Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri atvinnu- og borgarþróunarteymis á skrifstofu borgarstjóra í Reykjavík, segir að vegna mikilla anna hjá borginni verði einhver dráttur á svörum varðandi tvær lóðir undir bænahús í borginni. Stefnt sé að því að þau berist blaðamanni fyrir lok janúar.
Fyrirspurnin varðaði úthlutun lóðar undir mosku á Suðurlandsbraut 76 og úthlutun á lóð við Mýrargötu undir kirkju rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar. Spurt var hversu lengi væri hægt að halda lóð án þess að hefja framkvæmdir. „Umræddir aðilar munu hafa lagt fram teikningar til að rjúfa frestunartímann en er hægt að gera það út í hið óendanlega,“ var spurt.
Tilefnið er frétt í Morgunblaðinu 17. desember sl. þar sem fram kom að bygging mosku á Suðurlandsbraut 76 væri ekki fullfjármögnuð. Fram kom í Morgunblaðinu 27. ágúst 2021 að félagið fékk leyfi til að byggja moskuna árið 2019 en að ekki hefði verið hægt að hefja framkvæmdir strax. Nú er árið 2025 að ganga í garð og enn óvissa um framhaldið.
Hins vegar var tilefnið úthlutun lóðar til rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar hinn 2. október 2008 fyrir byggingu kirkju. Hinn 29. apríl 2011 var svo gerður lóðarleigusamningur um lóðirnar Bræðraborgarstíg 2 og Bakkastíg 8 og var í þeim að finna ákvæði um framkvæmdafresti.