

Börn Gunnars og Kristínar eru: 1) Andvana fædd stúlka, 12. júní 1964, 2) Guðrún Þóra, f. 23. maí 1965. Börn hennar eru Kristín Kolka, f. 16. október 1994 og Gunnar Logi, f. 1. maí 2009. 3) Sigurlaug Anna, f. 13. desember 1966, 4) andvana fæddur drengur, 18. apríl 1969, 5) Steinunn Elva, f. 17. júlí 1970, 6) Klemenz Bjarki, f. 19. september 1975, maki Unnur Valgeirsdóttir, f. 15. október 1974. Börn Klemenzar eru Þorsteinn Jakob, f. 29. mars 2004, Úlfhildur Embla, f. 4. mars 2006, Þuríður Oddný, f. 5. maí 2008 og Valgerður Freyja, f. 21. mars 2010.

Gunnar ólst upp í Gröf í Svarfaðardal og fluttist svo með fjölskyldu sinni að Böggvisstöðum, rétt sunnan við Dalvík, árið 1947. Hann gekk í barnaskólann í Svarfaðardal, var tvo vetur á Laugum í Reykjadal sem var honum mjög minnisstæð dvöl og gekk svo í Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hann brautskráðist 17. júní 1957. Hann var duglegur að sækja stúdentsafmæli árgangsins og hélt alltaf sambandi við bekkjarfélaga. Hann hóf nám í læknisfræði en hætti og eftir það vann hann hjá Flugfélagi Íslands og síðan á Dalvík, t.d. við verslunarstörf. Árið 1966 hófu Gunnar og Kristín búskap á Brekku í Svarfaðardal, æskuheimili Kristínar. Eftir lát Kristínar 2012 flutti Gunnar til Dalvíkur og síðan til Akureyrar 2021.

Gunnar var virkur í félagsstörfum samhliða búskapnum, var m.a. í hreppsnefnd í Svarfaðardal til fjölda ára, í stjórn Sparisjóðs Svarfdæla og kjörstjórn. Hann var félagslyndur og mikill spilamaður og keppti í bridge um árabil. Spilamennska var hans helsta skemmtun fram á síðasta dag.

Útför Gunnars fer fram frá Dalvíkurkirku 19. desember 2024, kl. 13.30. Hann verður jarðsettur í Tjarnarkirkjugarði í Svarfaðardal, við hlið Kristínar.

Svarfdælsk fjöll umvöfðu föður okkar, Gunnar Jónsson, allt hans líf. Þau hindruðu þó ekki víðsýni né áhuga á því að ferðast. Hann og móðir okkar fóru í góðar ferðir til Ítalíu og Þýskalands og eins naut hann þess að fara í fjölskylduferð til Kaupmannahafnar og rifja upp dvöl sína þar á þrítugsaldri þegar hann vann hjá Flugfélagi Íslands. Hann og mamma nutu þess mjög að ferðast um landið og eftir að hún féll frá 2012 var hann duglegur að fara í lengri og styttri ferðir með fjölskyldunni.

Pabbi var alinn upp í stórum og góðum hópi átta systkina og það voru alla tíð sterk og góð tengsl þeirra á milli. Pabbi ólst upp í Gröf í Svarfaðardal en fluttist 12 ára gamall með fjölskyldu sinni að Böggvisstöðum og um áratug síðar flutti fjölskyldan svo til Dalvíkur í hús sem kallaðist Sólgarðar og það nafn hefur fest við þann ættboga sem frá foreldrum pabba, þeim Jóni og Önnu, er kominn.

Prakkarastrik þeirra bræðra á barnsaldri lifðu góðu lífi í frásögum pabba. Á ættarmótum Sólgarðafjölskyldunnar var oft mikið fjör, ekki síst í kringum spilamennsku enda flest systkinin og pabbi þar ekki undanskilinn ákaflega mikið spilafólk. Bridge var hans spil en honum tókst ekki að smita börnin sín af þeirri íþrótt svo önnur spil eins marjas, kasína og manni voru líka á dagskrá og sennilega eru það óteljandi ólsen-ólsenar sem hann spilaði við barnabörnin í gegnum tíðina sem öll eiga það sameiginlegt að hafa átt ótal gæðaspilastundir með afa sínum. Hann og mamma spiluðu líka mikið eftir að um hægðist í búskap og heimilishaldi og víst er að hann missti mikið þegar hún féll frá 2012.

Pabbi var félagsvera, hann naut þess að fá fólk í heimsókn, hlusta á sögur, segja sögur og hlæja. Hann vildi veita fólki vel, ekki síst um göngur enda var alltaf mikið fjör í Brekku í kringum göngur og réttir, vel var þá veitt af veitingum bæði í föstu og fljótandi formi.

Með aldrinum var pabbi æðrulaus maður og lét aldrei beiskju yfirtaka lífið. Það kom berlega í ljós eftir að mamma féll frá, þá fluttist hann til Dalvíkur og bjó sér sjálfstætt líf, fór að þvo sinn eigin þvott og jafnvel elda létta rétti. Lifði lífinu lifandi með fallegri reisn. Pabbi las alla tíð mikið og alveg fram á síðasta dag. Hann var mikill krossgátumaður enda unni hann íslensku máli og reyndi að kenna börnum og barnabörnum að tala gott mál. Minnið hélst alveg óbrenglað til hinstu stundar, taldi hann krossgáturnar vera hina prýðilegustu heilaleikfimi. Hann var líka tungumálamaður og mundi sína dönsku, ensku og latínu mjög vel síðan úr menntaskóla. Líka ýmislegt úr frönsku og þýsku.

