Félagar Óskar með hundinum sínum Tobba sem fer með honum í sumarbústað og aðstoðar við skrifin.
Félagar Óskar með hundinum sínum Tobba sem fer með honum í sumarbústað og aðstoðar við skrifin. — Morgunblaðið/Karítas
Rithöfundurinn Óskar Guðmundsson er einn þeirra höfunda sem tilnefndir eru til glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans í ár, fyrir bók sína Brúðumeistarinn. Bókin kom út í janúar á þessu ári og segist Óskar hafa lokið við skrif hennar í fyrra, fyrir um ári

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Rithöfundurinn Óskar Guðmundsson er einn þeirra höfunda sem tilnefndir eru til glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans í ár, fyrir bók sína Brúðumeistarinn. Bókin kom út í janúar á þessu ári og segist Óskar hafa lokið við skrif hennar í fyrra, fyrir um ári. Hann varar því við því, í upphafi viðtals, að erfiðlega geti gengið að rifja upp skrifin þar sem hann hafi verið með hugann við önnur verkefni það sem af er ári. „Það gengur oft erfiðlega að rifja upp,“ segir Óskar kíminn og reynist slík upprifjun ekki nauðsynleg því söguþræðinum er ágætlega lýst á vef Storytel.

Þú ert tilnefndur til Blóðdropans fyrir Brúðumeistarann og þetta er í þriðja sinn sem þú ert tilnefndur til þeirra verðlauna. Það hlýtur að vera upphefð að hafa verið tilnefndur í þrígang?

„Jú, það er alltaf gríðarleg hvatning að vera tilnefndur. Ég fékk Blóðdropann fyrir fyrstu skáldsögu mína, Hilmu, og svo hafa komið þessar tilnefningar. Ég held að það hafi verið frábært fyrir mig, sérstaklega þar sem ég á það til eftir hverja bók að detta niður í einhvern öldudal og finnast allt ómögulegt sem ég geri. Þá hefur þetta virkað sem mikið pepp fyrir mig og kannski er þetta bara allt í lagi hjá mér,“ svarar Óskar.

Fer allt í ruslatunnuna í heilanum þegar þú ert búinn að skrifa bók?

„Já, einhvern veginn og það er einhver vanmáttartilfinning,“ segir Óskar. Því sé bæði heiður að hafa verið tilnefndur til verðlauna og hvatning til þess að halda ótrauður áfram.

Ekki með eina bók á ári

Nú er þessi bók aðeins til í formi hljóðbókar á Storytel. Var hún skrifuð með það form í huga?

„Nei, alls ekki, hefði ég verið fyrr á ferðinni hefði hún sennilega líka komið út sem bók. Dansarinn er fyrsta bókin í þríleik sem ég samdi um við Storytel, hún kom út áður og þá bæði sem hljóðbók og sem áþreifanleg bók. Það var hugmyndin með Brúðumeistarann líka en ég var seint á ferðinni og því náðist það ekki,“ svarar Óskar.

„Ég hef verið svolítið þannig að ég á gríðarlega erfitt með að senda frá mér til að ná ákveðnum tímapunkti, ef ég er ekki sjálfur orðinn ánægður. Ég er ekki endilega þessi rithöfundur sem er með eina bók á ári, ég er meira með bók annað hvert ár. Mér finnst ég þurfa þann tíma til að vera sáttur. Það kom eiginlega strax í ljós hjá mér, með fyrstu bókina, Hilmu. Ég var búinn að senda hana frá mér en það var alltaf eitthvað í maganum eða hausnum sem var að trufla mig og mér fannst hún ekki vera alveg tilbúin, þó ég væri búinn að senda hana frá mér. Þeir voru að fara að ýta á græna takkann á prentmaskínunum þegar ég hafði samband og stoppaði það og gaf mér ár til viðbótar,“ segir Óskar og hlær.

Það hefur borgað sig?

„Já, bæði fyrir mann sjálfan og svo gerðist hið óvænta að hún hlaut Blóðdropann,“ svarar Óskar.

