60 ára Viktor er fæddur í Hafnarfirði og ólst þar upp að hluta en að mestu leyti í Vestmannaeyjum. Hann býr núna í Hafnarfirði en dvelur góðan hluta ársins í Los Dolses sem er á ströndinni Costa Blanca á Spáni

60 ára Viktor er fæddur í Hafnarfirði og ólst þar upp að hluta en að mestu leyti í Vestmannaeyjum. Hann býr núna í Hafnarfirði en dvelur góðan hluta ársins í Los Dolses sem er á ströndinni Costa Blanca á Spáni.

Viktor vann í fiski á unglingsárunum og fór fyrst á sjó 19 ára gamall. Leiðin lá síðan í Stýrimannaskólann 1990 og hefur hann frá útskrift starfað sem stýrimaður og skipstjóri. Viktor hefur verið skipstjóri á frystitogaranum Merike síðastliðin sex ár hjá útgerðinni Reyktal, en hann hefur verið skipstjóri hjá Reyktal í sautján ár.

„Við löndum oftast í Noregi, komum í land 15. desember og þetta var fínn túr miðað við árstíma en það er oft lélegra fiskirí á haustin. Við lönduðum tæpum 600 tonnum af blönduðum afla, vorum á Smugusvæðinu og lönduðum í Båtsfjord,“ en það þorp er í Finnmörk, ekki fjarri landamærunum við Rússland.

„Þegar maður er að vinna úti á sjó þá reynir maður sem mest að sinna fjölskyldunni þegar maður er í landi,“ segir Viktor um áhugamálin. „En svo er ég líka alveg dottinn í golfið, er á fullu í því þegar ég er hérna á Spáni, en ég byrjaði ekki í golfinu fyrr en eftir síðustu áramót.“

Fjölskylda Eiginkona Viktors er Eydna Fossadal, f. 1976, frá Halldórsvík á Straumey, Færeyjum. Hún starfar sem fasteignasali á Spáni. Dóttir þeirra er María, f. 2012, og börn Viktors frá fyrra sambandi eru Heiðrún, f. 1990, Heiðdís Lára, f. 1993, og Ingvar Bjarni, f. 1994. Stjúpdóttir Viktors og dóttir Eydnu er Ragnhildur Nína, f. 1999. Foreldrar Viktors eru Ingvar Viktorsson, f. 1942, fv. bæjarstjóri í Hafnarfirði, búsettur í Hafnarfirði, og Margrét Scheving, f. 1944, félagsráðgjafi, búsett í Njarðvík.