Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2025 voru kunngjörðar í Borgarbókasafninu í Grófinni í gær. Að verðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Þau eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.
Tilnefndir þýðendur eru í stafrófsröð: Árni Óskarsson fyrir þýðingu sína á bókinni Hnífur: Hugleiðingar í kjölfar morðtilraunar eftir Salman Rushdie sem Mál og menning gefur út; Elísa Björg Þorsteinsdóttir fyrir Saga af svartri geit eftir Perumal Murugan sem Angústúra gefur út; Gyrðir Elíasson fyrir Undir eplatrénu eftir Olav H. Hauge sem Dimma gefur út; Jóna Dóra Óskarsdóttir fyrir Hjálparsagnir hjartans eftir Péter Esterházy sem Ugla gefur út; Jórunn Tómasdóttir fyrir Brotin kona eftir Simone de Beauvoir sem Háskólaútgáfan gefur út; Þórdís Gísladóttir fyrir Þessir djöfulsins karlar eftir Andrev Walden sem Benedikt bókaútgáfa gefur út og Æsa Guðrún Bjarnadóttir og Sverrir Jakobsson fyrir Risaeðlugengið – Leyndarmálið eftir Lars Mæhle og Lars Rudebjer sem Mál og menning gefur út.
Í dómnefnd sitja Guðlaug Guðmundsdóttir, Jóhanna Jakobsdóttir og Guðrún H. Tulinius sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Verðlaunin verða veitt í febrúar á næsta ári. Alls bárust 62 bækur frá 12 útgáfum.
Í umsögn dómnefndar um Hníf segir: „Árna tekst ákaflega vel að setja á fallegt mál djúpan sársauka og hugleiðingar höfundarins í kjölfar árásarinnar. Hér er á ferð reyndur rithöfundur og snjall þýðandi.“ Um Saga af svartri geit segir: „Þýðing Elísu Bjargar er blátt áfram, á afar fallegu íslensku máli sem leiðir lesendur á framandi slóðir.“ Um Undir eplatrénu segir: „Gyrðir fer fimum fingrum um verk hins norska skáldbróður síns. Það er mikill fengur í þýðingum Gyrðis sem enn einu sinni beitir sínu einstaka innsæi og orðlist við þýðinguna.“ Um Hjálparsagnir hjartans segir: „Jóna Dóra þýðir söguna úr frummálinu, ungversku, á fallega íslensku af mikilli kunnáttu og listfengi.“ Um Brotin kona segir: „Jórunni tekst að flytja til okkar heim kvenna og upplifanir á tímum tilvistarkreppu. Þýðingin er fáguð og látlaus.“ Um Þessir djöfulsins karlar segir: „Þórdís nær að fanga lágstemmdan anda sögunnar í hlýrri og blæbrigðaríkri þýðingu.“ Um Risaeðlugengið – Leyndarmálið segir: „Æsa Guðrún og Sverrir þýða á vandaða og lipra íslensku og er bókin líkleg til að auka við orðaforða lesenda og hugmyndaheim.“ silja@mbl.is