Síðustu árin var aðeins farið að hægja á en honum fannst alltaf gaman að tilbreytingu. Hann var alltaf þakklátur og tók engu sem gefnu. Að leiðarlokum erum við líka full þakklætis og þökkum af öllu hjarta fyrir stuðning og hvatningu í gegnum lífið. Við erum þakklát fyrir að barnabörnin sex fengu að alast upp með afa sem auðgaði líf þeirra á svo margvíslegan hátt.

Takk pabbi, megi minning þín lifa.

Guðrún Þóra, Sigurlaug Anna, Steinunn Elva, Klemenz Bjarki.

Afi minn var góðhjartaðasta manneskja í heiminum og það er fátt sem lýsir honum betur en síðustu orðin sem hann sagði við mig. Eftir að hafa komið í heimsókn til hans upp á sjúkrahús og átt með honum fallega stund þar sem hann minntist skemmtilegra minninga á milli okkar tveggja spurði hann mig hvort hann gæti gert eitthvað fyrir mig.

Þarna lá hann veikur uppi í rúmi og ég hafði komið til að kveðja hann, vitandi að ég myndi líklegast aldrei tala við hann aftur, en það eina sem afi hugsaði um var hvort mér liði vel og hvort hann gæti gert eitthvað fyrir mig.

Afi gerði allt svo að mér liði vel, hvort sem það var að keyra mig endalaust fram og til baka af því ég hafði gleymt takkaskóm eða gítarnótum eða að fylla allt húsið af kexi og nammi af því að ég nefndi það í hálfkæringi að mér fyndist það gott.

Þetta er það sem einkenndi afa minn og þetta er það sem ég mun taka með mér og muna að eilífu. Þessi hlýja og einstæða góðmennska sem vildi ekkert fá til baka nema samveru og tíma með barnabörnunum.

Afi minn var góðhjartaðasta manneskja í heimi og þessi góðmennska mun vera með mér að eilífu.

Takk fyrir mig, afi minn.

Þorsteinn Jakob Klemenzson.

Ég var svo lánsöm að fá að hafa afa Gunnar í lífi mínu í 30 ár, en samt sem áður finnst mér það ekki nóg og það er sárt að kveðja svo góðan afa. Sem barn vildi ég helst ekki annars staðar vera en hjá afa og ömmu í Brekku og ég eyddi sem flestum frídögum einmitt þar. Stundum keyrði afi á móti mömmu, og þá fékk ég alltaf kóngabrjóstsykur sem var geymdur í sömu dollunni í bílnum og var akkúrat passlega seigur.

Lífið var alltaf í tiltölulega föstum skorðum hjá afa og ég vissi alltaf nokkurn veginn hvernig dagurinn myndi verða hjá okkur, en það kom alls ekki að sök. Eftir morgunkaffið fórum við í fjárhúsið, afi að sópa krærnar og ég að sópa garðana og klappa síðan kindum á meðan ég beið eftir að afi kláraði. Eftir hádegismat lagði hann sig með brúna teppið sem mér fannst of hrjúft en lét mig samt hafa það að kúra stundum undir því með afa eins lengi og þolinmæðin leyfði. Þolinmæðin mín það er að segja, því afi hafði endalausa þolinmæði fyrir mér. Fyrir síðdegiskaffið röltum við saman niður afleggjarann að ná í póstinn og komum heim með lesefni fyrir góða kaffitímann hennar ömmu. Stundum fór ég með í seinni parts gjöfina í fjárhúsin, og var meira fyrir en til gagns, en það var aldrei að sjá á afa annað en að hjálp mín væri ómetanleg. Áður en við fórum í fjárhúsin fékk ég líka alltaf tópas, tvo mola.

Rútínan var breytileg eftir árstíma, en alltaf hafði ég gaman af því að vera að stússast með afa. Sitja á kassanum í Zetornum, fylla á vatnið hjá kindunum niður í mýrum, stússast í sauðburðinum, fara í bankann, búðina og bókasafnið á Dalvík og á sumrin enda ferðina á bensínstöð til að fá stærsta ísinn sem var í boði.

Þegar ég varð eldri og SkjárEinn var kominn í Svarfaðardal þá hafði ég líka alltaf nóg til að horfa á í Brekku því afi var alltaf búinn að taka upp fyrir mig á spólu alla þættina sem ég var að fylgjast með. Það vantaði aldrei þátt inn í, þrátt fyrir að afi hefði engan áhuga á þessu sjónvarpsefni sjálfur. Alltaf jafn vandaður og áreiðanlegur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur, Survivor-upptökur voru þar engin undantekning.

Á síðari árum á Dalvík og Akureyri var rútínan aðeins öðruvísi en ákveðnir hlutir breyttust aldrei, eins og að horfa á hinar ómissandi veðurfréttir saman í lotningarfullri þögn eða spila kasínu eða manna, en það gerðist varla að við afi hittumst án þess að taka í spil. Svo kvöddumst við alltaf með kossi á kinn og „góða nótt“. Það var dýrmæta rútínan okkar sem hélst til hins síðasta.

Elsku afi, þinnar hlýju nærveru verður sárt saknað en minningin um glettið bros og blik í auga lifir.

Kristín Kolka Bjarnadóttir.