Snorri Steinn Guðjónsson
Snorri Steinn Guðjónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Steinn Guðjónsson hefur valið þá 18 leikmenn sem verða í landsliðshópi Íslands fyrir heimsmeistaramót karla í handknattleik í janúar næstkomandi. Íslenska landsliðið hefur leik í Zagreb gegn Grænhöfðaeyjum hinn 16

HM 2025

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Snorri Steinn Guðjónsson hefur valið þá 18 leikmenn sem verða í landsliðshópi Íslands fyrir heimsmeistaramót karla í handknattleik í janúar næstkomandi. Íslenska landsliðið hefur leik í Zagreb gegn Grænhöfðaeyjum hinn 16. janúar en Kúba og Slóvenía eru hin lið G-riðilsins. Ísland mætir fyrst Svíum í tveimur vináttulandsleikjum, 9. og 11. janúar, áður en liðið heldur til Zagreb.

Ómar Ingi Magnússon, einn af bestu leikmönnum landsliðsins, er meiddur og verður ekki með á mótinu, allavega til að byrja með en það er örlítill möguleiki að hann geti komið inn ef Ísland nær langt. Í hans stað kemur Teitur Örn Einarsson, leikmaður Gummersbach í Þýskalandi, en valið stóð á milli hans, Kristjáns Arnar Kristjánssonar, leikmanns Skanderborg í Danmörku, og Arnórs Snæs Óskarssonar, leikmanns Kolstad í Noregi.

Telur þetta vera besta liðið

„Valið var alls ekki auðvelt, þetta voru miklar vangaveltur hjá mér. Ég pældi ekki einungis í leikjum þeirra undanfarið því sem landsliðsþjálfari verð ég að hugsa í miklu stærra samhengi þegar ég vel svona hóp. Ég hef ætlað að velja Teit áður í hópinn en hann hefur þá þurft að draga sig úr. Ég segi ekki að ég sé að taka áhættu en ég hef aldrei áður unnið með honum. Mér leið bara best með það að fá Teit inn og tel þetta vera besta liðið. Ég er spenntur að fá hann inn í hópinn,“ sagði Snorri Steinn í samtali við Morgunblaðið í gær.

Snorri Steinn valdi þá Arnar Frey Arnarsson, leikmann Melsungen í Þýskalandi, fram yfir Svein Jóhannsson, leikmann Kolstad í Noregi. Arnar hefur verið viðloðandi landsliðið undanfarin ár en fyrir leikina gegn Bosníu og Georgíu í undankeppni EM 2026 í nóvember ákvað Snorri að prófa sig áfram með Svein frekar en Arnar upprunalega. Út af meiðslum annarra leikmanna kom Arnar á endanum inn í hópinn en Snorri var ánægður með hans innkomu.

„Ég vildi prófa Svein síðast og var alls ekki óánægður með hann. Hann stóð sig vel á æfingum en fékk vissulega ekki mörg tækifæri í leikjunum tveimur. Það er erfitt og ósanngjarnt að dæma hann út frá því.

Ég þekki Arnar vel og veit hvað hann getur. Ég hef oft verið hreinskilinn við hann og tel að hann geti verið enn betri og látið meira til sín taka fyrir okkur. Ég var sérstaklega ánægður með innkomu hans í Georgíuleiknum. Þetta var prófsteinn sem mér fannst hann standast,“ bætti Snorri Steinn við.

Heilt ár getur breytt ansi miklu en það eru aðeins Orri Freyr Þorkelsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson ásamt Teiti Erni sem koma inn frá síðasta stórmóti. Þeir tveir leika í Portúgal, Orri með Sporting og Þorsteinn með Porto, og munu eflaust fá þó nokkur tækifæri með landsliðinu í janúar.

Í fjarveru Ómars Inga gefst tækifæri fyrir aðra frábæra handboltamenn til að sýna sig og verður fróðlegt að sjá hvernig Snorri stillir liðinu upp og hversu mikið hver spilar í næsta mánuði.

Höf.: Jökull Þorkelsson