Tímaflakkið flóknara

Heldurðu að það hafi haft áhrif á Brúðumeistarann að hún var samin sem hljóðbók? Þá á ég við áhrif á hvernig þú skrifaðir hana.

„Nei, ég held ekki. Það er reyndar svolítið þannig með hljóðbækur að það er eilítið flóknara að hlaupa fram og til baka í tíma. Ef þú ert að vinna með sögu sem gerist í dag og ætlar svo að rifja upp og fara mikið í upprifjunarhluta sem gerðust fyrir tíu eða tuttugu árum. Í bókarforminu, ef þú ert að flakka fram og til baka í tíma, geturðu notað skáletrun þegar þú ert að tala um fortíðina eða eitthvað slíkt en ein af þeim leiðum sem hægt er að nota í hljóðbókum er að nota aðrar raddir. Ég er vissulega með dálítið tímaflakk í þessum þríleik en við höfum alveg komist hjá því. Ég hef ekki þurft að breyta miklu. Svo erum við með algjöran snilling sem lesara, Daníel Ágúst Haraldsson. Hann er einn sá allra besti sem völ er á, held ég.“

Heldur óvenjuleg leið var líka farin við kynningu á fyrstu bók Óskars í þríleiknum, Dansarinn, sem kom bæði út á prenti og sem hljóðbók á Storytel. Daníel Ágúst las þá bók og fékk Storytel hann og tónlistarmennina Bomarz og Doctor Victor til að semja lag í tilefni af útgáfunni. Myndband var gert við lagið og fékk útgáfan í heild sinni fyrir vikið enn meiri athygli en ella. „Daníel Ágúst vann textann við lagið og þetta var gríðarlega skemmtilegt verkefni,“ segir Óskar.

Kúvent á miðri leið

Brúðumeistarinn fjallar um tvo drengi af vistheimilinu Björtuborgum í Hvalfirði sem finnast látnir í Reykjavíkurhöfn árið 1975. „Allt bendir til þess að um morð sé að ræða en rannsóknin lendir í öngstræti. Sannleikurinn liggur í láginni,“ segir á vef Storytel og að farið sé fram til ársins 1983. Þá fá fimm ólíkir menn bréf með líflátshótunum. Segi þeir ekki sannleikann muni þeir deyja og á hverju bréfi er mynd af strengjabrúðu. Málið ratar í hendur rannsóknarlögreglumannsins Valdimars og nýliðans Ylfu og líður ekki á löngu þar til tengsl koma í ljós milli morðsins, bréfanna og drengjanna sem fundust í höfninni átta árum áður. „Tvíeykið rannsakar málið í kappi við tímann en um leið þarf Ylfa að glíma við skugga eigin fortíðar með dyggum stuðningi Valdimars,“ segir á vef Storytel.

Óskar segist í bókinni flakka um í tíma, fara milli fortíðar og nútíðar og því hafi hann þurft að vera nokkuð skýr hvað tímasetningu varðar. Það hafi þó ekki truflað hann við skrifin. „Ég hef ekki þurft að setja mig í einhverjar hljóðbókar-rithöfundarstellingar,“ segir hann.

Hver finnst þér hafa verið mesta glíman við að semja glæpasögu?

„Að láta þær ganga upp, þennan söguþráð. Ég hef í tveimur eða þremur sögum verið búinn að ákveða hver er gerandinn en örugglega í tveimur eða þremur hef ég algjörlega kúvent þeirri hugmynd, einhvers staðar á miðri leið jafnvel,“ segir Óskar. Góð yfirsýn sé lykilatriði og hann hafi notað þá aðferð að setja upp á vegg framvindu mála, tímasetningar og slíkt, þannig að hann hafi það fyrir augunum. Þá hjálpi líka til að prenta síðurnar út, leggja á gólfið og líta þannig yfir verkið. Oft komi þannig í ljós hæðir og lægðir, of mikil spenna á ákveðnum köflum og fullmikil rólegheit á öðrum.

Óskar vinnur nú að næstu bók sem hann segir að verði lokahnykkurinn í þríleik hans um rannsóknarlögreglumennina Valdimar og Ylfu. En spyrjum þó að leikslokum.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson