Eigendur og skipstjóri Frá vinstri: Edvard Júlíusson, Gísli Guðjónsson, skipstjóri frystiskipsins Hópsness GK 77, Jens Valgeir Ólafsson og Guðlaugur Óskarsson. Þremenningarnir ráku fyrirtækið saman í 33 ár.
Eigendur og skipstjóri Frá vinstri: Edvard Júlíusson, Gísli Guðjónsson, skipstjóri frystiskipsins Hópsness GK 77, Jens Valgeir Ólafsson og Guðlaugur Óskarsson. Þremenningarnir ráku fyrirtækið saman í 33 ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verkið Eddi í Hópsnesi I og II í samantekt Ásmundar Friðrikssonar fyrrverandi alþingismanns er komið út hjá Uglu útgáfu. Edvarð Júlíusson eða Eddi var tregur til en féllst á að segja sögu sína eftir að hann varð níræður í fyrrahaust

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Verkið Eddi í Hópsnesi I og II í samantekt Ásmundar Friðrikssonar fyrrverandi alþingismanns er komið út hjá Uglu útgáfu. Edvarð Júlíusson eða Eddi var tregur til en féllst á að segja sögu sína eftir að hann varð níræður í fyrrahaust. „Ég nennti ekki að standa í því og leist ekki á það, en ég held að þetta sé þokkalegt hjá karlinum,“ segir Eddi. „Hann fer ekki troðnar slóðir og talar við marga meðreiðarmenn.“

Eddi fæddist á Dalvík, byrjaði 13 ára á sjónum, keypti trillu og haglabyssu fyrir fermingarpeninginn, var öflugur útgerðarmaður í Grindavík, lét til sín taka í bæjarstjórninni, kom að stofnun Bláa lónsins og var stjórnarformaður þess frá byrjun til 2010. Hann hefur auk þess stutt vel við ýmis málefni og ekki síst Golfklúbb Grindavíkur og knattspyrnudeild UMFG. Kona hans var Elín P. Alexandersdóttir, sem andaðist 2019, og eignuðust þau þrjú börn.

Ási rifjar upp dæmi um góðsemi Edda. Eftir að hafa lokið golfhring eitt sinn hafi hann fengið sér að borða og drekka í golfskálanum. Á sama tíma hafi afgreiðslumaðurinn verið að segja mönnum frá sláttuvél sem vantaði illilega til að slá flatirnar en pening vantaði fyrir henni. „„Hvað kostar þetta,“ spurði Eddi. „4.500 krónur,“ svaraði afgreiðslumaðurinn. „En með vélinni?“ „Hún kostar eina og hálfa milljón.“ „Bættu því við,“ sagði Eddi og skrifaði út ávísun fyrir viðurgerningnum og vélinni.“

Lagsmenn, lán og lón

Saga athafnamannsins er rakin á ríflega 500 myndskreyttum síðum í tveimur bindum og fylgir askja utan um bækurnar. Hann þurfti að takast á við ýmislegt en eins og fram kemur í bókunum sigldi hann öllum málum farsællega í höfn. „Eddi var farsæll og traustur maður, missti aldrei mann og líf hans hefur verið fellt og slétt,“ segir Ási.

Haustið 1964 stofnaði Eddi útgerðarfélagið Hópsnes með Jens Valgeiri Óskarssyni og Guðlaugi Óskarssyni. Þeir ákváðu að kaupa bát á Fáskrúðsfirði og átti hann að kosta 1.700 þúsund krónur. Bátnum fylgdi 1.100 þúsund króna áhvílandi lán og afganginn átti að greiða með tveimur víxlum upp á 250 þúsund hvorn og borga 100 þúsund í peningum og til þess þurftu þeir að fá lán. Ekki voru þeir ábyrgðamenn fyrir hálfri milljón í víxlum, en fengu þá samt hjá Guðsteini í frystihúsinu. Því síður áttu þeir 100 þúsund í handraðanum. Þess vegna fór Eddi í Landsbankann í Reykjavík í fyrsta sinn og segir hann frá samskiptunum við bankastjórann í bókinni. Í stuttu máli fékk hann ávísanahefti með 100 þúsund króna inneign. Gengið var frá kaupunum á Fáskrúðsfirði en Eddi hafði aldrei fyllt út ávísun og fékk kaupfélagsstjórann til að gera það en kvittaði svo sjálfur undir. „Sama reikningsnúmerið, 301, er enn hjá Hópsnesi og ef þetta hefði ekki gerst hefði Hópsnesið aldrei orðið til,“ segir hann nú og segist vera forlagatrúar. „Það er einhver sem heldur yfir manni verndarhendi og ég er ekki viss um að ég hefði fengið lánið ef ég hefði lent á öðrum manni en bankastjóranum frá Akureyri.“

Þremenningarnir ráku fyrirtækið saman í 33 ár. „Við vorum allir góðir vinir þegar við hættum. Það bar engan skugga á vinskapinn. Við vorum búnir að láta smíða frystitogara í Póllandi og seldum hann úr landi en við bútuðum kvótann niður og buðum útgerðarfyrirtækjum í Grindavík hann til sölu. Ekki gramm fór út úr plássinu.“

Uppbygging Bláa lónsins var ekki þrautalaus og eru sögunni gerð góð skil í bókunum. Mikilvægur þáttur í stofnun lónsins var að skapa ný störf fyrir kvenfólk. „Við sáum það sem lyftistöng fyrir bæinn og það reyndist rétt,“ segir Eddi.

Eddi var ekki orðinn eins árs þegar fjölskyldan þurfti að flytja að heiman vegna Dalvíkurskjálftans og 90 árum síðar endurtók sagan sig í Grindavík, en hann býr nú í Hafnarfirði. „Ég flyt ekki aftur til Grindavíkur, en ég hef trú á að bærinn byggist aftur upp, því höfnin er góð.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson