Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Það er meiningin að mæta á skrifstofuna á morgun,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í samtali við Morgunblaðið, spurður hvenær hann hyggist mæta til starfa hjá embætti ríkissaksóknara.
Rætt var við Helga Magnús í gær, fimmtudag.
Svo sem kunnugt er krafðist Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari þess að dómsmálaráðherra viki Helga Magnúsi frá störfum, vegna tjáningar hans og orðfæris í opinberri umræðu, eins og komist var að orði, og háttsemi hans væri ósæmileg og ósamrýmanleg starfi hans. Dómsmálaráðherra var ekki sama sinnis og hafnaði því að víkja Helga Magnúsi frá störfum.
Helgi Magnús hefur glímt við alvarleg veikindi undanfarna mánuði og hefur af þeim sökum verið í leyfi frá störfum. Hann segir að útgefið læknisvottorð kveði á um að hann verði vinnufær í dag, föstudag, og á von á því að það mat læknis standi.
Gangi það eftir mæti hann til starfa hjá embætti ríkissaksóknara í dag.
Hann kveðst aðspurður hafa heyrt lítillega í Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, en Helgi vildi hvorki tjá sig efnislega um þau samskipti né spá fyrir um hverjar móttökur hann hlyti af hennar hálfu þegar til kastanna kæmi.