Moskva Pútín sat fyrir svörum á blaðamannafundinum í rúmlega fjóra og hálfan klukkutíma.
Moskva Pútín sat fyrir svörum á blaðamannafundinum í rúmlega fjóra og hálfan klukkutíma. — AFP/Alexander Nemenov
Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í gær að hann væri reiðubúinn til þess að funda með Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, hvenær sem væri til þess að ræða mögulegt friðarsamkomulag í Úkraínustríðinu

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í gær að hann væri reiðubúinn til þess að funda með Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, hvenær sem væri til þess að ræða mögulegt friðarsamkomulag í Úkraínustríðinu.

Ummæli Pútíns féllu á árlegum blaðamannafundi hans sem haldinn er í lok hvers árs, þar sem forsetinn situr fyrir svörum í nokkra klukkutíma. Sagði Pútín þar að Rússar væru nú með yfirhöndina í Úkraínu, en viðurkenndi jafnframt að hann gæti ekki sagt nákvæmlega hvenær Rússar myndu endurheimta það landsvæði í Kúrsk-héraði sem Úkraínumenn hertóku í ágúst.

„Við munum sparka þeim út. Algjörlega, annað kemur ekki til greina. En ef spurt er um nákvæma dagsetningu, þá þykir mér það leitt að ég get ekkert sagt á þessari stundu,“ sagði Pútín, en hann var spurður af konu frá Kúrsk hvenær hún gæti snúið aftur til síns heima.

Pútín sagði á fundinum að hann hefði ekki rætt við Trump í rúmlega fjögur ár, en að hann væri reiðubúinn til fundar við hann. Sagðist Pútín vera viss um að þeir tveir hefðu margt til að ræða. Þá væru Rússar tilbúnir fyrir „viðræður og málamiðlanir“. Pútín sagði jafnframt að hann hefði líklega átt að taka ákvörðun um að ráðast inn í Úkraínu mun fyrr en hann gerði.

Forsetinn var einnig spurður um efnahagsástandið í Rússlandi, og sagði hann það vera stöðugt, þrátt fyrir „ytri ógnir“. Hann viðurkenndi þó að verðbólgan væri áhyggjuefni, en rússneski seðlabankinn segir hana vera um 8%. Sumir erlendir sérfræðingar hafa dregið þá tölu í efa og segja að ýmislegt bendi til þess að hún sé nokkuð hærri, eða allt að 21%.

Ræddu stuðning við Úkraínu

Á sama tíma og Pútín hélt blaðamannafund sinn funduðu leiðtogar Evrópusambandsins í Brussel. Ræddu þeir þar einkum um hvernig hægt væri að styðja við Úkraínu í aðdraganda embættistöku Trumps.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sótti fundinn ásamt framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, Mark Rutte, og sagði þar nauðsynlegt að Evrópa og Bandaríkin myndu vinna saman til þess að halda aftur af Rússum. „Við þurfum þessa samstöðu til þess að ná fram friði, og ég tel að einungis saman geti Bandaríkin og Evrópa stöðvað Pútín og bjargað Úkraínu,“ sagði Selenskí.

Hann varaði einnig við því á blaðamannafundi eftir leiðtogafundinn að tilgangslaust væri eltast við vopnahlé við Pútín ef það vopnahlé væri ekki tryggt með neinum hætti, en Selenskí hefur m.a. talað fyrir aðild Úkraínu að NATO. „Pútín elskar að myrða. Ímyndið ykkur að við fáum vopnahlé, en svo eftir tvo mánuði eða tvö ár snýr Pútín aftur. Þá tapa allir,“ sagði Selenskí. Sagði hann að enginn myndi vita hvernig ætti að bregðast við ef Rússar ryfu vopnahléið.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson