Félagið Hekla fasteignir ehf. hefur keypt hús heilsugæslunnar í Drápuhlíð 14-16 í Reykjavík. Kaupverð var 341,1 milljón króna eða um 54 milljónum króna undir ásettu verði. Ríkissjóður Íslands átti 85% hlut í húsinu og Reykjavíkurborg 15% hlut.
Með því lýkur tæplega 40 ára sögu en sagt var frá því í Morgunblaðinu 22. maí 1986 að búið væri að opna heilsugæslu í Hlíðunum. Þar hefði áður verið dælustöð Hitaveitu Reykjavíkur.
Keypti áður á Víðimel
Skráður eigandi Heklu fasteigna er Friðbert Friðbertsson, gjarnan kenndur við Heklu, en hann endurgerði fyrir nokkrum árum Víðimel 29 sem hýsti áður kínverska sendiráðið. Þar eru nú fimm íbúðir.
Fjallað er um þau viðskipti og kaupin á húsi heilsugæslunnar í Morgunblaðinu í dag. » 10