Álftanes Þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson fer yfir málin með Justin James í fyrsta leik James fyrir Álftanes í gærkvöldi.
Álftanes Þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson fer yfir málin með Justin James í fyrsta leik James fyrir Álftanes í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjarnan gerði frábæra ferð til Njarðvíkur og lagði þar heimamenn að velli, 100:90, í 11. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Stjarnan er áfram í efsta sæti deildarinnar en nú með 20 stig, fjórum stigum fyrir ofan Tindastól í öðru sæti

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Stjarnan gerði frábæra ferð til Njarðvíkur og lagði þar heimamenn að velli, 100:90, í 11. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í gærkvöldi.

Stjarnan er áfram í efsta sæti deildarinnar en nú með 20 stig, fjórum stigum fyrir ofan Tindastól í öðru sæti. Tindastóll heimsækir Val á Hlíðarenda í kvöld. Njarðvík er í fimmta sæti með tólf stig.

Jafnræði var með liðunum lengst af áður en Stjörnunni tókst að sigla fram úr í fjórða leikhluta.

Hilmar Smári Henningsson var stigahæstur í leiknum með 35 stig fyrir Stjörnuna. Fyrirliðinn Ægir Þór Steinarsson bætti við 25 stigum auk þess að taka sex fráköst og gefa átta stoðsendingar.

Veigar Páll Alexandersson skoraði 22 stig fyrir Njarðvík. Hann tók þá sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Dominykas Milka bætti við 20 stigum og 12 fráköstum og fyrirliðinn Mario Matasovic skoraði einnig 20 stig ásamt því að taka sex fráköst.

Stórsigur Keflavíkur

Keflavík hafði betur gegn Þór frá Þorlákshöfn, 105:86, í Keflavík. Keflavík er í fjórða sæti með 12 stig líkt og Þór í sjöunda sæti.

Heimamenn skiptu stigunum afskaplega bróðurlega á milli sín. Stigahæstur var fyrirliðinn Halldór Garðar Hermannsson með 19 stig, Ty-Shon Alexander bætti við 18 stigum, fimm fráköstum og átta stoðsendingum og Jaka Brodnik var með 16 stig og sjö fráköst. Fjórir leikmenn til viðbótar skoruðu tíu stig eða meira í liði Keflavíkur.

Morten Bulow var stigahæstur í leiknum með 25 stig fyrir Þór. Nikolas Tomsick bætti við 24 stigum og átta stoðsendingum.

Mögnuð endurkoma Hattar

Höttur vann kærkominn útisigur á Álftanesi, 92:89, eftir magnaða endurkomu. Með sigrinum tókst Hetti að jafna Álftanes og ÍR að stigum. Öll eru þau með átta stig; Álftanes er í áttunda sæti, Höttur í níunda og ÍR í því tíunda.

Álftanes virtist vera með unninn leik í höndunum en í síðari hálfleik saxaði Höttur í sífellu á forskot Álftnesinga, komst yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 79:77 og reyndist svo hlutskarpara í lokin.

Adam Heede-Andersen var stigahæstur hjá Hetti með 21 stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar. Obadiah Trotter bætti við 20 stigum.

Dúi Þór Jónsson var stigahæstur í leiknum með 29 stig fyrir Álftanes. Bandaríkjamaðurinn Justin James, sem á að baki 72 leiki í NBA-deildinni, spilaði sinn fyrsta leik fyrir Álftanes og skoraði 15 stig.

KR vann í framlengingu

KR vann sterkan sigur á Grindavík, 120:112, í framlengdum leik í Vesturbæ. Með sigrinum fór KR upp í sjötta sæti þar sem nýliðarnir eru með tólf stig líkt og Grindavík í þriðja sæti.

Þorvaldur Orri Árnason var stigahæstur hjá KR með 30 stig auk þess sem hann tók átta fráköst. Linards Jaunzems bætti við 25 stigum, fimm fráköstum og sex stoðsendingum. Skammt undan var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 24 stig, 11 fráköst og 12 stoðsendingar.

Stigahæstur í leiknum var Devon Tomas með 31 stig fyrir Grindavík. Hann tók auk þess fimm fráköst og gaf níu stoðsendingar. Daniel Mortensen bætti við 25 stigum og tíu fráköstum. Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson var þá með 20 stig og 11 fráköst hjá Grindavík.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson