Magnea Marín Halldórsdóttir
magnea@mbl.is
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Íslands hefur undirritað samning um loftslagsbreytingar, viðskipti og sjálfbæra þróun.
Auk Íslands eiga Nýja-Sjáland, Kosta Ríka og Sviss aðild að samningnum. Samningurinn var undirritaður 15. nóvember síðastliðinn og er vonast til aðildar fleiri ríkja eftir að hann tekur gildi. Verður samningurinn opinn öllum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) að því gefnu að viðkomandi ríki séu reiðubúin að undirgangast meðfylgjandi skuldbindingar.
Ákvæði samningsins
Samningurinn er, að sögn fulltrúa utanríkisráðuneytisins, sá fyrsti á sviði alþjóðaviðskipta sem nýtir hefðbundin ákvæði viðskiptasamninga til að styðja við orkuskipti og aðrar aðgerðir í loftslags- og umhverfismálum.
Kveðið er á um niðurfellingu tolla á skilgreindum umhverfisvænum vörum auk þess sem stuðlað er að þjónustuviðskiptum sem styðja við loftslagsaðgerðir, meðal annars á sviði jarðvarma.
Þá felur samningurinn í sér hömlur á ríkisstyrki og niðurgeiðslur til framleiðslu og neyslu jarðefnaeldsneytis og viðurkennir sjálfbærni hreinnar orkunýtingar og kolefnisföngunar Íslands og styður um leið viðleitni íslenskra þjónustuveitenda til útflutnings slíkra lausna.
Þó Ísland veiti ekki ríkisstyrki til vinnslu eða neyslu jarðefnaeldsneytis sem falla undir gildissvið samningsins, þá gera það önnur ríki. Því er, samkvæmt svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins, „til nokkurs unnið að takmarka slíka styrki á alþjóðavísu og jafna þannig samkeppnisstöðu hreinna orkugjafa. Ísland uppfyllir nú þegar þau leiðbeinandi viðmið umhverfismerkinga sem samningurinn kveður á um.“
Þórdís Kolbrún veitti ekki samtal við vinnslu fréttarinnar.