Thelma Dís Ágústsdóttir og Tryggvi Snær Hlinason hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2024 af KKÍ. Þetta er í 27. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998. Thelma og Tryggvi hljóta bæði nafnbótina í fyrsta sinn.
Knattspyrnukonan Arna Dís Arnþórsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við Stjörnuna. Arna Dís er 27 ára varnarmaður sem hefur verið á mála hjá Stjörnunni frá því í ársbyrjun 2019. Alls á Arna Dís 141 leik að baki í efstu deild þar sem hún hefur skorað sjö mörk.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir er sundkona ársins fimmta árið í röð hjá Sundsambandi Íslands og Anton Sveinn McKee sundkarl ársins hjá sambandinu sjöunda árið í röð. SSÍ tilkynnti valið í gær.
Elmar Kári Enesson Cogic hefur skrifað undir nýjan samning við uppeldisfélag sitt Aftureldingu, sem leikur í fyrsta sinn í efstu deild á nýju ári. Nýi samningurinn gildir út tímabilið 2026. Elmar Kári er 22 ára kantmaður sem hefur skorað 37 mörk í 84 leikjum fyrir liðið í næstefstu deild.
Sú sérstaka staða kom upp í leik Avanca og Porto í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik á miðvikudag að leik var hætt eftir rúmar átta mínútur vegna vallarskilyrða. Þorsteinn Leó Gunnarsson og samherjar í Porto voru 5:2 yfir þegar leikmaður Avanca varð fyrir meiðslum. Hálu gólfi var um að kenna og í kjölfarið var ákveðið að ekki væri hægt að halda áfram vegna slæms ástands þess. Leiknum verður haldið áfram að loknu heimsmeistaramótinu, þann 5. febrúar.
Mathias Pogba, eldri bróðir franska knattspyrnumannsins Paul Pogba, hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi í Frakklandi fyrir að kúga fé út úr Paul í slagtogi við fimm aðra. Í þriggja ára fangelsisdómi Mathias, sem er sjálfur fyrrverandi knattspyrnumaður, eru tvö ár skilorðsbundin. Hann var auk þess sektaður um 20.000 evrur.