Jóhannes Vilhjálmsson fæddist í Reykjavík 20. ágúst 1955. Hann lést á Landspítalanum 6. desember 2024.
Foreldrar hans voru Vilhjálmur Jóhannesson, f. 6. júní 1931, d. 7. desember 1983 og Lilja Ágústa Jónsdóttir, f. 12. september 1931, d. 29. janúar 2015.
Systur hans eru Hjördís Vilhjálmsdóttir, f. 20. maí 1954, d. 9. maí 2015 og Lilja og Magnea Vilhjálmsdætur, f. 2. maí 1964.
Eiginkona Jóhannesar er Halldóra Kristjánsdóttir, f. 12. júní 1956. Dætur hans eru Sóley Jóhannesdóttir, f. 24.janúar 1994 og Snædís Jóhannesdóttir, f. 18.mars 1998.
Kærasti Sóleyjar er Sævar Örn Eiríksson, f. 22. október 1991 og eiga þau eina dóttur, Jóhönnu Kristínu Sævarsdóttur, f. 24. október 2024.
Kærasti Snædísar er Böðvar Freyr Stefnisson, f. 5. mars 1995.
Jóhannes átti heima í Efstasundi og Fellsmúla sem barn og gekk í Langholtsskóla og Álftamýrarskóla. Síðan lá leið hans í Iðnskólann í Reykjavík þaðan sem hann lauk námi í rafvirkjun og starfaði hann lengi við það, meðal annars hjá hernum á Keflavíkurflugvelli. Þegar faðir hans lést tók hann við dekkjaverkstæði hans og stofnaði síðan sitt eigið og rak í nokkur ár. Eftir það hóf hann störf hjá prentsmiðju Guðjóns Ó og síðar hjá Umslagi.
Hann fór í tölvunám og lærði rekstur og stjórnun fyrirtækja meðfram vinnu og loks fór hann í leiðsögunám ásamt Snædísi dóttur sinni hjá Háskóla Íslands og starfaði eftir það sem leiðsögumaður.
Hann var alla tíð mikill útivistarmaður, ferðaðist vítt og breitt um Ísland og stundaði bæði skotveiði og stangveiði.
Hann var einnig mikill fjölskyldumaður, frábær pabbi og fann sig líka mjög vel í afahlutverkinu, sem hann rétt náði að kynnast fyrir andlátið.
Útförin fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 20. desember 2024, klukkan 13.
Í dag kveðjum við góðan vin og veiðifélaga, Jóhannes Vilhjálmsson, eða Jóa eins og hann var alltaf kallaður. Ég kynntist Jóa fyrir rúmlega 45 árum þegar ég kom inn í stórfjölskyldu konu minnar og við fundum fljótt sameiginleg áhugamál okkar í útivist. Jói var sannkallaður ævintýramaður, var mikill jeppakarl og var oftast á breyttum jeppum sem kom sér vel þegar við fórum að stunda veiðiskap í ám og vötnum. Veiðiferðir okkar voru sérlega ánægjulegar og þá nefni ég sérstaklega veiði í Fáskrúð þar sem Jói var árnefndarmaður í mörg ár. Þar var veitt bæði vor og haust og voru ferðir okkar þangað hin besta skemmtun. Þegar stangveiðitímabilinu lauk að hausti ár hvert var farið að veiða gæs og rjúpu hjá frænku Jóa í Miðfirðinum og þar vorum við mörg ár í góðu yfirlæti. Afrakstur ársins var svo borinn fram í árlegri villibráðarveislu á heimili Jóa og Dóru. Við fjölskyldan nutum þess að vera boðin í fjölskylduveislur og ekki má gleyma garðveislunum á sumrin þar sem Jói hafði búið til sérstaklega fallegan garð, bæði í Brekkuseli og Vesturbergi, þar sem vandvirkni og útsjónarsemi var í fyrirrúmi, enda var hann sérlega laginn við allt sem hann tók sér fyrir hendur og lagði alltaf metnað í að gera hlutina vel. Jói var alltaf hress og hafði einstakan húmor sem smitaði út frá sér og átti auðvelt með að gleðja fólk í kringum sig með skemmtilegum sögum og hlátri. Jói var einstaklega traustur vinur og félagi í gegnum árin og hans verður sárt saknað.
Innilegar samúðarkveðjur kæra fjölskylda.
Eyjólfur, Heba og börn.
Í dag kveðjum við Jóhannes Vilhjálmsson, samferðamann og kæran vin. Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar hann fór að slá sér upp með Dóru. Þau fóru síðan fljótlega að búa saman og þá hófust okkar kynni í alvöru sem þróuðust yfir árin í djúpa vináttu.
Þau sem par voru mjög samhent og hlutu fljótt samnefnið JóDó. Fallegt heimili þeirra einkenndist af mikilli gestrisni og oft var fjölmennt. Þau höfðu bæði gaman af að elda og halda matarboð. Jói sá yfirleitt um grillið. Allir sem tóku þátt muna eftir honum léttklæddum að grilla af því að það glitti í sól, á meðan sátu aðrir í lopapeysum.
Jói var mikill útivistarmaður og naut þess að fara í jeppaferðir og útilegur. Við fórum margar ferðir saman og það var alltaf gaman. Jói var léttur í lund, var ekki að flækja málin að óþörfu og með það viðhorf til lífsins að sjá glasið hálffullt en ekki hálftómt. Hann stundaði rjúpna- og gæsaveiðar flest haust ásamt því að hafa gaman af laxveiðum. Hundarnir sem þau Dóra áttu voru góðir félagar Jóa í veiðunum og við hin nutum góðs af í matarboðum, fengum grafna gæs og lax á veisluborðum. Jói var ákaflega bóngóður og alltaf tilbúinn að aðstoða. Það vorum ófá viðvikin sem hann hjálpaði okkur með. JóDó eignuðust tvær dætur sem voru augasteinar föður síns. Hann náði sem betur fer að sjá fyrsta barnabarnið og er hún nefnd í höfuðið á honum. Við munum leggja okkar af mörkum við að segja henni frá afa sínum og þannig heiðra minningu hans.
Síðasta árið var áskorun vegna veikinda en hann bar sig alltaf vel og við erum þakklát fyrir samverustundirnar á árinu.
Jói var góður maður og fyrirmynd, því er það sárt fyrir okkur að horfa á hann hverfa á braut því við hefðum viljað hafa hann lengur meðal okkar. En eitt sinn skal hver deyja, og dauðinn er órjúfanlegur hluti lífsins sem vitjar okkar allra að lokum.
Það var okkar skilningur að Jói hafi ekki verið trúaður maður og okkur finnst eins og honum hafi fundist það óþarfi að velta fyrir sér hvað gerist eftir dauðann. En við höldum að það sé framhald eftir dauðann og trúum að Jói sé núna á góðum stað, með viskíglas í hendi að segja brandara. Þannig viljum við minnast hans.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Við vottum Dóru, Sóleyju, Snædísi og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.
Hér við skiljumst
og hittast munum
á feginsdegi fira;
drottinn minn
gefi dauðum ró,
hinum líkn, er lifa.
(Úr Sólarljóðum)
Baldvin Þ.
Kristjánsson, Gunnur Helgadóttir.