Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Við erum allar frekar náttúrulegar týpur sem vaða í verkin, lítið um hik eða tepruskap þar sem við förum saman. Ef ætti að lýsa okkur þremur, þá erum við ótrúlega mikið til í allt. Kannski þess vegna sem við erum svona góðar vinkonur. Okkar vinskapur er dásamlegur og gengur út á gleði og næringu andans,“ segja þær vinkonur Dagný Bjarnadóttir, Begga Rist og Sigurlaug Jónsdóttir, en þær hittust með nánast engum fyrirvara um daginn til að búa saman til jólakonfekt.
„Þetta er engin hefð hjá okkur, við höfum aldrei gert þetta áður, en þessi konfektgerð var mjög skemmtileg og það gekk á ýmsu, einn blandari sjóðhitnaði og bræddi næstum úr sér. Þetta var skyndiákvörðun, en megináherslan í þessu öllu er á hláturinn, samveruna og vitleysuna, þess vegna er svo gaman þegar kemur upp eitthvert vesen.“
Gjörningurinn fór fram á heimili Beggu og þangað mættu Dagný og Sigurlaug galvaskar með svuntu og inniskó. „Ég skellti auðvitað líka á mig svuntu og renndi mér í inniskó, mér fannst við verða að tóna saman, enda skiptir máli að skapa stemningu. Þetta var virkilega skemmtilegt kvöld, sagðar sögur og viðhafður almennur fíflagangur, sem er svo hressandi. Við smökkuðum líka aðeins á líkjörunum sem áttu að fara í konfektið, annað var ekki hægt. Þetta var fullkomið stelpukvöld sem var alveg óvart líka matarboð, það gerðist alveg náttúrulega, því við þurftum að fá einhverja orku til starfsins.“
Þolir ekki bitlausa hnífa
„Þetta var mjög frjálst hjá okkur, við gerðum bara eitthvað, en ég gúgglaði danskar jólakonfektsuppskriftir og sendi á hinar tvær. Við komumst að því að marsípan og núggat er aðalhráefnið,“ segir Begga og Dagný bætir við að það hvernig þær báru sig að við konfektgerðina sé mjög lýsandi fyrir persónuleika þeirra. „Begga nostraði við hvern einasta mola svo úr varð listaverk, alveg gullfallegt handverk. Ég aftur á móti byrjaði strax í akkorði við að framleiða konfektmola, vann mig hratt í gegnum þetta og var mjög upptekin af því að ná að fjöldaframleiða þrjár ólíkar tegundir af molum. Sigurlaug einbeitti sér að því að vera með allskonar óvæntar bragðtegundir og krydd í sínum molum, til dæmis chili og fleira gott, enda veit hún allt um matvæli og hvaða brögð passa saman. Hún hefur líka gert konfekt áður með öðrum og var því ekki byrjandi eins og við Begga.“
„Ég kom nú bara með það sem var til heima hjá mér í þessa konfektgerð og var ekki með neina uppskrift. Ég greip með mér brýni, af því að ég þoli ekki að vinna með bitlausa hnífa,“ segir Sigurlaug og bætir við að þegar þær voru búnar að gera konfektið þurftu þær að glöggva sig á geymsluþolinu og þá kom í ljós að sumt hafði ekki nema þriggja daga þol.
„Þá var ekkert annað að gera en borða þá mola strax,“ segja þær og skellihlæja. „Annað geymist í margar vikur og sumt má frysta, en ég hef fengið mér mola á hverju kvöldi,“ tilkynnir Dagný kinnroðalaust og tekur fram að útkoman hjá þeim vinkonum hafi verið mjög ásættanleg.
„Begga bjó til áberandi fallegustu molana, Sigurlaugar bitar voru frumlegir með bragðviðsnúningum og mínir massaframleiddu molar voru síður fagrir en samt mjög bragðgóðir.“
Róandi molar og megrandi
Þær segja mikilvægt að hlúa að vináttu og samveru á aðventunni og nenna ekki að fara með látum í gegnum undirbúning jólanna.
„Við erum ekki í þessu brjálæði sem heltekur marga, við erum meira að dunda okkur, eins og til dæmis við þessa konfektgerð og einhverjum molum munum við lauma í jólapakka. Þetta jólakonfekt er róandi nammi, af því að það er búið til af alúð í rólegheitum, þetta er nánast megrandi,“ segja þær og hlæja. „Enginn mun hakka þetta í sig, þetta hægir á og fólk getur notið þess að borða í rólegheitum einn og einn mola með kaffinu, þetta er svokallað slow-konfekt. Þegar við borðum þetta sjálfar þá fáum við hlýtt í hjartað við að leiða hugann að samverustundinni góðu sem konfektgerðin var,“ segir Sigurlaug sem árlega gerir veglega hnetusteik fyrir jólin á sínu heimili.
„Daginn sem ég ætlaði að búa til hnetusteikina var ég eitthvað döpur og langaði ekkert að búa hana til, ég bara vildi ekki búa hana til ef ég væri ekki glöð. Ég fór því til Stínu vinkonu minnar sem er baðþerapisti og fékk þar svo róandi meðhöndlun að eftir það var ég aftur orðin ég, og alveg til í að búa til mína jólahnetusteik. Það skiptir nefnilega máli að okkur líði vel þegar við búum til matinn sem við ætlum að borða og bjóða öðrum að borða með okkur.“
Hestar og söngur okkar sæla
Vinskapur þeirra þriggja nær yfir langan tíma, Dagný og Begga hafa verið vinkonur frá því þær voru litlar stelpur og þær unnu líka saman mörg sumur sem unglingar hjá Skógræktinni.
„Seinna komumst við að því að við erum frænkur og svo erum við báðar í hestamennsku. Sigurlaugu kynntumst við fyrir 18 árum í gegnum Brokkkórinn, kór hestafólks á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hestar og söngur leiddu því okkur þrjár saman og við höfum verið góðar vinkonur allar götur síðan, farið saman í hestaferðir og notið þess að vera til,“ segir Begga Rist sem er með hestaleigu og reiðskóla í Víðidal þar sem hún tekur á móti ferðamönnum og fer með þá í reiðtúra. Dagný starfar sem landslagsarkitekt og Sigurlaug er landvörður, hefur unnið sem skálavörður til margra ár, en nú sér hún um ráðningar og utanumhald skálavarða hjá Ferðafélagi Íslands.