María Rut Kristinsdóttir
María Rut Kristinsdóttir
Sumt fólk virðist hafa miklar áhyggjur af myndun nýrrar ríkisstjórnar. Fullyrðingar á borð við „Ég efast um að kjósendur Viðreisnar hafi verið að kjósa yfir sig vinstristjórn“ eða „Þessi vinstristjórn verður vonlaus“ streyma nú út úr öllum hornum fráfarandi valdhafa

Sumt fólk virðist hafa miklar áhyggjur af myndun nýrrar ríkisstjórnar. Fullyrðingar á borð við „Ég efast um að kjósendur Viðreisnar hafi verið að kjósa yfir sig vinstristjórn“ eða „Þessi vinstristjórn verður vonlaus“ streyma nú út úr öllum hornum fráfarandi valdhafa.

Það sem ég staldra við eru ekki endilega áhyggjurnar sem slíkar, heldur þessi knýjandi þörf ákveðinna afla til að skilgreina allt sem er mögulega örlítið á skjön við þeirra eigin tilveru sem hið illræmda vinstri.

Ég er alla jafna áhugamanneskja um pólitískar skilgreiningar. En þegar þær grundvallast ekki á neinu öðru en einhverjum óskilgreindum ótta og tilbúningi finnst mér þær ekkert sérstaklega gagnlegar.

Ég fann mjög sterkt í kosningabaráttunni hvað það olli miklum innantökum í öðrum flokkum að við í Viðreisn skyldum voga okkur að skilgreina okkur sem frjálslyndan miðjuflokk. Ekki hægri, ekki vinstri, heldur sem staðfasta miðju.

Ég heyrði af símhringingum einstaklinga úr flokkum vinstra megin við okkur þar sem kjósendur voru beinlínis varaðir við því að kjósa Viðreisn, því þá myndi hér bresta á með hræðilegri hægristjórn. Úr hinni áttinni ómuðu svo þessi sömu hræðslusímtöl í eyrum kjósenda, nema bara að þar var varað við ógurlegri vinstristjórn. Þetta þótti mér allt saman frekar kómískt, og þykir enn.

Stjórnmál eru flóknari en svo að þau sé einvörðungu hægt að skilgreina út frá klassískum ásum um vinstri og hægri. Samhengið er stærra og þar skipta aðrar breytur ekki síður máli. Til dæmis hvort ákveðnir flokkar eru íhaldssamir eða frjálslyndir, alþjóðasinnaðir eða einangrunarsinnaðir. Það eru margar aðrar víddir til og þær skipta ekki síður máli en þessar hefðbundnu. Heimurinn er ekki alltaf svona svarthvítur.

Nú er það einfaldlega svo að þeir þrír flokkar sem eiga í viðræðum um að mynda nýja ríkisstjórn eru talsvert nær miðjunni en jöðrunum á umræddum ás. Þar eru þeir samhentir. En þeir eru um leið með breiða skírskotun þegar kemur að ýmsum öðrum þáttum. Þeir höfða til að mynda til ólíkra tekjuhópa samfélagsins. Og eru með áherslur sem teygja sig jafnt til höfuðborgar og landsbyggðar. Þar liggur styrkurinn.

En það sem mestu máli skiptir er að þetta eru flokkar sem eru staðráðnir í að láta verkin tala og mynda hér frjálslynda miðjustjórn. Stjórn sem er starfhæf.

Í skilgreiningahjalinu stendur því það eitt eftir að íslenskt samfélag er loksins og blessunarlega að losna undan leiðindunum og verkkvíðanum sem einkenndi síðustu stjórn. Ef allt gengur eftir.

Því ætti að fylgja léttir, ekki önugheit.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar. mariarut@althingi.is

Höf.: María Rut Kristinsdóttir