Markið Ari Sigurpálsson skorar markið mikilvæga úr vítaspyrnu fyrir Víkinga í Linz í gærkvöld.
Markið Ari Sigurpálsson skorar markið mikilvæga úr vítaspyrnu fyrir Víkinga í Linz í gærkvöld. — Ljósmynd/Víkingur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víkingar halda áfram að skrifa sögu íslensks fótbolta og nú eru þeir komnir í umspilið í Sambandsdeild karla eftir jafntefli, 1:1, gegn LASK í Linz í Austurríki í gærkvöld. Víkingar enduðu þar með í nítjánda sæti deildarinnar með átta stig úr sex leikjum

Sambandsdeild

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Víkingar halda áfram að skrifa sögu íslensks fótbolta og nú eru þeir komnir í umspilið í Sambandsdeild karla eftir jafntefli, 1:1, gegn LASK í Linz í Austurríki í gærkvöld.

Víkingar enduðu þar með í nítjánda sæti deildarinnar með átta stig úr sex leikjum. Þar með er ljóst að þeir mæta annaðhvort Panathinaikos frá Grikklandi eða Olimpija Ljubljana frá Slóveníu í umspilinu. Dregið verður til þess á morgun og leikið um miðjan febrúar.

Liðin í 19. og 20. sæti, Víkingur og Borac Banja Luka frá Bosníu, verða dregin gegn liðunum í 13. og 14. sæti, Panathinakos og Olimpija.

Með Panathinaikos leikur Sverrir Ingi Ingason landsliðsmiðvörður sem og Hörður Björgvin Magnússon sem nær hins vegar ekki að spila gegn Víkingum vegna meiðsla.

Þetta er stórglæsilegur árangur hjá Víkingum og hann á eftir að koma fleiri íslenskum liðum vel því ásamt því að komast þetta langt lyfta þeir Íslandi enn hærra á styrkleikalista Evrópu og gefa íslenskum liðum mögulega færi á að koma inn í Evrópumótin á betri stöðum en hingað til.

Hefðu þolað tveggja marka tap

Þegar upp var staðið þróuðust aðrir leikir þannig að Víkingar hefðu þolað að tapa leiknum með tveggja marka mun og komast samt áfram í umspilið.

Þriggja marka ósigur hefði hins vegar sent þá niður í 25. sætið og Hearts frá Skotlandi hefði tekið þeirra sæti í umspilinu.

Víkingar náðu forystunni á 23. mínútu. Eftir langt innkast skallaði Nikolaj Hansen boltann og hann fór í hönd varnarmanns LASK. Vítaspyrna og úr henni skoraði Ari Sigurpálsson af öryggi, 1:0 fyrir Víking.

Það entist ekki lengi því á 27. mínútu jafnaði Marin Ljubicic með viðstöðulausu skoti af markteig eftir að Maximilian Entrup komst að endamörkum hægra megin og renndi boltanum út til hans, 1:1.

Sex mínútum síðar komst Entrup í færi vinstra megin í vítateignum en Ingvar Jónsson lokaði vel á hann og varði með fótunum.

Litlu munaði að Víkingar kæmust yfir á ný á 38. mínútu þegar Valdimar Þór Ingimundarson skallaði boltann inn að vítapunkti þar sem Nikolaj Hansen skallaði af krafti í þverslána og út.

Ljubicic komst í ágætt færi vinstra megin í vítateig Víkings á 43. mínútu en Ingvar kom vel út á móti honum og varði í horn.

Misstu Jón Guðna út af

Víkingar urðu fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Jón Guðni Fjóluson meiddist og þurfti að fara af velli. Halldór Smári Sigurðsson kom í hans stað. Staðan var 1:1 í hálfleik og Víkingar áfram í 19. sæti deildarinnar miðað við stöðuna þá.

Í seinni hálfleik gerðist fátt upp við mörkin. LASK skoraði fljótlega en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Ingvar Jónsson greip vel inn í leikinn nokkrum sinnum en Víkingar voru ekki í of miklum vandræðum með að halda fengnum hlut og áttu ágætar sóknir inn á milli.

Þegar fimm mínútna uppbótartími var að hefjast fékk Karl Friðleifur Gunnarsson sitt annað gula spjald og var því rekinn af velli.

Víkingar fengu samt færi undir lokin þegar Gísli Gottskálk Þórðarson brunaði upp völlinn og skaut frá vítateig en rétt fram hjá markinu hægra megin.

Víkingar voru ekki í vandræðum með að sigla jafnteflinu heim á síðustu mínútunum og gátu fagnað vel í leikslok.

Karl og Nikolaj í banni

Karl Friðleifur og Nikolaj Hansen verða í banni í fyrri leik umspilsins því Karl fékk rauða spjaldið og Nikolaj fékk gult spjald sem kostar hann leikbann.

Víkingar eru nú komnir í kærkomið vetrarfrí eftir langt og strangt tímabil og eina 47 mótsleiki. Þeir geta þó ekki slakað á lengi þar sem nýtt tímabil hefst á umspilsleikjunum í febrúar.

Fjögur Íslendingalið áfram

Fjögur af Íslendingaliðunum fimm í keppninni komust áfram. Albert Guðmundsson og samherjar hans í Fiorentina fara beint í 16-liða úrslitin þar sem þeir enduðu í þriðja sæti. Albert lék fyrstu 57 mínúturnar í jafntefli gegn Vitória í Portúgal, 1:1.

Sverrir Ingi spilaði allan leikinn með Panathinaikos sem vann Dinamo Minsk frá Hvíta-Rússlandi auðveldlega, 4:0, og endaði í 13. sæti eins og áður sagði.

Andri Lucas Guðjohnsen lék allan leikinn með Gent frá Belgíu sem tapaði óvænt fyrir Larne á Norður-Írlandi, 1:0. Gent endaði í 17. sæti og mætir annað hvort Real Betis frá Spáni eða Heidenheim frá Þýskalandi.

FC Köbenhavn, með Rúnar Alex Rúnarsson markvörð á varamannabekknum, tapaði 3:0 fyrir Rapid Vín í Austurríki og lendir líka gegn annaðhvort Real Betis eða Heidenheim.

Guðmundur Þórarinsson og félagar hans í Noah frá Armeníu eru hins vegar úr leik því þeir töpuðu 4:3 fyrir TSC Backa Tobola í Serbíu eftir að hafa komist í 3:1. Sigur hefði þó ekki nægt þeim vegna slæmrar markatölu.

Höf.: Víðir Sigurðsson