Ástralíudraumur Tónleikaferð Heru til Ástralíu verður að veruleika eftir áramót, en undirbúningur hófst í vor þegar hún keppti fyrir Ísland.
Ástralíudraumur Tónleikaferð Heru til Ástralíu verður að veruleika eftir áramót, en undirbúningur hófst í vor þegar hún keppti fyrir Ísland. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég fæ pínu kvíðahnút í magann, en það er gott,“ sagði Hera Björk Þórhallsdóttir, stórsöngkona og fasteignasali, í samtali við Bráðavaktina á K100 um liðna helgi. Hera mætti í hljóðverið til þeirra Hjálmars og Evu Ruzu í jólaskapi, þar…

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

„Ég fæ pínu kvíðahnút í magann, en það er gott,“ sagði Hera Björk Þórhallsdóttir, stórsöngkona og fasteignasali, í samtali við Bráðavaktina á K100 um liðna helgi. Hera mætti í hljóðverið til þeirra Hjálmars og Evu Ruzu í jólaskapi, þar sem hún ræddi komandi Eurovision-tengt tónleikaferðalag sitt til Ástralíu í janúar og væntanlega jólatónleika með Margréti Eiri og Dísellu. Á tónleikunum munu þær flytja helstu jólaperlur Frostrósa ásamt Stefáni Hilmarssyni og fjölda kóra.

Eurovision-drottning í Ástralíu

„Ég er að fara að vera Eurovision-drottning í Ástralíu í tæpan mánuð, í fimm borgum. Ég held að þetta séu orðin einhver þrettán gigg. Þetta verður eitthvert heljarinnar ævintýri,“ sagði Hera, sem verður eina söngkonan á þessu ferðalagi.

Hjálmar benti á hversu auðvelt væri að verða ástfanginn af Ástralíu og nefndi að dóttir hans væri þar um þessar mundir og vildi, að hans sögn, ekki koma heim aftur. „Hún segir að Ástralía sé besta land í heimi,“ sagði hann.

„Það er svolítið búið að vara mig við því. Búðu þig bara undir það, þegar þú ert búin að vera þarna, að þá langar þig bara til að hringja í fjölskylduna og segja þeim að koma,“ sagði Hera. Hún bætti þó við að erfitt væri að fá aðgang að landinu og hvað þá flytja þangað.

„Ég fór í gegnum þvílíkar yfirheyrslur bara til að fara þangað og syngja nokkur lög,“ sagði Hera og bætti við að hún teldi erfiðara að komast til Ástralíu en Bandaríkjanna.

„Það er eitt mjög spennandi verkefni, sem er líka að hluta til unnið í sjálfboðavinnu, þar sem safnað verður peningum fyrir börn á svæðinu. Það fer fram í Melbourne, í skautahöll. Ég verð drottning Íslands á miðju skautasvellinu, böðuð ljósum og í glæsilegum kjól að syngja. Ég verð þó á sviði, ekki á skautum. Skautadansarar, Ástralíumeistarar í listdansi, munu skauta í kringum mig við Eurovision-lögin mín,“ útskýrði Hera, sem nú á fjögur Eurovision-lög í farteskinu.

Hún segir að eitt af vinsælustu lögunum sem hún flytur sé „Húsavík (My Hometown)“ úr Eurovision-mynd Wills Ferrells.

„Fullorðnir karlmenn standa fyrir framan mig og gráta. Það er mjög fallegt,“ sagði Hera.

„Í þetta skipti er þetta bara ég, svo ég er að fara að halda uppi 90 mínútna skemmtun. Ég er að fara með showið mitt sem ég kalla „Queen effing everything!“,“ sagði Hera. Um er að ræða blöndu af uppistandi og tónleikum. Hún segir að fjölmiðlar í Ástralíu hafi fylgst vel með henni frá því hún keppti í Eurovision árið 2010. Ástralir hafa löngum verið mjög hrifnir af Eurovision og hafa tekið þátt í keppninni sem gestaríki síðan 2015, sem sýnir hversu djúp tengsl þeirra eru við þetta vinsæla sjónvarpsefni.

Ástralíuferðin hefur lengi verið á döfinni, enda átti Hera flugmiða í sams konar ferð í mars 2020, en heimsfaraldurinn kom þá í veg fyrir hana. Nú er tónleikaferðalagið loksins staðfest, í kjölfar þess að Hera tók aftur þátt fyrir Íslands hönd í Eurovision á þessu ári.

Komu af stað nýju trendi

Nú eiga þó jólin hug hennar allan, og hún hlakkar mikið til að stíga á svið í Eldborg 20. desember, þar sem töfrar Frostrósa munu svífa yfir á ný.

Frostrósir komu fyrst fram fyrir jólin 2001 og heilluðu land og þjóð. „Það gerðust einhverjir töfrar þegar þetta var sett í gang. Þetta voru fyrstu stóru jólatónleikarnir sem voru haldnir á Íslandi. Frostrósir ýttu þessu trendi svolítið af stað og gerðu allt vitlaust. Svo kom Bjöggi inn á markaðinn og við fórum í svaka keppni. Fólk var að etja okkur saman. Við komum meira að segja í áramótaskaupinu og allt,“ sagði Hera.

Frostrósir héldu tónleika í aðdraganda jóla til ársins 2013, en Hera segir að þá hafi verið komið gott. „Svo lá þetta í dvala þar til í fyrra. Þá dustuðum við rykið af þessu aftur,“ sagði Hera, sem segir söngkonurnar nú endurnærðar og ótrúlega spenntar að töfra landann á ný.

Fjölmargir koma að tónleikunum, en Hera segir að „Frostrósafjölskyldan“ sé mjög stór. „Fyrst og síðast er þetta tónlistin. Útsetningarnar hjá Kallanum og flutningurinn hjá heildinni: hljómsveitinni, kórunum og röddunum. Við vinnum með hátíðleikann. Í dag erum við í smá sérstöðu því það er svo mikið grín og gleði alls staðar, en við erum alveg á hinum endanum. Við erum í hátíðleikanum,“ segir Hera. Hún staðfesti að hún myndi hafa fataskipti sjö sinnum á tónleikunum.

„Við erum ekkert að tjilla baksviðs. Við erum bara í fataskiptum. Það er verið að glossa okkur. Við lítum ekki einu sinni í spegil, við höfum ekki tíma fyrir það,“ sagði Hera, sem lofar miklu glimmeri á tónleikunum.

Hægt er að fá miða á Tix.is/frost.

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir