50 ára Sævar ólst upp á Húsavík og svo Vopnafirði til 16 ára aldurs er hann flutti til Reykjavíkur. Hann býr núna á Akureyri. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum á Laugum hélt hann í nám í íþróttafræðum í Hamilton á Nýja-Sjálandi

50 ára Sævar ólst upp á Húsavík og svo Vopnafirði til 16 ára aldurs er hann flutti til Reykjavíkur. Hann býr núna á Akureyri. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum á Laugum hélt hann í nám í íþróttafræðum í Hamilton á Nýja-Sjálandi. Sævar vann við rekstur Baðhússins og kom að stofnun Sporthússins auk þess að reka það fyrstu árin eftir opnun. Að því loknu kláraði hann viðskiptapróf og opinbera stjórnsýslu frá HÍ og lauk svo síðar meistaraprófi í skattarétti og reikningshaldi frá viðskipta- og lagadeild HÍ.

Sævar hefur mikið verið í íþróttum og heilsurækt frá unga aldri og starfar í dag sem framkvæmdastjóri KA. „Mestur minn tími fer í það starf. Áhugamálin snúast að miklu leyti um íþróttir og fjölskyldusamveru en ég leita oft í golfið ef KA eða börnin mín eru ekki að keppa.“

Sævar hefur verið virkur í íþrótta- og félagsstarfi allt sitt líf og setið í ýmsum stjórnum og ráðum, m.a. stjórn Skvasssambands Íslands, stjórn ÍTF, forvarnarteymi Skagafjarðar og Reykjavík spa city svo eitthvað sé nefnt.

Fjölskylda Maki Sævars er Sunna Svansdóttir, f. 1974, þroskaþjálfi og börn þeirra eru Viðar Örn, f. 1999, Valdimar Logi, f. 2006, Viktor Máni, f. 2008, og Sif Sævars, f. 2010. Foreldrar Sævars eru Pétur Olgeirsson framkvæmdastjóri og Ása Dagný Hólmgeirsdóttir en þau búa á Húsavík.